Þetta er nú bara fyrirlestur sem ég er að fara að halda eftir smá stund um siðfræði í vísindum. Óskaplega almennt, það er ekki kafað neitt gífurlega djúpt í málin (enda átti þetta bara að vera svona kortér-tuttugu mínútur eða svo, og mikið efni að fara yfir) og vonandi skiljanlegt. Ég vona að það fyrirgefist að ég sendi hann hingað líka (og það sem grein!) … og þau ykkar sem nennið ekki að lesa “langar” greinar, geriði það fyrir mig að sleppa því að lesa þetta. Að minnsta kosti kæri ég mig ekki um tólf svör, og öll á sama hátt: “Úff hvað þetta er langt, hvernig nenntiru þessu?” Hins vegar er ágætt að fá að vita ef ég er virkilega of langorður um eitthvað efni (þótt það komi of seint til að hafa áhrif á fyrirlesturinn). Takk fyrir.

Ætli það sé ekki best að ég byrji á að tala stuttlega um þær tvær siðfræðikenningar sem skipta mestu máli þegar um vísindi er að ræða: Nefnilega nytjastefnuna og skyldusiðfræðina.

Í sem fæstum orðum gengur nytjastefnan út á það að hámarka skuli hamingju sem flesta. Og þótt þetta sé þó nokkur einföldun, þá er þetta líka eiginlega allt og sumt. Athafnir eru metnar út frá því, hvaða afleiðingar þær hafa, og litlu öðru. Sé meira af velsæld heldur en vansæld sökum einhverrar athafnar, þá er hún rétt, en röng ef vansældin vegur þyngra á vogarskálunum. Jeremy Bentham, einn upphafsmanna stefnunnar á Englandi átjándu aldar, leit einmitt svo á, að hægt væri, með einföldum aðferðum að reikna út hvort einhver lög væru réttlát eða ekki (það var hans helsta hugðarefni): Hann kallaði það „felicity calculus“, og þá yrði einfaldlega gengið í hús og allir spurðir hve mikla hamingju eða óhamingju lögin myndu hafa í för með sér fyrir viðkomandi. „Gæði“ hamingjunnar skiptu engu máli – eins og hann orðaði það: Skollaleikur (þ.e. þegar bundið er fyrir augu á þátttakendum, og þeir eiga síðan að festa skott á mynd af asna, sem er hengd upp á vegg) er jafn merkilegur og skáldskapur.

Þessu vildi annar forvígismaður nytjastefnunnar, John Stuart Mill, ekki una, og sagði „betra er að vera vansæll maður en sælt svín“, þar sem hamingja manna og óhamingja væru svo miklu margslungnari og flóknari, að það væri þess virði að vera maður, jafnvel þegar honum liði illa. Og hann gerði líka greinarmun á þeirri nautn að liggja dauðadrukkinn á ströndinni annars vegar, og að njóta skáldskapar hins vegar. Hins vegar var hann á því, að allir menn (eða því sem næst) gætu notið þessarar æðri sælu.

Nytjastefnan er afar lýðræðisleg, því hamingjan er jú á færi allra, hvort sem er karla eða kvenna, kolanámumanna eða kóngafólks. „Við teljum hvern mann einu sinni, og engan oftar en einu sinni,“ sagði Bentham. Það þýðir m.a. að þótt einhver lítill hópur hljóti þó nokkra ánægju af einhverjum verknaði, lögum og svo framvegis, en mun stærri hópur finni til vansældar – þannig að vansældin vegi þyngra á metunum – þá sé athöfnin/lögin röng. Hún tekur líka tillit til dýra, a.m.k. stundum: Eins og Bentham orðaði það: „Spurningin er ekki ‘Geta þau talað?’, né ‘Geta þau hugsað?’, heldur ‘Geta þau þjáðst?’“ Kannske hafði það einhver áhrif á viðhorf þessara manna, að Bentham átti gælusvín, en Mill jafnaði sig af taugaáfalli með því að lesa ljóð (man annars einhver hvaða ljóð það voru, eða hvaða skáld?).

Lítum á eitt raunverulegt dæmi (þótt ég verð reyndar að játa, að ég er ekki alveg viss um að þetta sé raunverulegt dæmi – en mig minnir það endilega, annars getum við bara litið á það sem tilbúið dæmi. Það ætti ekki að koma í veg fyrir að hugmyndin skili sér) og hvað nytjastefnan segði um það. Fyrir nokkrum árum kom það í ljós, að uppgötvanir sem sænskir tannlæknar höfðu gert varðandi áhrif sykurs á tennur, voru byggðar á ansi skuggalegum rannsóknum. Þeir höfðu ekki farið og náð sér í sjálfboðaliða, eins og maður hefði haldið að væri æskilegra, heldur tóku þeir sig til, og gáfu þroskaheftum börnum karamellur, sem voru sérstaklega klístraðar svo þær myndu örugglega loða vel og lengi við tennurnar, auk þess sem í þeim var sérlega mikið af sykri. Nú, þetta hafði auðvitað þau áhrif að tennur barnanna leystust upp og skemmdust afar hratt. Og af þessum rannsóknum (meðal annarra, er ég viss um) komust menn að áhrifum sykurs á tennur og tannheilsu.

Hvað myndi nú venjulegur nytjastefnumaður segja um þetta? Það myndi, held ég, fara eftir því hvenær við myndum spyrja hann. Ef við spyrðum hann þegar rannsóknirnar stóðu yfir (og segjum bara að við myndum vita af þessum rannsóknum en segðum ekki frá), þá myndi hann sennilega segja að þetta sé rangt: Það er alveg óvíst hvernig þetta muni gagnast mönnum, og þeir einu sem eru að gleðjast yfir þessu eru vísindamennirnir. Börnin eru hins vegar sárkvalin: Bæði af tannpínu, og svo er bara alls ekkert gaman að fara til tannlæknis. Sérstaklega ekki á þessum tíma (þetta var einhvern tímann í kringum 1950, ef ég man rétt).

En ef við spyrðum hann í dag, þá er hætt við að annað hljóð komi í strokkinn: Þetta voru góðar rannsóknir (og höfum hugfast, að ég er aðeins að tala um „einfalda“ nytjastefnumenn). Hugsið ykkur bara hvernig tennur barna nú til dags – sem úða í sig sykri alla daga – litu út ef við vissum ekki af þessum áhrifum sykurs! Nytjastefnumenn gætu lent í þeirri leiðindaaðstöðu að samþykkja rannsóknir og tilraunir eins og þessar, því þær koma sér svo vel og valda svo mörgum hamingju að óhamingja hinna fáu skiptir engu máli.

Hin stefnan sem ég ætlaði að nefna var skyldusiðfræðin. Upphafsmaður hennar var – tja? Séu menn trúaðir, þá gætu þeir sagt að Guð (eða guðirnir) sé upphafsmaður hennar. Hún einkennist nefnilega af boðorðum og reglum eins og við finnum í trúarritum á borð við Biblíuna og Kóraninn. En sú skyldusiðfræði sem mönnum dettur gjarnan fyrst í hug þegar minnst er á hana er siðfræði Kants – kantísk siðfræði.

Þar er raunar aðeins eina meginreglu að finna (en ekki t.d. 613, eins og finna má í Gamla testamentinu einu saman), þótt hún sé orðuð á fjóra mismunandi vegu. Ætli frægasta orðunin sé ekki þessi: Breyttu aðeins eftir þeirri reglu sem þú getur jafnframt viljað að allir menn breyti eftir (og þetta er alls ekki ósvipað reglum manna eins og Jesúms, Konfúsíusar og Hillels). En það er önnur orðun sem er ekki síður áhugaverð: Komdu aldrei fram við aðra menn einungis sem tæki, heldur ávallt um leið sem markmið. Það er að segja: Ekki nota fólk, vertu meðvitaður um að aðrir hafa líka sínar langanir og þrár, sem eru alveg jafn réttháar þínum.

Og þessi orðun kemur að mun betri notum þegar verið er að fást við sænsku tannlæknana heldur en nytjastefnan. Hér þarf ekki að mæla hamingju, óhamingju eða almenna nytsemi: Það er nóg að líta á dæmið, og þá ætti að blasa við að börnin voru notuð. Þau voru ekki spurð leyfis né var þeim tilkynnt að þau væru í þann mund að fara að taka þátt í rannsókn af þessu tagi. Þau voru notuð. Og samkvæmt reglu Kants, þá er slíkt athæfi rangt.

Skyldusiðfræðin hefur það einnig fram yfir nytjastefnuna, að hún rímar mun betur við þá hugmynd, að allir menn gegni fjöldamörgum hlutverkum. Raunar má líta á þá hugmynd sem aðeins anga skyldusiðfræðinnar, enda fylgja margs konar skyldur hverju hlutverki fyrir sig. Þessar skyldur eru líka breytilegar eftir hlutverkum: Einn og sami maðurinn getur verið læknir, eiginmaður, faðir, bróðir, sonur, vinur og þar fram eftir götunum. Og maður gerir allt aðrar kröfur til lækna heldur en t.d. vina: Ég ætlast ekki til þess að vinir mínir lækni mig þegar ég er sjúkur, og ég ætlast heldur ekki til þess að læknir veiti mér hughreystingu þótt mér gangi illa að fóta mig í lífinu. Þetta eru tvö gjörólík hlutverk. Hlutverk vísindamannsins er aðeins eitt þeirra.

Sum hlutverk vísindamanna koma siðfræðinni lítið við: Vísindi eru aðferð til að komast að sannleikanum og/eða öðlast þekkingu á heiminum, og þar með auðvelda okkur lífið, og þá er hlutverk vísindamanna að beita vísindunum í þessum tilgangi. Það er þó ekki þar með sagt að vísindamaður megi beita hvaða aðferðum sem vera skal til að komast að þessum sannindum, eða aðferðum sem eiga að auðvelda okkur lífið. Til að hann geti talist vísindamaður, þá verður hann að beita vísindalegum aðferðum – geri hann það ekki er hann aðeins svindlari, en ekki alvöru vísindamaður.

En þetta er auðvitað ekki allt og sumt: Það er ekki nóg að aðferðirnar séu réttar í vísindalegum skilningi – þær verða líka að vera siðferðilega réttar. Eitt skilyrði þess er, eins og þegar hefur komið fram, að fólk sé ekki notað, að það sé ekki látið taka þátt í rannsóknum sem það kærir sig ekkert um, án þess að það sé látið vita fyrirfram – eða jafnvel gengt vilja sínum, eins og nasistarnir gerðu (og vafalaust fleiri; ég hef a.m.k. heyrt sögur af því að Bandaríkjamenn hafi athugað áhrif geislavirkni á eigin hermönnum þegar þeir sprengdu fyrstu tilraunasprengjuna á sínum tíma) í búðunum sínum. Aðferðir tannlæknanna eða Mengeles voru kannske ekkert athugaverðar að því leyti að þær voru vísindalega traustar – þetta var, og er jafnvel enn, traust leið til að kanna kenningar og uppgötva sannindi um mannslíkamann (eins og t.d. hve mikið frost hann þoli). Hins vegar er eitthvað bogið við þær siðferðilega – eins og þegar hefur verið sagt, núna tvisvar sinnum.

En vísindamenn hafa þá skyldu að auðvelda okkur hinum lífið, þótt ekki sé nema örlítið. Til að það gangi verðum við að vita hvað þeir séu að uppgötva, hvaða nýju sannindum þeir hafa komist að. Það skiptir hins vegar afar miklu hvernig staðið sé að birtingu niðurstaðna þeirra rannsókna sem þeir hafa stundað.

Það telst t.d. almennt ekki vera kosher að taka saman niðurstöður einhverrar rannsóknar og gefa út undir eins. Venjan er sú, og það er raunar mun betri aðferð, að senda þessar niðurstöður fyrst í tímarit fræðimanna á viðeigandi sviði. Niðurstöður rannsókna eru, oftar en ekki, bara ein túlkun á staðreyndum. Tveir menn athuga fall steina: Annar kemst að þeirri niðurstöðu að steinninn leiti niður á við, að miðju alheims, því það sé í eðli þess efnis sem hann er einkum gerður af að fara í átt að miðjunni. Hinn ályktar hins vegar að þetta sé vegna þess að eitthvað í Jörðinni togi í steininn. Það væri afar ábyrgðarlaust af þessum mönnum, væru þeir uppi nú á dögum, að gefa þessar niðurstöður út á bókarformi undir eins, án þess að hafa sent þær fyrst til viðeigandi tímarita og fengið almennilega gagnrýni á þær, tekið tillit til gagnrýninnar og komist að betri (jafnvel réttri) niðurstöðu. Þessi tímarit eru m.a. til að tryggja slíkt.

Eitt raunverulegt dæmi um vísindamenn sem klikkuðu alveg á þessu eru höfundar bókarinnar The Bell Curve – bók sem átti að sýna, í eitt skipti fyrir öll, að það væri raunverulegur munur á greindavísitölu manna, og að þessi munur færi eftir kynþátt manna. Sú bók fór beint á metsölulista í Bandaríkjunum, og hlaut gífurlega umfjöllun, jafnvel í virtum tímaritum eins og Newsweek og Time, sem jafnvel tileinkuðu bókinni heilt tölublað. Auðvitað var sú umfjöllun upp og ofan, og það voru ekki nærri því allir sem höfðu neitt gott um hana að segja. En það skipti ekki máli; allt umtal er gott umtal, og þær fengu bara enn meiri (ókeypis) auglýsingu. Kynþáttahyggjufólk – það er að segja, hvítt kynþáttahyggjufólk, ég efast um að svartir hafi hrifist mikið af þessu – tók þessarri bók fagnandi. Þarna var loksins komin vísindaleg réttlæting fyrir skoðunum þeirra: Svartir eru einfaldlega heimskari. Vísindalega sannað, útrætt mál.”

Gallinn var auðvitað sá, að þetta var alls ekki vísindalega sannað. Það hafði engin fræðileg umræða farið fram um þessar niðurstöður rannsóknarinnar, og þótt hún hafi farið fram síðar, eftir að bókin kom út, þá voru ekki margir sem hlustuðu á þessa tuðandi fræðimenn sem lifa í einhverjum hugsjónaheimi og vita ekki neitt um nokkurn skapaðan hlut.

En hefði þetta nú farið eftir eðlilegum leiðum, þá hefði margt komið í ljós, þó nokkrir gallar á rannsókninni og þeim heimildum sem stuðst var við; sá alvarlegasti var sennilega sá, að það voru alls ekki notuð nein stöðluð greindarvísitölupróf, heldur próf sem herinn notar til að mæla hve mikið fólk hefur grætt á skólagöngu sinni. Og það er allt annað mál.

Það er ljóst að höfundar The Bell Curve, Charles Murray og Richard Herrnstein, brugðust alveg þessari frumskyldu vísindamanna, að uppgötva ný sannindi og/eða auðvelda fólki lífið, og að gera það eftir vísindalegum aðferðum. Að vísu má segja, að þeir hafi auðveldað sumu fólki lífið – en þá má á móti spyrja hvort að það sé endilega fólkið sem eigi að auðvelda lífið, eða að minnsta kosti hvort það ætti að vera gert á þennan hátt. En þeim mistókst alveg að uppgötva ný sannindi. Það má svosem vel vera, að greindarvísitala svartra sé að meðaltali 15 stigum lægri en hvítra – en rannsóknir þeirra leiddu ekkert slíkt í ljós, þar sem það var ekki einu sinni notað greindarvísitölupróf. Og það má líka vel vera að gáfnafar fólks sé bæði bundið kynþáttum og genum – en þeim tókst ekki að sýna fram á það heldur, þar sem ennþá eru menn að rannsaka genin, og eru ekki búnir að negla niður hvaða gen geri menn klára og hver ekki. Þaðan af síður að þessi gen tengist kynþáttum á einhvern hátt.

Þá er eftir að tala um ábyrgð vísindamanna hvað varðar niðurstöður þeirra – það er að segja, þær niðurstöður sem standast þetta próf jafningja. Bera þeir nokkra ábyrgð á því hvernig þessar niðurstöður eru notaðar? Kom það t.d. Oppenheimer og Einstein og þeim öllum við hvernig kjarnorkusprengjan var notuð?

Ég hallast að því að svara já og nei – sem vísindamönnum kom það þeim ekki við. Vísindamenn eiga að rannsaka, finna upp og svo framvegis – og því er varla að neita, að kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki auðvelduðu sumum lífið, nefnilega bandarískum hermönnum og bandarískum almenningi, sem var orðinn ansi þreyttur á stríðinu.

Hins vegar er ekki hægt að kljúfa menn svona í sundur. Já, menn gegna hlutverki sem vísindamenn. En þeir eru jafnframt öll hin hlutverkin sín – og það eitt að vera maður, þ.e. af tegundinni maður, er að gegna ákveðnu hlutverki. Þannig að þótt þeim beri ekki skylda til að taka tillit til þess hvernig uppfinningar þeirra verði notaðar sem vísindamenn, þá ber þeim skylda til þess sem menn.

Takk fyrir.
All we need is just a little patience.