Las nýlega komment á Netinu um Ómegapunktskenningu stærðfræðingsins Franks Tipler. Tipler þessi reynir að sameina kristnar guðfræðikenningar og eðlisfræðikenningar um framtíð heimsins. Hann sér fyrir sér lífið breiðast smám saman út um alla veröldina, en ekki endilega í líkömum eins og við erum í. Mannleg vitund verður áfram til staðar, en hún verður bundin í róbotlíkömum og einhverskonar ofurneti. Er frá líður fer heimurinn að þjappast saman og í “öftustu framtíð” hefur tími og rúm sameinast í einn punkt.

Þar sem þessi punktur, Ómegapunkturinn, er sameining tíma og rúms - og handan við tíma og rúm, eru allar upplýsingar frá öllum tímum þar að finna. Tipler kallar punktinn Guð. Hann mun reisa upp frá dauðum allt sem var áður en heimurinn sameinast í Ómegapunktinum. Ég átta mig ekki alveg á hvernig, en það er sjálfsagt vegna þess að allar upplýsingar eru í Ómegapunktinum. Þar á meðal eru fullkomnar upplýsingar um vitund alls sem hefur lifað. Samkvæmt Tipler er vitundin ekkert annað en tölvuforrit í lífrænum vélbúnaði. Guð/Ómegapunkturinn getur því endurvakið allar vitundir frá öllum tímum til að lifa í sýndarveruleika ofurtölva er Guð/Ómegapunkturinn á.

Afhverju ætti Guð að gera það? Jú, samkvæmt leikjakenningunni er altrúismi (ósérplægni) alltaf heppilegasta leiðin (skilst mér), og þar af leiðandi verður Ómegapunkturinn einhverskonar fullkominn góðleiki. Þess vegna gefur hann okkur eilíft líf. Það má því búast við að þegar maður deyi vakni maður upp aftur í sýndarveruleikaparadís við endalok tímans. Sem sagt í eilífðinni.

Eins og nærri má geta efast margir um þetta. Tipler er líka bara með kenningar, sem hann reyndar segir að hægt sé að prófa. Sá einhvern benda á að altrúismi sé ekkert endilega algilt lögmál og því geti Ómegapunktur framtíðarinnar þess vegna orðið alvondur. Þá er hætt við að hann reisi okkur öll upp til að lifa í sýndarveruleikahelvíti.

Hvernig helvíti ætli það verði? Mér dettur í hug hugmynd Roberts Shekleys og Rogers Zelasnys, að í helvíti séu öll verstu tónverk sögunnar spiluð endalaust. Púkarnir hræra í grautarpottunum þar sem sálir fordæmdra kveljast um alla eilífð, en í kringum þá sitja misheppnaðir tónlistarmenn og spila glötuð tónverk út í það óendanlega. Ef þetta er ekki helvíti tónlistargagnrýnandans þá veit ég ekki hvað það er.