Eftirfarandi er kvikmyndaverkefni sem ég gerði í heimspeki þessa vorönn (2004). Gagnrýna átti siðferðislega völ persónu í einhverri mynd og pæla vel í henni.
Og hér kemur það.



Alla tíð hefur verið litið á það sem svo að sá eigi kvölina sem á völina. Að velja milli tveggja hluta sem í meginatriðum virðast nákvæmlega jafngóðir eða slæmir, að velja milli tveggja hluta sem, t.d., manni þykir ósegjanlega vænt um báða – þetta er sannarlega kvöl. Einmitt þetta kom fyrir aðalpersónu myndarinnar sem ég mun hér fjalla um; Reginklassíkina hann Simba ljónakonung.
Hvað átti Simbi að gera? Hvernig átti hann að lina þá ofsalegu kvöl sem fólst í því að velja á milli: (a) Staðarins sem meirihluti uppeldis hans og félagsmótunar fór fram, heimilis hans (þáverandi, og reyndar síðan hann var smáljón), bestu(einu) vina og allra þeirra lífsreglna sem hann hafði tileinkað sér síðan stuttu eftir að hann byrjaði að muna eftir sér… og (b) staðnum þar sem hann fæddist, sem honum var ætíð ætlaður, sem fjölskyldan hans bjó á, sérstaklega þegar hún þurfti á því að halda að hann bjargaði þeim úr klóm skuggalega ruglaðs og valdasjúks ættingja?

Söguþráður þessarar yndislegu teiknimyndar, Konungs ljónanna (The Lion King), er í meginatriðum þessi: Simbi var fæddur í konungshlutverkið, það hafði ætíð verið honum ætlað. Hefði Simbi ekki fæðst, hefði Skari, föðurbróðir hans, tekið við konungshlutverkinu á eftir Múfasa, föður Simba, eftir hans dag. Skari vissi að fyrst Simbi var á lífi, var enginn möguleiki á því að hann yrði nokkurn tíma konungur Ljósukletta (heimilis ljónanna). Svo hann lagði á ráðin, og tókst honum að narra Simba og Múfasa í gil nokkurt, sem hann síðan með hjálp hýena rak antilópuhjörð í gegn um. Þetta varð svo bani Múfasa, sem rétt náði að koma Simba upp á örugga syllu áður en hann féll niður í gilið aftur og tróðst undir þúsundum fóta yfir sig skelfdra antilópa. Skari kom svo til Simba þegar ró komst á, og sannfærði hann um að þetta væri allt hans sök, svo hann flýði burt, staðráðinn í að koma aldrei aftur. Hefði Simbi verið manneskja, hefði hann verið á að giska átta ára þegar þetta gerðist.
Simba var bjargað úr fjarlægri eyðimörk af Tímoni marketti og Púmba villisvíni. Þeir urðu síðan bestu vinir hans. Þríeykið bjó í svalri vin þar sem nóg var af öllu, mat, vatni og áhyggjulausri skemmtun. Engin ábyrgð, hinn fullkomni staður til að gleyma fortíðinni. Punkturinn yfir i-inu var svo málshátturinn Hakuna Matata, eða ‘engar áhyggjur’. Meginlífsregla Simba þaðan í frá.
En svo gerðist það á fullorðinsárum Simba að æskuvinkona hans, Nala, þvældist inn í vinina og sannfærði hann á endanum (sem þó tók alls ekki stuttan tíma) um að hann ætti að snúa til baka, steypa Skara af stóli og koma á réttlæti. Taka við hásætinu sem hafði beðið hans allan þennan tíma. Hann lagði leið sína til baka, sömuleiðis Tímon, Púmba og Nala, sigraði Skara og hýenurnar og tók við hásætinu.

Vandinn við völ Simba var sá að hann hafði alist upp í vininni, hann hafði eytt tíma úr ævi sinni þar sem hlutfallslega samsvarar um 18-20 mannsárum, hann hafði lært algjörlega andstæðar lífsreglur við það sem hann þekkti frá Ljósuklettum. Hann hafði aldrei þurft að axla neina einustu ábyrgð og hann hafði ekki einni einustu skyldu að gegna. Frá þessu þurfti hann hins vegar að hverfa að eilífu, hafna algjörlega, segja skilið við, sem engann veginn hefur verið auðvelt. Simbi var vanur kæruleysi og ábyrgðarleysi og svo átti hann bara að slíta sig frá öllu þessu og undirbúa sig fyrir það að verða gráhærður. Gráhærður af áhyggjum, streitu og álagi, þessu sem fylgir því að hafa í höndum sér örlög og hagsmuni heillar ljónshjarðar. Átti Simbi að vera sá sem hann hafði verið megnið af ævi sinni, átti hann bara að halda kyrru fyrir í vininni eða átti hann að snúa til baka og gegna skyldunni sem hafði fylgt honum frá fæðingu?

Simbi valdi, eins og áður sagði, seinni kostinn. Hann sneri til baka og bjargaði allri fjölskyldu sinni, en á sinn kostnað, hann þurfti að fórna gífurlega miklu. Hann þurfti að fórna frelsinu. Simbi gerði það þó viljugur eftir miklar vangaveltur, sem sýnir það að hann var innst inni mikil siðferðisvera og göfugt ljón.
Svo má einnig benda á eitt; allflestir hefðu líklega snúið til baka í sporum Simba. Flestöllum þykir vænt um fjölskyldu sína og vilja mjög gjarnan koma meðlimum hennar til bjargar á örlagastundum. Persónulega tel ég að Simbi hafi gert rétt þegar hann ákvað að breyta rétt.

Þessari skoðun væri skyldusiðfræðingur án efa sammála. Skyldusiðfræði miðar að sanngirni og réttri breytni, sem var einmitt það sem val Simba byggðist á. Að vera sjálfum sér samkvæmur, að þyrma lífi ættingja sinna, fjölskyldu sinnar, jafnvel þó það myndi kosta hann frelsið.
Þó var Simbi ekki alveg ófrjáls í sínu konungshlutverki; hann gat farið þangað sem hann vildi, hann gat sagt og gert það sem hann vildi (sem var einmitt ekkert illt) og svo hafði hann marga að tala við, nóg af vinum og hann hafði vald yfir ljónunum.

Afleiðingasiðfræðingur hefði ef til vill einnig verið sammála skoðuninni. Valkosturinn sem leiddi af sér bestu afleiðingarnar fyrir sem flesta var sá að fara til baka. Þyrma lífi saklausra ættingja (þau liðu sáran næringarskort undir stjórn Skara) og sinna sinni ábyrgð, taka við hlutverkinu sem hafði beðið hans allt frá blautu hvolpsbeini og gera það mikla gagn sem hann hafði mðöguleika á.

Hvort sem um afleiðinga-eða skyldusiðfræði er að ræða, þá er ég sammála Simba um að réttast hafi verið að snúa heim. Ákvörðunin hefur vafalaust ekki verið honum auðveld, en hann sneri til baka, hver svo sem ástæðan var. Var ástæðan fyrir heimkomu hans göfuglyndi, sýndarmennska, eða bara forvitni? Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi verið göfuglyndi. Ástæðan fyrir því er sú að hann vissi innst inni hver hann var, hann var sonur Múfasa og réttborinn konungur. Þegar Nala kom til hans, braust fram í honum hans gamla sjálf, hann mundi allt saman og á endanum fannst honum hann vera skyldugur til að snúa heim, svo hann hljóp eins og fætur toguðu til að frelsa örvæntingafulla ættingja sína og finna sjálfan sig. Ljónið sem hann hafði skilið við þegar hann hljópst að heiman. Það er eins og Nala hafi hringt bjöllu í höfði Simba, minnt hann á það hver hann var.

Út frá þessu getur maður kallað Simba göfugan. Að fórna öllu sem hann hafði vanist frá æsku (seinni hluta hennar í það minnsta), til að snúa aftur. Hann er gott ljón og hefur gott vit á hvað er rétt og hvað rangt. Hann hefur sterka réttlætiskennd, því annars hefði hann ekki snúið við til að bjarga ljónunum.
En Simbi er eins og allir, ekki fullkominn. Hann virkar þannig á mig að auðvelt virðist að sannfæra hann. Skari sannfærir hann um að hann hafi sjálfur myrt föður sinn. Og þegar hann kemur til eyðimerkurinnar, hvetja Tímon og Púmba hann til að hafna fyrri lífsháttum og taka upp þeirra lífshætti. Þeir kynna hann fyrir málshættinum Hakuna Matata. Simba líkar hann og hann fer að lifa samkvæmt honum.Þeim tekst meira að segja að fá hann til að borða skordýr og aðrar pöddur og lifa á þeim. En þegar Nala síðan kom inn í vinina og sagði Simba frá ástandinu, breytti hann aftur um skoðun. Nú fannst honum skyndilega að hann ætti að breyta til í annað sinn, Nala hafði einhvern veginn rétt fyrir sér. Alveg eins og Tímon og Púmba höfðu rétt fyrir sér þegar þeir sögðu honum að gleyma fortíðinni. Var Simbi svona auðtrúa, svo barnalegur, eða var það einfaldlega þannig að þegar hann ákvað að trúa Tímon og Púmba, var hann í lélegu andlegu ástandi (hverjum myndi ekki líða hræðilega eftir að hafa verið sannfærður um að hann hafi myrt foreldri sitt?), og þegar Nala kom, mundi hann eftir sér og var tilbúinn til að snúa aftur? Og þó Skara hafi tekist að sannfæra hann um sekt, er það ef til vill ekki skrítið. Mörg börn taka á sig sökina þegar foreldri deyr, þó verið geti að enginn annar sjái ástæðu fyrir sekt barnanna. Þar að auki eru börn trúgjörn og auðvelt er að sannfæra þau. Þau hafa ekki náð fullri rökhugsun og geta ekki velt fyrir sér af fullri skynsemi ástæðum og rökum fyrir hinum ýmsustu hlutum.

Svo enn sé rætt um Tímon og Púmba, þá voru þeir persónur sem líkaði mjög illa að þurfa að bera ábyrgð. Þeir vildu gleyma fortíðinni og lifa í vellystingum. Þeir miðuðu að því að gera eins mikið af því að njóta líðandi augnabliks eins og þeir mögulega gátu, en þessi speki minnir eilítið á Epíkúringa. Þeir mynduðu einmitt vinafélög og hittust og höfðu gaman og héldu gjarnan veislur. Tímon og Púmba voru mikið fyrir að borða og slappa af, og kenndu þeir Simba svo þessa siði. Þeir mynduðu vináttufélag með honum og þeir þrír höfðu það ánægjulegt.

Ánægja er góður hlutur, hún hjálpar okkur að líða vel og lífið er einskis virði ef aldrei er hægt að vera ánægður. En ánægja er best í hæfilegu magni. Það er ekki heldur hægt að lifa í eintómri sæluvímu. Það verður að axla sína ábyrgð, hver og einn. Þessu hefur Simbi áttað sig á. Hann hefur haft gaman af ánægjunni og metið hana mikils – en síðar sýndi það sig að ábyrgðin var honum mikilvægari, sérstaklega þegar hann hafði náð þeim aldri sem hann gat borið hana, þegar hann var tilbúinn og nógu þroskaður til að hverfa frá staðnum sem eiginlega líktist leikskóla, og taka lífinu af alvöru. Eins og máltækið segir; allt er best í hófi.



Ég vona að þið hafið nennt að lesa þetta… endilega komið með skoðanir og/eða gagnrýni.