Eitt líf er ekkert líf.
Það er engin skynsemi í því að maður eigi sér aðeins eitt líf. Mannsandinn er svo miklu meira, það að við vitum að við séum til, sú staðreynd, þessi vitund, hefur mannsandann upp úr raunveruleikanum. Það er ekkert náttúrulegt við það að geta skilið og skynjað og í framhaldinu skilið að maður skilji og skynjað að maður skynji, það er tvímælalaust yfirnáttúrulegt.

Þess vegna hef ég enga ástæðu til þess að trúa því að mannsandinn sé eitthvað bundin efnislíkamanum og að dauðinn hafi einhver áhrif á andann.
Hið sanna “sjálf” helst óskert frá fæðingu til dauða óháð ástandi líkamans, svo það er greinilegt að það er ekki bundið “efninu”.

En hvað þá? er spurning sem okkur er ómögulegt að svara. Reyndar er hægt að draga ályktanir af hlutum sem virðast sjálfsagðir. Maðurinn er mælikvarði allra hluta, þess vegna getum við reynt að nota okkar eigin reynslu til þess að reyna að komast að niðurstöðu.
Við getum t.d. ályktað að ef maður fæðist aftur þá man maður í það minnsta ekki sín fyrri líf þar sem við munum ekki í þessu lífi okkar fyrri líf. En skiptir það máli, í nýju lífi þurfum við að muna eftir hinu fyrra? Gera minningar okkar að okkur sjálfum? Alls ekki, í reyndinni munum við afskaplega lítið enda skiptir það engu máli að muna. Eina sem skiptir máli er að maður læri af reynslunni, maður þarf ekki að muna hana, og að maður njóti þess að lifa í núinu.
Ef við litum á hverja ævi sem einn dag þá skiljum við kannski samlíkinguna. Mannstu hvað þú gerðir 25.febrúar 1994 ? Svarið er án efa nei, enda þarftu ekki að muna svona nákvæmlega. Segjum að þú hafir verið 3gj ára og þú hafir brennt þig á eldi. Þú mannst ekki eftir því en þú lærðir samt af því.
Við skulum ekki halda að minningarnar geri mann að því sem maður er.

Fólk er furðulega misþroskað, einhverra hluta vegna er fólk ,óháð líkamlegum mismun og mismunandi uppeldi, misþroskað; jafnvel þótt að við eigum að heita hvítt blað þegar við í þennan heim erum borin.
Sumum er áfengi til dæmis ógurleg freisting og geta ekki höndlað það meðan aðrir sjá ekkert í því sem freistar. Sumir gera mistök sem aðrir furða sig á að hægt sé að gera. Fólk er mismunandi falt fyrir mismunandi hlutum og aðstæðum.
Það er freistandi að álykta, þótt að ómögulegt sé að sanna, að maðurinn sé búin að læra mismunandi mikið og hafi mismunandi mikla reynslu á herðunum þegar hann fæðist, allt eftir því hvað hann hafi þroskast mikið í fyrrum lífum sínum.

Ég horfi yfir bekk krakka sem allir koma úr svipuðu umhverfi og eru öll jafngömul og er ákaflega undrandi yfir því hversu mismunandi þroska krakkarnir hafa, sumir eru óvenjulega bráðþroska,ekki síðri en fullorðið fólk, meðan aðrir eru óvenjulega vanþroskaðir.
Þetta getur varla verið allt sálir semeru að sjá heimin í fyrsta sinn, ég held að maður þurfi að upplifa heiminn mörgum sinnum áður en maður getur fæðst inn í t.d. nútíman og fittað alveg. Enda sjáum við líka hvað mannkynið hefur þróast á þessum þúsundum ára sem hafa liðið, þróunin hefur fylgt tímalínunni nær fullkomlega. Eftir því sem meiri tími líður verða framfarirnar meiri. Samt lifa mennirnir allir jafnstutt og hafa allir jafn lítin tíma til þess að uppgötvað og meðhöndla.

Allavegna, mér finnst frásinna að segja maður eigi sér aðeins eitt líf. Eitt líf er ekkert líf. Að segja að maður eigi sér s.s. ekkert líf er auðvelt að hrekja, því hvað erum við að gera núna annað en að anda og lifa?