Pæling sem að ég skrifaði fyrir heimspeki ákvað að deila með þjóðinni…
—————————————— ————————
Nú er ég ekki kristlingur en ég hef undanfarna daga mikið velt því fyrir mér hvort að helvíti sé til og ef að það sé til í hvaða mynd það sé. Getur verið að Helvíti sé eilífur aðskilnaður frá himnadrauginum, endalok sálarinnar, eilíf refsing eða þjáning, ekki til eða eitthvað annað… Veltum þessu aðeins fyrir okkur.
Ef að við erum þessir venjulegu kristlingar sem að mæta aðeins í kirkju um jól þá er hægt að gera ráð fyrir að við trúum á fyrstu kenninguna hér fyrir ofan þ.e. að helvíti sé eilífur aðskilnaður frá himnadrauginum en það þýðir þá að þeir sem að eru ekki kristlingar séu í Helvíti núna og ég hef ekki fundið fyrir neinum óþægindum af þeim völdum þannig að sú kenning fellur nokkuð um sjálft sig.
Hægt er að velta fyrir sér hvort að endalok sálarinnar séu eitthvað tengt helvíti, en kristlingar vilja meina það að sálin sé einhvern veginn aðskilin líkamanum en ég trúi því engan veginn og ef að þú deyrð þá deyrðu og sálin með og þá er þetta því miður bara búið, get sem sagt ekki stuðist við þessa kenningu heldur.
Svo er auðvitað kenningin sem að maður getur ímyndað sér að strangtrúað fólk sem að er í trúfélögum líkt og Krossinum og Hvítasunnusöfnuðinum haldi fram eða þ.e. að helvíti sé eilíf refsing/þjáning, og þar sem að ég trúi ekki á eilífðina heldur að við fáum eitt líf og eigum að reyna að láta eins gott af okkur leiða í þessu lífi og við getum og svo sé þetta bara búið þá get ég ekki trúað þeirri kenningu heldur.
Sumir spyrja sig: “Hvernig vitum við að við séum ekki í helvíti núna?” Það er skynsamlegasta kenningin sem ég hef nefnt til þessa þar sem enginn getur sagt okkur hvernig helvíti er þannig að við getum frekar leitt líkum að því að við séum í helvíti. Hvað er það annað en helvíti þegar stríð viðgengst, fólk stelur og lýgur, neytir eiturlyfja og annarra vímugjafa og svo mætti lengi telja.
En ég held að þetta fyrirbæri sem að kristlingar vilja kalla helvíti sé ekki til, ég hef ekki enn allavegana fengið ástæðu til að trúa því að eftir að okkur hefur verið holað ofan í mold að sálin fljúgi burt eins og fugl og fari niður í svokallað helvíti eins og sumir vilja ímynda sér það rautt, svart og brennandi heitt. En auðvitað er hægt að líta á þetta frá öðru sjónarhorni , þ.e.a.s. sjónarhorni kristlinga sem að á alveg rétt á sér þó að ég hafi ekki trú á hræðsluáróðri kaþólsku kirkjunnar sem að óneitanlega minnir á trú sem að hefur tíðkast lengi hér á landi til að hræða börn til hlýðni. Það er að segja Grýla og jólasveinarnir, mjög margt er gott í þeirri trú en til að fólk hlýði trúnni í einu og öllu þarf auðvitað að hafa svona skelfingartæki sem að tekur þig og fer með þig eitthvert ef að þú framfylgir ekki reglum eða boðorðum settum af mönnum sem að telja sig æðri en aðra.

En já ég hef enga ástæðu til að trúa því að helvíti sé til og ég sé ekki fram á að ég muni hafa það. En ég er auðvitað tilbúinn að leiðrétta mig ef að einhver getur á rökréttan hátt náð að sannfæra mig um að helvíti, en þangað til stend ég fastur á þeirri skoðun minni að helvíti sé ekki til.