Ég veit ekki hvort þetta á heima inná “heimspeki”, en ég vissi ekki hvert annað ég átti að senda þetta. Í þessari grein ætla ég aðallega að pirrast yfir ákveðnu orðatiltæki sem er mikið notað en fer nokkuð í taugarnar á mér.
Þegar einhver gerir eitthvað sem er ekki mjög vinsælt er oft sagt “vá, þessi á sér nú ekkert líf”. Þetta er kannski mest notað meðal unglinga og ég nota þetta oft sjálf án þess að hugsa. Fólk sem gerir sérkennilega hluti eins og að raða dómínókubbum alla daga eða læra utan að allar höfuðborgir í Afríku fær sennilegast mjög oft að heyra að það eigi sér ekki líf, eins fólk sem er tölvunördar, fólk sem les mikið af bókum, fólk sem reiknar stærðfræði í frítíma sínum, fólk sem fer í einmana ferðir upp á fjöll og sennilegast líka fólk sem les heimspekipælingar á netinu :) En hvað er eiginlega þetta “líf” og hvað þýðir að “eiga sér líf”?
Hjá venjulegum ungling lítur “líf” kannski þannig út að hann vinnur og er í skóla alla vikuna, og djammar svo eins og brjálaður alla helgina. Dagarnir líða bara einn af öðrum, inn á milli koma jól, sumarfrí, en annars er lífið frekar einsleitt. Eftir framhaldsskólann fer fólk svo að gera mismunandi hluti, margir fara í vinnu, sumir í nám, aðrir ferðast, og svo róast fólk kannski niður og eignast börn, og fer að búa. Um þá sem hafa fundið sér einhverja festu er oft líka sagt “að lífið sé bara búið”.
En eiga hinir einrænu sem eyða mörgum stundum í að gera hluti sem tíðkast ekki eitthvað minna “líf” heldur en hinir? Eru þeir eitthvað óhamingjusamari? Og hvers vegna erum við með einhverjar staðlaðar hugmyndir um það hvernig hamingjusamt líf eigi að líta út? Allavegana veit ég að þegar ég vakna eftir fyllerí þá líður mér ekkert sérstaklega vel, og er hvorki ánægð með sjálfa mig né “líf” mitt. Samt held ég oftast áfram um næstu helgi, mér dettur ekkert skárra í hug. Og hvaða rétt hef ég þá til að líta niður á fólk sem hefur betri hugmyndir yfir hverju það getur eytt tíma sínum í? Á það eitthvað minna “líf” heldur en hin staðlaða manneskja?