Jæja, ég ætla að koma með eina gamla pælingu sem skýtur kollinum upp hvað eftir annað…erum við virkilega ein í þessum heimi?

Margir hafa rætt þetta fram og tilbaka en það fólk sem ég hef hlustað á hugsar mikið frá tilfinningalegu sjónarhorni. Ég ætla að ræða þetta mál frá vísindalegu og röklægu sjónarhorni. N.b. ég geri mér grein fyrir því að það hefur verið tekið á þessu máli í fræðiritum í margar aldir. Ef einhver getur bent mér á helstu ritin þá væri það vel þegið. Ég hef ekkert lesið um þetta og því eru þetta mínar eigin vangaveltur.

Ég vil byggja mál mitt á upplifun einstaklingsins. Þegar eitthvað gerist í heiminum í kringum okkur, hvernig upplifum við þann atburð? Þegar einhver myrðir einhvern í USA eða einhver slær heimstmetið í 100 metra hlaupi, hvernig meðtökum við það? Við fáum okkar upplýsingar í gegnum fjölmiðlana. Það er einhver annar út í heimi sem er að segja okkur að eitthvað hafi gerst. Við kjósum síðan hvort við trúum þeim. Í flestum tilfellum höfum við enga ástæðu til að véfengja þetta fólk, en það er engin leið til að vera fullviss (100%) um að einhver atburður hafi gerst nema að hafa séð hann sjálfur. Eða hvað?

Ef einhver sem þú þekkir ekki segist hafa séð geimveru, þá ertu líklegur til að trúa honum ekki. Ef tveir ókunnugir segja það sama, það kemur samt ekki til með að fá þig til þess að trúa því. En ef milljón manns segja það og sögur þeirra standast á, þá fer maður að hugsa. Ef þú sæir geimveru sjálfur myndiru trúa því? Hver er raunverulegur munur á því að fá að heyra eitthvað frá þriðja aðila og að sjá atburðinn sjálfann? Sumir myndu segja að við treystum okkar eigin vitum betur en við treystum hæfileikum annara fyrir að útskýra atburð fyrir manni. Við fyrstu sýn hljómar þessi staðhæfing fullkomnlega ásættanleg. En af hverju ættum við að treysta okkur vitum fullkomnlega?

Það hefur sýnt sig að vit mannverunnar eru ekki fullkomin. Eyrun geta ekki staðsett hljóð nákvæmlega í þrívíðu rúmi, einungis námundað. Lyktarskynið okkar er nánast einungis í undirmeðvitund. Semsé, málið er að skynfærin okkar eru ekkert annað en þriðji aðili fyrir meðvitund okkar. Við höfum ekki fullkomna stjórn né yfirsýn yfir vitum okkar, getum ekki sigtað út með vissu hvar þau eru að klikka og hvar þau hafa rétt fyrir sér. Við verðum að treysta þeim fyrir að segja okkur rétt frá heiminum í kringum okkur…alveg eins og fjölmiðlana.

Þar af leiðandi höfum við enga leið (án þess að trúa blint) til að fullvissa okkur um að atburður eigi sér stað. Við getum sætt okkur við ákveðin skekkjumörk, ef margir segjast upplifa atburð á svipaða vegu þá er það líklegt að hann hafa átt sér stað á þann veg. Hins vegar, hvernig getum við verið viss um að við séum að skilja útskýringu hinna á hvernig atburðurinn átti sér stað? Og að sama skapi, hvernig geta hinir verið vissir um að þau skilji okkur? Við göngum öll um í þessum heimi, blind, með vitin okkar fimm fyrir framan okkur sem skjöld og treystum á þeim til að lifa okkar lífi. Við getum ekki annað gert. Vitin okkar segja okkur hvernig heimurinn er í kringum okkur en við getum aldrei verið viss um að þau segja satt. Vandamálið er þetta:

Við fáum að vita það sem vitin segja okkur.
Vitin fá að vita það sem umheimurinn segir þeim.
Við fáum aldrei að vita beint hvað umheimurinn segir okkur.

Tökum sem dæmi þrjá krakka, Anton, Bjarni og Dóra. Dóra og Bjarni eru í einu herbergi og Anton í öðru. Dóra hvíslar orðið ‘Hestur’ að Bjarna. Bjarni hleypur inn í næsta herbergi til Antons og segir honum að Dóra hafi sagt orðið ‘Kanína’. Það er engin leið að Anton geti vitað að Dóra hafi sagt ‘Hestur’ nema að Bjarni segi honum það, eða að hann fari yfir í næsta herbergi og tali við Dóru beint.

Og þá að rauða þræðinum…erum við ein? Þar sem að við getum aldrei treyst okkar vitum fullkomnlega þá getum við aldrei vitað hvernig öðru fólki líður í raunveruleikanum. Við getum ekki einu sinni verið viss um að þau séu yfirleitt til. En ef við gefum okkur að þau séu til þá er vandamálið enn flóknara en með Anton, Bjarna og Dóru. Því núna erum við með tvo skil við umheiminn.

Tökum dæmi sem gæti útskýrt samskipti milli tveggja einstaklinga. Höfum fimm krakka, Anton, Bjarna, Dóru, Elsu, og Frey. Anton er í herbergi A, og Freyr í herbergi C. Í herbergi B höfum við Bjarna, Dóru og Elsu. En Elsa getur ekki heyrt það sem Bjarni segir og ekki það sem Dóra segir við Bjarna, og eins með Bjarna, þá getur hann ekki heyrt það sem Elsa segir né það sem Elsa segir við Bjarna. Dóra segir orðið ‘Hestur’ við Bjarna, en hún segir orðið ‘Lamb’ við Elsu. Bjarni fer til Antons og segir orðið ‘Kanína’ við Anton en Elsa segir orðið ‘Hrútur’ við Frey.

Ef þið skiljið ekki þessi dæmi látiði mig vita og ég skal reyna að útskýra betur. En aðalatriðið er það að Dóra stendur fyrir umheiminn, Anton og Freyr eru meðvitund tveggja einstaklinga, og Bjarni og Elsa eru vit þeirra tveggja. Þetta á að sýna fram á hvernig fólk getur túlkað atvik með mismunandi hætti og misskilningar milli manna eiga sér stað og eru óhjákvæmilegir.

Nú, mér datt í hug að til þess að virkilega getað verið viss um að annar einstaklingur væri til, eða til þess að skilja hann betur þá myndi hugsanaflutningur hjálpa (purely theoretical of course:)) Hins vegar komst ég að þeirri niðurstöðu að það yrði bara önnur, ný tegund af skilum milli tveggja einstaklinga. Eini munurinn væri að það væri búið að taka miðju manninn burt (Dóru) og vit tveggja einstaklinga gætu rætt beint saman. Hins vegar er ennþá pláss fyrir misskilning, þótt hann yrði örugglega minni.

Ég er á því að maður geti ALDREI verið viss um að annar einstaklingur sé virkilega til, né að hann sé virkilega ekki til. Eina leiðin til þess væri ef við myndum hreinlega verða að þeim manni. Að vitund okkar yrði að vitund nágrannans, myndu sameinast í eitt. Ég er nú ekki mikið fyrir staðhæfingar, en ég held að ég geti örugglega sagt að þetta sé ekki hægt.

Hins vegar, þótt við getum aldrei orðið viss, þá getum við samt sannfært sjálfa okkur um margt. Við höfum yfirleitt enga ástæðu til þess að trúa ekki okkar vitum, en við erum samt algjörlega stjórnuð af þeim. Það er ekkert sem segir okkur að heimurinn gæti ekki verið eitthvað allt, allt annað en hann er. Við erum í fangelsi og það eru fimm gluggar, en hver segir að gluggarnir séu ekki tölvuskjáir sem sýna okkur ekki raunveruleikann? Við höfum enga leið til að brjóta okkur leið í gegnum veggina og verðum því bara að treysta þeim. Ef við brjótum tölvuskjáina þá erum við pottþétt alein. Betra að trúa að við séum ekki ein, heldur en að vita að við séum það.