Gefum okkur að alheimurinn sé einn risastór köttur. Ekki bara einhver köttur, heldur köttur Erwins Schrödingers, föðurs skammtaeðlisfræðinnar. Schrödinger hélt því fram að allir hlutir séu á sama tíma í öllum mögulegum stöðum (quantum superposition of states) þangað til mæling brýtur niður líkindin og setur þá í ákveðna mælanlega stöðu. Hann henti fram tilraun þar sem köttur var settur í kassa og með honum örlítið af geislavirku efni þar sem hvert atóm hefur 50% líkur á að tæmast innan klukkustundar. Svo er tæki sem nemur geislavirknina og brýtur opna flösku af eitri ef geislavirknin nær ákveðnu marki, sem drepur síðan köttinn. Hugmyndin er sú að meðan enginn lítur í kassann þá er kötturinn bæði lifandi og dauður á hverju gefnu augnabliki.

En hvernig virkar þetta séð frá kettinum? Jú, kötturinn hlýtur að upplifa annað hvort að deyja eða að lifa. En séð frá okkur þá hlýtur kötturinn að upplifa bæði að lifa og að deyja á sama tíma, í tveim samhliða alheimum. En hvorn alheiminn upplifir kötturinn? Báða?

Segjum að við gætum búið til nákvæmt afrit af kettinum, atóm fyrir atóm og gætum sett hverja sameind á réttan stað nákvæmlega eins og hún var á þeim tíma þegar afritið var gert. Hinn nýji köttur, þegar við vekjum hann, myndi líklega muna allt eins og gamli kötturinn. Hann myndi ekki finna neinn mun á sér, og séð frá honum væri hann sami kötturinn. Við myndum vita muninn, en hvorugur kötturinn gæti staðhæft í sínum huga að hann væri frummyndin.

Segjum að við það að lesa inn fyrsta köttinn þyrftum við að taka hann í sundur atóm fyrir atóm. Það myndi augljóslega drepa kattardýrið. Síðan setjum við saman eftirlíkingu og lífgum hana við. Eftirlíkingin væri þá ekki lengur eftirlíking, heldur sami kötturinn endurbyggður. Og séð frá honum væri enginn munur þar á.

Þannig að ef allir möguleikar eiga sér stað á sama tíma í eins konar “quantum cartesian product” þangað til einhver nemur þá, samkvæmt skammtaeðlisfræðinni, þá getur hver og einn möguleiki aðeins átt sér stað ef hann er numinn af einhverjum. Ef kötturinn deyr, þá getur hann ekki numið neitt, og þar af leiðandi upplifir kötturinn alltaf þann möguleika að hann haldi velli. Á meðan er annar köttur dauður einhversstaðar í öðrum alheimi lengra niður ásinn í Hilbert rými.

Þetta fer langleiðina að útskýra hvers vegna hið Descartesíska ég er ég hér og nú en ekki einhver annar og ekki einhvers staðar annarsstaðar á öðrum tíma, og af hverju ég er lifandi en ekki dauður. Dauðinn er eitthvað sem alltaf hendir einhvern annan, en aldrei mann sjálfan. Og ef dauðinn hendir mig, þá mun ég ekki upplifa það.

[Höfundur er nýbúinn að lesa "The Mind's I" eftir Douglas Hoffstadter og biðst velvirðingar á hvað þetta er súr pæling.]