Smæsta eining tilverunnar, er sú eining sem er minnsta byggingareining tilveru okkar.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann, gæti verið e-r utanaðkomandi áþreifanleg eining, eins og atóm eða kvarkar, eða þh. En um slíkt er ekki að ræða, þó að atóm og kvarki séu vissulega meðal byggingareininga tilverunnar í einum skilningi eða öðrum.

En hér um að ræða þá minnstu einingu, sem myndar okkar innsta kjarna. Þeas okkur sjálf, meðvitund okkar og það sem henni tengist, svo sem minni, hugsun, (en hugsanaferli virðast vera bæði meðvituð og ómeðvituð).

Sumum kann að koma þessi nálgun undarlega fyrir sjónir. En ég get fullvissað þá um, að hún er ekkert nýmæli. Heimurinn eins og við þekkjum hann, heldur til í okkar eigin huga, minni okkar og skilningi okkar á því sem við höfum þegar reynt. Heimurinn, þe okkar hugmynd um hann, er því reynsla okkar og samskipti okkar við reynsluna. Allt þetta er bundið við okkar eigið hugarstarf. Þetta er ekki í mótsögn við það sem við skynjum utanfrá, í sífellu. Þar sem það sem við skynjum, fléttum við í raun samstundis inn í þennan hugarheim okkar, inní heimsmyndina sem býr í huga okkar. Það má etv spyrja hvenær skynjun er fléttuð inní reynslu okkar, og hvenær hún er enn sjálfstæð og aðskilin frá okkar innri virkni; etv aldrei.

Einingin sem ég nefndi hér í upphafi á við þann heim sem býr innra með okkur. Mér þykir hugtakið tilvera fanga merkinguna best og ég nota það hér með um þennan hugarheim okkar.

Hver þessi eining er, get ég ekki vitað, en ég get þó getið mér til um tilvist hennar, og stutt hana með rökum. En það fer líklega best á því að ég útskýri hugleiðingar mínar um hina smæstu einingu í almennu máli, með hliðstæðum eða dæmum; til að skýra betur hvað ég er að fara.

Allt það sem við sjáum á tölvuskjám, er myndað með litlum ferningum, sem eru venjulega kallaðir “pixelar”. Hringir sem við sjáum á tölvuskjám eru einnig myndaðir með þessum ferningum, sem þýðir að þessir hringir eru auðvitað ekki raunverulegir hringir, heldur hringlaga þyrping af lituðum ferningum.
Á sama hátt er ekki hægt að gera fullkomlega beinar skálínur á tölvuskjám, þe aðrar línur en lóðréttar eða lágréttar. Það verður alltaf um nálgun að ræða.
Pixelar eru hér eitt dæmi um það hvernig minnstu byggingareiningar móta og takmarka það sem þær mynda. Þess vegna er allt sem þær byggja, í raun enn þá kubbalaga. Tölvumyndir munu því eðli sínu skv alltaf eiga e-ð sameinginlegt með LEGOlandi.

Ímyndum okkur næst þrívíðan heim, myndaðan af pýramídalöguðum einingum. En ímyndum okkur einnig lifandi verur ekki ósvipuðum okkur sjálfum, gerðum úr sömu einingum. Þá höfum við, þegar allt kemur til alls, pýramídalaga heim, með pýramídalaga fólki. En hvernig skyldi þetta pýramídalaga fólk skynja heim sinn, eða hugsa? Myndi það gera sér grein fyrir því að heimur þeirra hefði þessa gunnlögun pýramídans? Þeas á sama hátt og við sjáum þeirra heim fyrir okkur núna, í þessu dæmi.
Myndu ekki hugsanir og skynjun þessa pýramídafólks vera fullkomlega háð þeim einingum sem það er myndað úr?
Ég leyfi mér að draga þá ályktun.
(En það felst í þessari ályktun að hugsun pýramídafólksins sé efnisleg, og gerð úr sömu einingum og myndar heiminn.)

Höldum aðeins lengra með þessa pýramídapælingu. Hvernig myndi þetta pýramídafólk skynja okkar heim, ef við myndum færa það í hann? Er hugsanlegt að sumir hlutir, sem við teljum augljósa, og liggja í augum uppi, væri þeim að eilífu huldir? Þeas eðli pýramídafólksins myndi takmarka skynjun og hugsun þess, við það sem væri hægt væri að greina í pýramídalaga einingar. Eins og td stærðfræðin notar tvo þríhyrninga til að greina einn ferhyrning.
Ég leyfi mér að draga þá ályktun, að pýramídafólkið myndi sjá okkar heim á annan hátt en við sjáum hann; auk þess að þeim væri ýmislegt hulið sem okkur er ljóst, í okkar heimi.

Jæja, þá komum við að okkur sjálfum, og heimi okkar.

Með hliðsjón af ofansögðu; hvernig getum við þá vitað að okkur sé ekki e-ð hulið í okkar heimi, eins margt væri pýramídafólkinu augljóslega hulið í þessum heimi?
Svarið er auðvitað að við getum í raun ekki vitað það með vissu. Jú, við getum sagt sem svo að við erum hluti af þessum heimi, eins stjörnur, gjót, gras og hvað annað. Við erum þó gerð úr kvörkum og atómum.
Þetta er rétt, en það var ástæða fyrir því að ég hef talað áður um hinn innri heim og kallað hann tilveru.

Við vitum að kvarkar mynda byggingareiningar atóma og byggingareiningar atóma mynda atóm, atóm mynda svo sameindir, og svo má fara út í það að sameindir mynda hverskyns undarleg efnaferli, og að líf er ma hluti af þessum undarlegu efnaferlum. Lífverur eru svo samansettar úr frumum, sem eru stórkostlegt dæmi um eitt margbrotið efnaferli. Frumurnar mynda líffæri, sem mynda svo líffærakerfi. Og að lokum eru það við, einstaklingarnir og tilvera okkar. (Að auki myndum við einstaklingarnir samfélag einstaklinga, eða bara samfélag.)

Af þessu má sjá að við höfum margar gerðir byggingareininga, og hvert kerfi hefur sína smæstu einingu. Pýramídamódelið var þægileg einföldun, gagnleg til skýringar, en ekki endanlegt módel.

Ef við reynum að nálgast e-t módel af raunveruleikanum, eins og við þekkjum hann. Væri ekki vitlaust að áætla að áðurnefnd tilvera okkar hafi e-a minnstu einingu. Þó ekki væri nema um frumuna að ræða, sem myndar hinn augljósa líkama okkar. Hver einingin er veit ég auðvitað ekki, eins og ég hef áður sagt. En þó við sættum okkur aðeins við það svar sem væri nærtækast, erum við strax komin með hliðstæðu við pýramídafólkið. Þeas ef við færum að tala um okkur sem frumufólkið. En þó er alveg nóg að vita, að gerð okkar sjálfra og þeirra kerfa sem mynda okkur, hljóta að takmarka skynjun okkar og skilning á heiminum í kringum okkur. Það væri líka hægt að tala um heilafólkið, og líta á taugakerfi okkar sem kerfið. Mun líklegra er að þessi eining sem byggir tilveru okkar, sé einhverskonar taugafrumueining, sem myndar einhverskonar boolískar rökrásir, eða e-ð í líkingu við það, eins og við sjáum í tölvum. Enn þá sennilegra tel ég að það séu önnur kerfi sem byggi á þessum rökkeiningum, sem hafa aðrar einingar saman settar af e-u í líkingu við þær einingar sem mynda forritunarmál, og eru í raun kerfi sem við þekkjum sem hefðbundin rökkerfi.

Hver þessi eining er, eða hvernig þessu er háttað í sértækum smáatriðum, skiptir ekki máli fyrir grundvallar pælingu þessarar greinar. Aðalatriðið er, að í kerfi er eining, og einingin takmarkar kerfið um leið og hún myndar það í heild. Tilvera okkar, er að mínu mati dæmi um kerfi, og þal takmarkað af minnstu einingu. NB einingin sem myndar tilveru okkar, er að öllum líkindum alls ekki sú sama og myndar hinn ytri heim. Þal er ekki ólíklegt af framansögðu, að fyrir okkur sé statt eins og pýramídafólkinu, í okkar eigin heimi. Sumt er okkur að eilífu hulið, sökum gerðar okkar.

En það er td líka mögulegt að við sjáum ekki e-a grunnlögun í okkar eigin heimi, líkt og pýramídafólkið skynjar væntanlega ekki að það og heimur þess, hefur hina ríkjandi pýramídalögun.

Apakettir þekkja ekki spegilmynd sína, og munu ógna henni og ráðast á hana (þar sem hún ógnar þeim á móti). Við getum velt fyrir okkur þeim mun sem er á heila okkar og þeirra, auk þess munar sem er á hegðun okkar og apakatta. Við þekkjum ekki vel innri virkni heila okkar, né annara heila, en við getum gefið okkur að e-ð í heildar kerfi tilveru okkar og apakatta sé ólíkt. En þó er líklega um sömu byggingareiningar að ræða,(en þó ekki endilega). En ég nefni þetta sem dæmi sem e-ð sem okkur þykir augljóst. Það að þekkja andlit okkar í spegli og vita að það er speglun en ekki annar einstaklingur, þykir okkur fullkomlega augljóst. En fyrir apaketti er þetta dularfullt mjög. Það er lærdómsríkt að setja sig í spor apakattarins, fremur en að stara á hann í forundran.

Ég vil enda þetta á því að beina athygli lesandans, að þeim takmörkunum sem fylgja okkar innri gerð, þe heila okkar og meðvitund, ss takmörkum tilveru okkar. Ég vil vekja lesandan til meðvitundar um allar lausnirnar sem eru fyrir framan nefið á honum, lausnir sem við erum ekki einusinni búnir að finna spurningar að. Ég tel tilveru okkar felast í kerfi, sem hefur minnstu einingu, og hana tel ég vera röklega. Við innlimum heiminn, hólfum hann og flokkum inn í þetta innra kerfi, og tilvera okkar felst í þessu kerfi í heild sinni, og þetta kerfi er takmarkað af einingu sinni. Tilveran og heimurinn eins og við skiljum hann er því bundinn við þetta kerfi, og takmörkuð af því.


Vonandi var þetta skiljanlegt.

Kv.
VeryMuch