Ég sá í einni greinninni hér að neðan einhverskonar skítkast í póstmódernisma en um leið að menn kæmust ekki út úr honum vegna þess að hann hefur mótað alla heimspeki o.s.frv., o.s.frv.

Í þeim pælingum finnst mér brenna svolítið við að menn líti á póstmódernisma sem aðferðafræði. Það vill vissulega brenna við að alvöru fræðinmenn noti póstmódernisma sem aðdráttarafl í titlum á bókum og ritum en ég tel mjög mikilvægt að menn hætti að nota póstmódernisma sem aðferðafræði og líti á hann sem ástand. Kíkjum á kenningar tveggja fræðimanna um ástandið.

La condition postmoderne eftir Lyotard er orðið svolítið gamalt rit en stendur engu að síður fyrir sínu. Hann telur sig geta bent á nokkra þætti í samfélaginu sem bendi á mjög eindreginn hátt til þess að svokallaðar leiðarsagnir (grand récit) séu hægt og rólega að hverfa og ef maður spáir aðeins í söguna er það merkilega rétt hjá honum. Á miðöldum var Guð leiðarsögnin og allt miðaðist við hann. Hann var óskeikull, uppspretta rökhyggju og sannleika. Á endurreisnartímanum voru það kenningar Forn-Grikkja sem tóku stöðu Guðs og urður viðmið alls, t.d. í listum. Á 18. og 19. öld voru það vísindin og þau eru það vissulega enn. Við lifum á tímum gríðarlegrar vísindahyggju og það þarf nú ekki að fara langt til þess að sjá að erfðafræðin er lausn alls ills í dag, hana skal styrkja með ráðum og dáðum. Fólk mun hætta að deyja úr krabbameini, aids, hrörnunarsjúkdómum og gott ef ekki heimsku líka. Ætli menn eigi ekki bara eftir að hætta að deyja fyrir fullt og allt. En sagan sýnir að þessar leiðarsagnir hafa misst gildi sitt, menn hafa hætt að trúa á þær og smátt og smátt hafa menn gefist upp á þeim. Með þá vitneskju bak við eyrað er óhætt að segja að ástand þekkingarinnar sé í uppnámi. Við getum ekki verið viss um neitt. Kenningar Lyotards eru einnig pólitískra og hann bendir á að í samfélagi dagsins í dag hafi allir hlutir skiptagildi og að hugsanlega sé fjármagn orðin sú mælistika sem allt skuli miðast við í dag. Það er áhugavert að velta þessu fyrir sér þegar maður spáir bara í það hvaða þekking er talin mikilvægust í dag. Það er einmitt sú þekking sem byggir annað hvort á tölvum eða erfðafræði. Heimspekileg þekking þykir ekki merkileg vegna þess að hún gefur svo lítið í aðra hönd. Þess vegna spyrja mig allir: “Og hvað á svo að gera þegar þú ert orðinn master í bókmenntum?” og glotta svo við tönn og hugsa með sér að ég muni aldrei ná langt. Bókmenntafræðingar geta ekki orðið ríkir: ergó, þekking þeirra er einskis nýt. Mælistikan er fjármagnið. Leiðarsögini er kapítal. Það, ásamt uppnámi þekkingarinnar er hið póstmóderníska ástand.

Annar þekktur fræðimaður á sviði póstmódernismans er Baudrillard. Hann hefur greint svipaða þætti í samfélaginu og Lyotard en með aðeins öðrum hætti. Samkvæmt kenningum hans lifir einstaklingur í tæknivæddu nútímasamfélagi ekki eingöngu í raunverunni (e. reality) heldur einnig í ofurraunveru (e. hyper-reality)sem byggist á setu hans við óendanlegt magn miðla sem draga upp raunveruleika í fréttum sínum af stöðum og atburðum sem einstaklingurinn upplifir aldrei sjálfur. Þannig hafa allir Íslendingar gengið á Norðurpólinn í ofur-raunverunni, þó svo að einungis einn hafi gert það. Það eru þannig til tveir Norðurpólar, sá sem við “upplifum” í argagrúa miðla annars vegar og sá sem … oh, ég man ekki hvað hann heitir… upplifiði á göngu sinni. Annar er raunverulegur, en hinn er ofurraunverulegur. Það ber náttúrlega að varast það að taka þessar kenningar of alvarlega og ætla að halda því fram að raunveran sé að líða undir lok (nokkuð sem margir “póstmódernískir heimspekingar” hafa gerst sekir um). Raunveruleikinn er ennþá til. Ef ég lem í skjáinn sem ég sit límdur við finn ég raunverulega til. En það sem mótar okkur, skoðanir okkar og mynd af heiminum er simulacran sem ríkir í ofurraunveruleika tölvuskjáa og sjónvarpsskjáa. Við fáum útþynnta mynd af heimsmálunum í fréttum, lesum “ítarlegar” fréttaskýringar í blöðunum en við erum aldrei raunverulega á staðnum. Við erum á “ofurstað” og mótum okkur skoðanir, fellum dóma og segjum frá á forsendum þessa “ofurstaðar.” Dæmi um þetta gætu verið átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Við fáum 3 mínútna fréttapakka um eitt og annað, allir íslendingar sem fylgjast með fréttum telja sig vita hvað er að gerast, þekkja staðhætti o.s.frv. en eru í raun bara í “Ofur-Ísrael,” stað sem búinn er til á skjánum okkar.

Þessir ágætu heimspekingar hafa þannig bent á að allar þær tækniframfarir og þær breytingar sem urðu á vestrænni menningu með módernismanum, hafa kallað fram ákveðið ástand sem hægt er að greina. Mikilvægasta einkenni þessa ástands er að tungumálið, eina verkfæri okkar til að skilgreina og heiminn og gera hann að okkar, er ekki lengur óskeikult. Með því að greina fleiri þætti samfélagsins sem tungumál hljóta þeir að lúta sömu lögmálum og tungumálið. Vísindin verða skeikul, heimspekin hættir að ná utan um sjálfa sig, fréttaflutningur missir trúverðugleika sinn og staða einstaklingsins verður óræð.

Það sem póstmódernísk heimspeki ætti að snúast um að mínu viti væri að nota klassísk verkfæri sín, rannsóknir og rökfestu til þess að vinna í þessu ástandi. Meginspurningar heimspekinnar ættu þess vegna alltaf að vera sú sama: Hvað er sannleikur? Hvers vegna erum við hér? Hvað er hugsun? o.s.frv. en viðmiðin verða að breytast og taka mið af hinu póstmóderníska (lesist: síðkapítalíska) ástandi þekkingarinnar. Sé einhver ennþá að lesa þakka ég stórkostlega framför á Huga með þessu áhugamáli.