Úff… ég ætlaði að skrifa eitt stykki grein hingað á hugi.is/heimspeki til þess að reyna að koma skipulagi á hugrenningar mínar síðan í gær. Með það í huga kveikti ég á þeirri eðlu afurð Microsoft risans, ritvinnsluvöndulinn Word en það er alveg með ólíkindum hvað það andlausa apparat er fljótt að drepa niður hverja einustu frumlegu hugsun.
Svo ég biðst fyrirfram afsökunar á fremur þvinguðum skrifum.

Ég og faðir minn áttu sem sagt í dálítilli orðasennu í gærmorgun varðandi hlutverk Ríkisins í mannlegu samfélagi. Faðir minn, sem endranær, var óþreyttur að verja báknið á meðan ég vildi finna því allt til foráttu. Tilgangur ríkisins getur verið margvíslegur, allt frá því að þjóna duttlungum geðbilaðra einræðisherra eða halda uppi einhverri fámennri höfðingjastétt og til þess að viðhalda framþróun og velferð í lýðræðislegu þjóðfélagi. Og allt þar á milli.
Burtséð frá því þá er það sameiginlegt öllum ríkjum er hins vegar það hvernig ríkið “nærist”. Aðferðafræðin er allstaðar hin sama. Hún skiptist í meginatriðum í þrennt: Skatta, tolla og sektir. Eða boð, bönn og refsingu. Skilyrðingu, takmarkanir og hin blinda hefnd.
Það er ekki laust við að mér finnist þessi hugmyndafræði, sem gegnsýrir samfélag manna, bæði óheilbrigð og óeðlileg, lái mér hver sem vill. Einn þeirra sem hikar ekki við það er hann karl, faðir minn og nefndi því til rökstuðnings mýmörg dæmi þess þar sem þetta kerfi reynist nauðsynlegt. Uppáhaldsdæmin mín voru þau hvort fólki ætti að leyfast að stela brauðhleifum úr matvörubúðum óhindrað og svo nauðsyn ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn fátækra foreldra .
Tja, ég varð eiginlega kjaftstopp, auðvitað verð ég að viðurkenna að báðir punktarnir eru góðir og gildir. En samt var það mér engin huggun. Aðferðafræði stóð óhögguð, meingölluð. Eiginlega hallast ég að því nú, að það hafi verið rökvilla af hendi föður míns að ætlast til þess að það að líta einungis á björtu hliðar málsins réttlæti á einhvern hátt kerfið. Eins og þetta sé eina mögulega gerð samfélags þar sem fólki er varnað glæpum og almenn velferð ríkir. Miðað við það hversu rotið kerfið er í grunninn þá held ég í rauninni að sú velferð og það réttlæti sem þó ríkir núna sé í sann einungis aukaafurð sem kerfið elur af sér, til þess að bæla niður uppreisnaranda og mannlega reisn einstaklingsins.
Fólk lætur yfirleitt ekki samansemmerki á milli núverandi stjórnarhátta og þá stjórnarhátta sem ríktu á miðöldum og eiga rætur sínar lengst aftan úr forneskju. Nei, fólki finnst vera þar á milli grundvallarmunur, því við búum nú við lýðræðisfyrirkomulag, annað en sem áður var. Við viljum frekar tengja okkur við það lýðræðis sem ríkti í Grikklandi hinu forna og Rómarveldi ungu. Í raun og sann á lýðræði okkar lítið skylt við það, annað en formið. Því eins og helleníska lýðræðið var beint framhald af einræðisfyrirkomulaginu þar áður þá er núverandi vestrænt stjórnarfar rökrétt framhald af einveldunum, og þar áður höfðingjaríkinu. Eins og hið núverandi íslenska lýðveldið er einungis bastarður hins danska konungsdæmi. Það hefur bara aðlagast og fyrirbærið í sjálfu sér, án þess að ég persónugeri það eitthvað frekar sem kóng eða prest, hefur einfaldlega brugðist við uppreisn fjöldans og umbreytt sér lítillega til þess að koma í veg fyrir að hið raunverulega ríki einstaklingsins verði endurreist. Já, það getur verið að kerfið hafi kastað af kórónunni og fórnað aðalstéttinni og sett í staðin atvinnuskrumara sem eiga að heita að ríkja í nafni skrílsins en í grunninn hefur ekkert breyst. Kerfið er alveg jafn rotið. Skattur, tollar og sektir.

Ég spurði föður minn hvernig hann réttlætti sektun og refsingu einstaklings sem stæli brauðhleifi úr matvörubúð. Jú, svaraði hann, maðurinn hefði seilst út fyrir ákveðin siðferðisleg mörk og þannig kallað afleiðingarnar yfir sig.
Aha, svo það er hlutverk ríkisins að sjá um að siðferðisleg mörk séu haldin. Svo þótti föður mínum vitaskuld vera. Mér þótti það afar áhugavert. Mér finnst það nefnilega ekkert liggja svo ljóst við hvað eigi að teljast siðferðislega rétt og hvað eigi að teljast siðferðislega rangt. Er það siðferðislega rangt að stela brauðhleifi úr matvörubúð, spurði ég föður minn. Vissulega þótti honum svo. Af hverju?
Hann kom með hundrað svör, þið þekkið þau öll. Þá spurði ég hann hvort hann sjálfur myndi stela brauðhleifi úr matvörubúð ef slíkt hefði engar afleiðingar. Eftir smávegins umhugsun svaraði hann játandi. Allir myndu gera slíkt ef þeir stæðu ekki andspænis afleiðingunum.
Allir myndu gera það. Það stangast sem sagt ekki á við náttúrulegt siðferði mannsins. Það er í raun og veru ekki siðferðislega rangt í sjálfu sér að stela brauðhleif. Það er bara eitthvað sem ríkið ákveður að sé siðferðislega rangt.
Af hverju þarf ríkið að ákveða fyrir mann hvað sé rangt og hvað sé rétt. Er það vegna þess að það trúir, líkt og hann faðir minn, að ef það myndi ekki stjórna okkur og skilyrða þá hefði mannskepnan engin siðferðisleg mörk. Að í grunninn sé maðurinn siðlaus og það þurfi að temja hann.
En og aftur var ég kjaftstopp. Ég gat ekki hrakið þetta. Það getur vel verið að maðurinn sé í grunninn siðlaus. Það er a.m.k. réttmæt skoðun. Ég kýs þó að trúa að svo sé ekki, að í rauninni búi maðurinn yfir raunverulegu siðferði, þótt það samræmist kannski ekki alltaf siðferði ríkisins. En það er bara trú og við skulum ekki fara nánar út í þá sálma. Gerum frekar ráð fyrir að svona sé raunverulega fyrir mannskepnunni ástatt, að hún er siðlaus þangað til ríkið temur hana, því það virðist vera hornsteinn núverandi kerfis.
Þá spyr ég: Er ríkið það eina fyrirbæri í samfélaginu sem á hagsmuna að gæta í því að siðlaust fólk tileinki sér siðferðisleg mörk (því vissulega á ríkið þar hagsmuna að gæta, því ótamið manndýr er erfiðara að skattleggja en tamið)? Er í ríkið í rauninni nauðsynlegt til þess að almennt siðgæði sé haldið? Ekki endilega, segi ég. Auðvitað er hagsmunaaðilarnir fleiri. Haldið þið ekki að verslunareigandinn eigi mikilla hagsmuna að gæta í því að fólk sé ekki að stela brauðhleifum úr matvörubúðinni hans? Vafalaust.
En þarf hann að vernda þessa hagsmuni eins og staðan er í dag? Nei, nefnilega ekki. Það er búið að firra hann ábyrgð, hann þarf ekki að gæta hagsmuna sinna. Ríkið sér um það. Verslunareigandinn, eins og allir aðrir þegnar í þjóðfélaginu, hefur verið bældur af ríkinu. Hann er fastur á spena þess. Við erum öll föst á spena þess. Það heldur hlífðarskildi yfir okkur en á sama tíma stelur það, í okkar óþökk, fjármunum okkar og verðmætum. Það gefur með einni hendinni og tekur með hinni.
En þetta þarf ekki nauðsynlega að vera svona. Við erum fullfær að gangast við eigin ábyrgð. Við þurfum ekki að vera þrælar ævaforns kerfis. Það er ekki framtíðin. Við erum framtíðin. Samfélag þúsunda ríkja, þar sem eina ríkið er ríki sérhvers einstaklings. Báknið þarf ekki að temja okkur, við erum best ótamin. Framfarir, sem hingað til hafa geta orðið þrátt fyrir kerfið, munu loksins fá að verða óheftar. Maðurinn er vonandi ekki á endapunkti þróunar sinnar, en þetta skref hlýtur að vera nauðsynlegt til þess að frekari framþróun megi verða. Því við getum huggað okkur við það, að þetta kerfi sem nú er í gildi er ekkert náttúrulögmál, það er sífellt að berjast fyrir lífi sínu og undanfarnar kynslóðir hafa mátt verða vitni af því hvernig það hefur umbylt sér til þess að missa mannkynið ekki úr greipum sér og það er alveg raunhæfur möguleiki á því að tortíma því fyrir fullt og allt.

Í lok orðræðu okkar stundi faðir minn að ég væri farinn að hljóma eins og anarkisti. Ég þagði.