Trú og trúarbragð er sitt hvað.

Trúarbrögð eru mörg og mismunandi; þau breytast með tíma og rúmi. Trúarbragð er menningarleg smíð sem býður upp á tákngerða sköpunarsögu og skýringu á tilvist manna. Trúarbrögð eru kenningar um heiminn sem þjóna því hlutverki í lífi manna að veita þeim grundvöll til að byggja líf sitt á. Í trúarbrögðum felast einatt boð og bönn, leiðbeiningar til manna um hvaða gjörðir skuli forðast og hvaða gjörðir skuli drýgja. Þannig eru trúarbrögð leiðandi fyrir þær mannverur sem þau aðhyllast, vegvísir um lífið og skjól til skilnings á lífinu og tilverunni.

Trú er hins vegar afstaða hvers manns, eiginleiki eða hæfileiki hans til að fást við heiminn. Í trú felst möguleikinn á einhverju sem ekki verður sannað eða staðfest með rökum. Trúin tekur við þar sem þekkinguna þrýtur. Þegar rökhyggjan hættir að birta manni myndir af heiminum tekur trúin við til uppfyllingar.

Trúin þarf samt ekki að vera skilgreind. Þannig getur hver sem er verið trúaður þótt ekki hafi hann gert upp hug sinn með það hvað það er sem hann trúir.

Vísindin boða rökrétta heimsmynd. Big Bang er sagt upphafið sem leiddi til tilviljanakenndrar, en rökréttrar, þróunar efnisins, allt þar til efnið tók á sig mannsmynd og fór að spá í eigin tilveru.

Þótt ég telji mig vera mjög vísindalega þenkjandi mann, eða kannski einmitt þess vegna, tel ég mig vera trúaðan. Ég get ekki annað en fallist á hina rökréttu, nútímalegu heimsmynd, en um leið finnst mér vanta eitthvað í þá heimsmynd, eitthvað sem færir mér raunverulegan og fullan skilning á tilverunni; eftir að hafa kynnt mér hina vísindalegu, vel rökfærðu heimsmynd nútímans finnst mér ég kunna einhver skil á því hvernig veröldin hefur þróast og hvernig hún gengur fyrir sig. En samt skil ég ekki fullkomlega lífið og tilveruna. Það sem mér finnst vanta inn í heimsmyndina er eitthvað sem ég þekki ekki og get ekki skilgreint. Mér finnst eins og það geti verið handan rökhugsunarinnar. Það þarf eitthvað að koma til, meira en hin rökfærða heimsmynd, til að ég skilji hvers vegna ég er til. Mér sýnist rökfærð heimsmynd ekki geta fært mér þann skilning sem ég leita að þótt sú heimsmynd segi mér allt um gang efnisheimsins.

Ég trúi því sem sagt að nauðsynlegt sé að leita út fyrir rök og vísindi til að botna í tilverunni.

Þetta er mín trúarjátning. Hins vegar hef ég ekki skilgreint hverju ég trúi, eða á hvað ég trúi. En ég hef játað að mér finnst hin rökrétta heimsmynd ekki fullnægjandi.