Nokkur orð um Platon og heimspeki fornaldar
Heimspeki og skipulegt vísindastarf í Evrópu þróaðist fyrst hjá Grikkjum á 6. öld f. Kr. Grikkir bjuggu á þessum tíma þar sem nú er Grikkland, strönd Tyrklands og sunnanverð Ítalía. Saga evrópskrar heimspeki í fornöld er því fyrst og fremst saga grískrar heimspeki. (Í Kína og á Indlandi voru líka uppi lærdómsmenn löngu fyrir okkar tímatal sem rituðu um heimspekileg efni en um þá verður ekki fjallað hér.)

Gríski heimspekingurinn Platon fæddist einhvern tíma í kringum 427 f.Kr. og dó um það bil 80 árum síðar. Hann er, ásamt lærimeistara sínum Sókratesi, merkasti upphafsmaður evrópskrar heimspeki. Fræðimenn sem fjalla um hugmyndasögu eru á einu máli um að fáir eða engir hafi haft jafnmikil áhrif á hugsunarhátt og menningu Evrópubúa.

Sem ungur maður heillaðist Platon af vitringnum Sókratesi sem fæddist árið 470 f. Kr. og var tekinn af lífi 399 f. Kr. Með Sókratesi urðu þáttaskil í þróun grískrar heimspeki í fornöld því hann fjallaði einkum um siðfræði og hvernig best sé fyrir menn að lifa lífinu en fyrirrennarar hans fjölluðu einkum um viðfangsefni sem eiga meira skylt við náttúruvísindi en siðfræði og eru því kallaðir einu nafni náttúruspekingar.

Um náttúruspekingana (sem flestir voru uppi fyrir daga Sókratesar) er fremur lítið vitað og öll rit þeirra eru glötuð. Meðal þeirra merkustu má telja Anaxímander, Pyþagóras og Demókrítos.

* Anaxímander var fæddur um 610 f. Kr. og er elsti heimspekingur sem eitthvað er vitað um að ráði. (Sá elsti sem nafngreindur er í fornum ritum er Þales, lærimeistari Anaxímanders, en um kenningar hans er fremur lítið vitað.) Meðal merkra kenninga sem Anaxímander hélt fram má nefna að jörðin svífi í geimnum en standi ekki á neinni undirstöðu og að hið eina óbreytilega í veröldinni sé lögmálið sem stjórnar því hvernig allir hlutir breytast. Síðarnefnda kenningin er undanfari vísindalegra kenninga um náttúrulögmál.
* Pyþagóras fæddist um 580 f. Kr. og er m.a. frægur af því að Pyþagórasarreglan um rétthyrnda þríhyrninga er nefnd eftir honum. Meðal helstu kenninga Pyþagórasar er að veröldin fylgi stærðfræðilegum reglum og að kunnátta í stærðfræði sé lykill að skilningi á veruleikanum. Einnig hélt Pyþagóras fram þeirri kenningu að sálin lifi af líkamsdauðann og endurfæðist aftur og aftur í nýjum og nýjum líkama. Platon var undir áhrifum frá Pyþagórasi og aðhylltist bæði kenningar hans um stærðfræði og um ódauðleika sálarinnar.
* Demókrítos var samtímamaður Sókratesar (fæddur um 460 f. Kr.). Hann hélt fram eins konar efnishyggju og taldi að allur veruleikinn væri gerður úr atómum (örsmáum einföldum efniseindum sem raðast saman í stærri hluti). Atómkenning Demókrítosar var endurvakin á 17. öld. Hún er undanfari frumeindakenninga í eðlis- og efnafræði nútímans.

Sókrates og Platon bjuggu báðir í Aþenu sem bæði var háborg grískra mennta og lengi vel voldugasta ríki hins gríska menningarheims (sem náði yfir miklu stærra svæði en Grikkland gerir nú á tímum). Sem dæmi um gróskuna í menningarlífi þessa tíma má nefna að þegar Sókrates var upp á sitt besta voru frumsýnd um 20 ný leikrit á ári í Aþenu.

Platon var kominn af auðugum ættum (öfugt við Sókrates sem var fátækur) og hann notaði auðæfi sín til að stofna fyrsta háskóla í heimi sem hét Akademia (eftir staðnum sem hann stóð á rétt utan við Aþenuborg). Sá skóli starfaði í meira en þúsund ár og eftir honum eru æðri menntastofnanir nefndar á allmörgum tungumálum (sbr. t.d. orðasambandið academic institution sem haft er um æðri menntastofnanir á ensku).

Sókrates skrifaði engar bækur en til eru nokkrar lýsingar af honum sem ritaðar voru af samtímamönnum auk varnarræðunnar sem Platon skráði.

Platon skrifaði margar bækur og Sókrates er aðalpersóna í þeim flestum. Rithöfundarferli Platon er yfirleitt skipt í þrjú tímabil. Á fyrsta tímabilinu skrifaði hann einkum stuttar samræður þar sem Sókrates er í aðalhlutverki. Talið er að í þessum fyrstu bókum sínum lýsi Platon Sókratesi nokkurn veginn eins og hann var í raun og veru. Samræðan Kríton (sem er í bókinni Síðustu dagar Sókratesar) tilheyrir þessu fyrsta tímabili. Önnur merk samræða frá fyrsta tímabilinu er Prótagóras.

Frægustu rit Platons eru frá miðtímabilinu á ferli hans. Hér má t.d. nefna Ríkið, Samdrykkjuna og Faídón. Í öllum þessum ritum lætur Platon Sókrates halda fram kenningum sem er talið er að séu ekki í raun og veru upprunnar hjá Sókratesi heldur hafi Platon sjálfur mótað þær eftir dauða Sókratesar. Meðal þessara kenninga má frægastar telja:

* Frummyndakenninguna.
* Kenningu um að sál og líkami séu tvennt ólíkt og sálin geti lifað áfram þótt líkaminn deyi.
* Að nám sé upprifjun.
* Að best sé að ríkinu sé stjórnað af vísindamönnum eða sérfræðingum og lýðræði sé afleit stjórnskipan.

Af þessum fjórum kenningum koma þrjár þær fyrstnefndu fyrir í Faídóni. Meginefni samræðunnar er kenningin um ódauðleika sálarinnar.
*
Af grískum heimspekingum í fornöld sem uppi voru eftir daga Platons má frægasta telja:

* Aristóteles (384-322 f. Kr.) sem var nemandi í skóla Platons. Hann skrifaði m.a. rit um rökfræði og varð fyrstur manna til að gera fræðilega grein fyrir röksemdafærslum (hvernir hægt er aðþekkja þær gildu frá þeim ógildu o.fl.). Einnig vann hann rannsóknir í líffræði og skrfiaði merkar bækur um siðfræði og stjórnmálaheimspeki. Aristóteles ræðir víða um kenningar fyrirrennara sinna (m.a. náttúruspekinganna sem uppi voru fyrir daga Sókratesar) og rit hans eru merk heimild um þróun grískrar heimspeki.
* Pyrrón (360-270 f. Kr) boðið efahyggju og taldi að aðrir heimspekingar héldu fram kenningum sem engin vissi hvort væru sannar eða ósannar. Pyrrón sagði að til að öðlast sálarró (andlegan þroska) ættu menn að sætta sig við að þeir geti lítið sem ekkert vitað og venja sig á að lifa í sátt við óvissuna.
* Epikúros (341-270 f. Kr.) tók upp efnishyggju og frumeindakenningu Demókrítosar. Hann áleit að sálin leystist upp og hætti að vera til um leið og líkaminn deyr og kenndi að siðfræði ætti að snúast um vellíðan í þessu lífi en ekki undirbúning fyrir framhaldslíf.
Living in the realtime…Dreaming in digital…Thinking in binaries…Talking in IP…