Ég heilsa ykkur.

Nú langar mig til þess að velta því fyrir mér hvað stærðfræði er í rauninni. Þetta skrifa ég til þess að öðlast sjálfur meiri skilning á því.

Í árdaga var stærðfræðin í raun ekkert í líkingu við það sem við þekkjum í dag, heldur einvörðungu listin að telja og reikna. Í dag samanstendur hún af aragrúa af skilgreiningum og reglum. En við vitum einnig að allt sem í stærðfræðinni finnst er byggt á tiltölulega fáum frumsendum. Frumsendur eru reglur sem menn telja að ekki þurfi að sanna. Það er einmitt eðli þessara frumsendna sem ég vil kanna betur.
Lítum t.d. á frumsenduna (þetta er ein af frumsendum Peanos)

Nattúrulega talan 1 er til.

Er þetta virkilega augljóst? Má bara sísvona gera ráð fyrir svona hlutum? Spurningin sem hefur verið að angra mig upp á síðkastið er: Þarf ekki að sanna tilvist orðanna “náttúrulega”, “talan”, “er” og “til” áður en við getum sett slíkt fram?

Ég tel að ég hafi komist að endanlegu svari við þessari spurningu. Ef við eigum að sanna tilvist orða þá þurfum við augljóslega að nota orð til þess. En þá þarf aftur að sanna tilvist orðanna sem við notuðum til að sanna tilvist orðanna í frumsendunni. Svona gengur þetta koll af kolli óendanlega oft. Af þessu leiðir að tilvist orða er ekki hægt að sanna.

Niðurstaðan mín er því, að við neyðumst til að nota orðin eins og við skiljum þau almennt. Hjá því er ekki komist.

Ég kveð í bili.

Evklíð, sonur Naukratesar.