Mér datt í hug að vekja máls á gömlu góðu samviskunni, brjóstvitinu sem ávallt vakir með okkur lætur helst á sér kræla þegar við erum í andstöðu við samhljóm hennar.

Hvað er samviska? Er samviskan raunveruleg sam-viska? Erum við samtengd í gegnum einhverskonar skammtaeðlisfræðilega rás óháða tíma og rúmi? Eða erum við hreinlega útbúin meingölluðum kirtil sem gefur frá sér ónotaleg efni þegar við erum stressuð?

Er samviskan, brjóstvitið hið raunverulega vit sem gætir hugvitsins, eða er hugvitið það eina raunverulega vit sem þarf ekki að taka tillit til og er óháð brjóstvitinu? Er brjóstvitið blekking?

Hvers vegna eru sumir fullir samvisku og brjóstvits en aðrir virðast vera gersamlega ónæmir fyrir því?

Hvað er samviskubit? Og hvers vegna erum við bitin af samvisku þegar við brjótum gegn “betri vitun”?

Er samviskan, brjóstvitið “betri” vitund?

Er þá vitundin ekki ein?

Hvers vegna ráðfærum við okkur við “betri” vitund okkar á mikilvægum stundum? Erum við þá kleifhugar?

Hvers vegna notum við hugtök eins og hlýju eða góða samvisku, og á móti tölum við um kalda hugsun?

Hvers vegna er manneskja gædd góðri samvisku, hlýju brjóstviti og skynsömum huga kölluð viskurík manneskja?

Nokkuð er víst að hver maður bablar við sjálfan sig daginn út og inn, spyr sjálfan sig spurninga og væntir svars.

Mér er svona spurn um þessa SAM-VISKU.

Kannski við séum ekki ein.


Babl