Kæri KJ

Þú trúir ekki á líf eftir dauðann. En samt sem áður trúir þú á “eitthvað” eftir dauðann. Ég sá ekki betur á skrifum þínum en svo að þú tryðir því að eftir dauðan færu allar áhyggjur á vit veraldar, maður fengi loksins frið. Í þessum orðum hlýtur að felast viðurkenningu á varðveislu sjálfsins umfram ævilengdina, því að ef sjálf þitt tortímdist á dauðastundinni þá fengiru aldrei frið, áhyggjurnar fengju aldrei að hverfa.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvað sjálfið sé í raun og veru. Nú er skynjun okkar bundin einhverskonar meðvitund og meðvitundin bundin einhverju sjálfi sem við vitum ekki alveg hvert er. Við getum í rauninni ekki sagt að neinir eiginleikar tilverunar eigi sér stað utan sjálfsins. Tengingin á milli orsakar og afleiðingar, tímaskynjun, tilvist framvindu, allt er þetta bundið því að til sé “sjálf” til að skilja tilveruna á þennan hátt. Ég segi ekki að alheimurinn væri ekki til ef ekki væri fyrir sjálfið, en tíminn, og tilveran eins og við skynjum hana, eða réttara sagt það form sem mótum úr þeim leir sem veröldin er, byrjar og endar með sjálfinu. Um leið og þú viðurkennir að sjálfið endar þá hlýtur þú að viðurkenna að veröld sjálfsins deyr með því. Ef einhver ákveðin staða er uppi með sjálfinu þegar sjálfið hverfur er engin rök gegn því að sú staða verði að eilífu.

Þetta segir þú ekki. Þú virðist trúa því að dauðin sé einhverskonar úrlausn á því sem við köllum líf, þegar allt það amstur sem við upplifum í lífinu hverfur. En það hlýtur að vera augljóst að líf í sjálfu sér er ekki háð neinu slíku amstri. Varðveisla sjálfsins má vera yfir allt amstur hafin. Það er indæl tilhugsun; þar er ég sammála þér. Þetta er ekki heldur órökrétt, alla ævi finnum við hið líkamlega vaxa og visna og hið huglæga þroskast eða staðna, en sjálfið helst óbreytt frá fyrsta andardrætti til þess síðasta. Það er ekkert sem bendir til þess að ástand líkamans komi sjálfinu eitthvað við. Þess vegna veit ég ekki afhverju sjálfið ætti að deyja endilega bara vegna þess að hjartavöðvinn í mann gefist upp, líkamsfrumurnar lamist og meðvitundin fjari út. Óháð öllu þessu hlýtur alltaf að vera eitthvað sem ert þú. Það hlýtur að vera einhver sem er að deyja. Einhver sem er dauður. Það er alltaf einhver einhver til staðar.

Er líf eftir dauðan? Kannski frelsusmt við frá amstri hversdagslífsins, kannski ekki. En það er allavegna á hreinu að frelsuð eða fjötruð, alltaf verðum við til

Þá verður maður að leiða hugan að því hvað felist í því að vera til. Tja, nú held ég fátt sé um svör. Tilveran hlýtur að vera andstæða þess möguleika sem ekki er möguleiki á. Ef þú ert mögulegur þá ert þú til. Ég hef aldrei séð neina ástæðu til þess að vera aðgreina neitt tilveruna og setja han í fleirtölu. Að búa til einhverjar margar tilverur, sér tilveru fyrir okkur öll. Nei, ætli við deilum ekki öll okkar tilveru. Vera okkar er sameiginleg. Allir sem segjast geta verið til ættu að geta sagt það í krafti þess að í samanburði við allt sem er til þá séu þeir til. Þegar þú lokar augunum og ímyndar þér það sem ekki er hægt að ímynda sér, að þú sért ekki til (því auðvitað hlýtur það alltaf að vera ÞÚ sem ert að ímynda sér að ÞÚ sért ekki til) verðuru að passa þig á að lenda ekki í ógöngum. Eins og til dæmis að allt slokkni og ekki verði lengur til. Það er vitaskuld kolvitlaus nálgun því í raun ertu bara að undirstrika að þú sért einn til með því að stroka allt annað út. Á endanum sér maður að um leið og sjálf manns er algerlega strokað út, og meðvitundin ekki lengur til, þá hlýtur allt annað að vera enn þá til og í rauninni sameinast maður bara því. Þótt þín tilfinning fyrir tilveru hverfi þýðir það samt ekki að tilfinning fyrir tilveru almennt sé horfin. Það eru til aðrir sem hafa tilfinningu fyrir tilveru. Þín tilfinning fyrir tilveru er kannski horfin en aðrir eru til enn þá og það hver það sé sem finnur fyrir tilveru sinni er aukaatriði og skiptir ekki máli heldur sú staðreynd að einhver sé til og hann finnur fyrir því. Ef einhver finnur fyrir tilveru “sinni” þá finnur hanna fyrir tilveru “þinni”. Tilvera fólks manna á milli breytist ekkert, tilvera allra er aðeins ein.

Sem sagt, líkami manns hverfur, en maður er samt enn þá til, því að það sem lét mann vera til er ekki horfið. Tilfinning heilans á manni fyrir tilveru er enn þá til þótt heilinn hverfi. Þess vegna er maður enn þá til.
Þess vegna hef mér alltaf fundist óhjákvæmilegt að sjálfið mitt sé ódauðlegt. Því í rauninni er sjálf mitt ekki takmarkað heldur ótakmarkað og sameiginlegt öllu lífi, og jafnvel öllum dauðum hlutum, einfaldlega sameiginlegt öllu því sem til er. Það sem skilur mig að frá öðrum er kannski ekki blekking en allavegna þröngsýni. Því í víðu samhengi er sjálfið aðeins eitt þótt til séu margir líkamar og margir heilar, meðvitundir og hugar. Alveg eins og aðeins er til eitt efnislegt rúm sem allt efni tilheyrir, þótt hægt sé að skipta því niður í hluti og manneskjur innbyrðis. Það er til dæmis erfitt til um að segja hvar líkaminn endar og umhverfið byrjar. Frumeind tekur við frumeind og rúmið bindur þær saman, og það er aðeins eitt.

Eins og tilveran og lífið.