“Samsemdarvandinn” er e.t.v. örlítið hrokafullt og jafnvel tilgerðarlegt heiti á þessu máli. En mér þykir það samt vera viðeigandi - fyrir mér er þetta raunverulegur vandi, sem veldur því stundum að ég fæ höfuðverk og verð andvaka.

Vandinn er þessi: Samkvæmt lífeðlisfræðinni, þá skiptist um allt efni í líkama manns á hér um bil átta árum (1), en samt tölum við um sama manninn í dag, fyrir átta árum og eftir átta ár: Maður getur samið ljóð þegar hann er fjórtán ára og sýnt kærastanum sínum eftir tólf ár og sagt stoltur “Þetta orti ég fjórtán ára!” og engum þætti neitt athugavert við það, þótt það hefði skipst um allt efni í honum, og ekkert af upphaflega byggingarefninu væri eftir. En okkur dytti aldrei í hug að tala um sama hamarinn í dag og fyrir átta árum, ef við höfum skipt um skaft og haus á honum: “Jubb, jubb - ég hef átt þennan hamar í átta ár. Ég skipti um haus á honum fyrir einum fjórum árum, að vísu, og svo setti ég nýtt skaft á hann í gær - en þetta er sami hamarinn.” Þetta hljómar undarlega, jafnvel fáránlega, og ég held að enginn myndi taka mark á þessum manni þegar hann segði þetta.

En hvers vegna? Hvað er það sem gerir manni kleift að tala um sama manninn ár frá ári, en ekki sama hamarinn? Þessi vandi er auðvitað víðar, og æfaforn líka. Grikkir til forna veltu þessu fyrir sér: Herakleitos er m.a. frægur fyrir að segja að enginn stígi í sömu ána tvisvar, og einhver lærisveinn hans gekk jafnvel enn lengra og sagði að enginn stigi í sömu ána einu sinni. Þeir komust að þessari niðurstöðu á einfaldan hátt: Vatnið í ánni rennur áfram, og hvað er á annað en vatnið sem í henni er? Það virðist því ofureðlilegt að menn komist að þessari niðurstöðu, ef þeir gefa sér að á sé aðeins vatnið í henni. Svo er auðvitað hægt að reyna að komast framhjá þessu með ýmsum leiðum. Til dæmis er hægt að segja á vera meira en vatnið: Hún er líka farvegurinn, botninn og svo framvegis. En jafnvel þótt á skipti um farveg þá getum við talað um sömu ána áfram. Önnur leið og einfaldari er sú að segja að áin sé einhvers konar félagslegt fyrirbæri: Hún er raunar aðeins samþykki allra þeirra sem tala um hana að tala um hana á þennan hátt. En mér hugnast sú leið ekki heldur; ég vil geta sagt Þjórsá vera sömu á í dag og hún var áður en nokkur kom hingað, en það er óhugsandi eftir þessari félagslegu leið.

Svo er mér líka alveg sama um fljót, fjöll og firnindi - sökkvið þessu öllu á bólakaf ef þið kærið ykkur um! Ég vil vita hvernig hægt sé að segja einhvern mann vera einn og sama manninn frá vöggu til grafar.

Ein vinsæl aðferð er sú að segja að það skiptist svo hægt um efni í okkur að það skiptir engu máli; breytingin er svo hæg að það tekur enginn eftir henni. En mér þykir það vera ósannfærandi. Þótt enginn taki eftir þegar ég tek haus af hamri og set nýjan á (alveg óþekkjanlegur frá þeim fyrri) og nokkrum árum síðar tek ég skaftið af og set nýtt á (og nýja og gamla skaftið líta alveg eins út), þá er ekki um sama hamar að ræða. Skiptir engu þótt enginn geti séð muninn og tekið eftir svindlinu; það er ekki um sama hamar að ræða.

Önnur aðferð sem ég hef heyrt af er vísun til minninga. Þá er maður sá sem maður var fyrir fimmtán árum vegna þess að maður man eftir sér fyrir fimmtán árum síðan (eða tólf eða átta). En það þykir mér líka ósannfærandi, vegna þess að þótt einhver lendi í slysi og missi minnið þá er hann samt sá sami og hann var fyrir slysið.

Og þá dettur mér bara í hug ein aðferð enn, og það er vísun til sálarinnar. Það er eitthvað í manni sem breytist ekki, og það er sálin, hún er alltaf óbreytt og stöðug. Mér þykir þetta kannske vera ásættanlegasta leiðin. Hún er alls ekki góð, en hún er skást. Hún er ekki góð vegna þess að héðan eru aðeins örfá skref að þeirri ályktun að sálin sé allt og sumt, að þð eina sem skipti máli sé sálin en líkaminn sé bara eitthvað rusl, eitthvað sem skipti margfalt minna máli. Maður gæti jafnvel gengið svo langt að segja að maður sé alls ekki líkaminn; en ég held að það sé ekkert vit í slíkum fullyrðingum. Auðvitað er ég líkaminn - það er ekkert vit í að neita því. Mér er illt í stóru tánni, ég hef tannpínu í jaxl í neðri góm, vinstra megin. Og það er ekki bara einhver klessa af kjöti, blóði og beinum sem fær meltingartruflanir og kvef - ég fæ vont í magann af sumum mat og ég fæ kvefið.

En ég sé ekkert að því að blanda sál í málið. Það er jafnvel hægt að líta svo á, að sálin sé það sem er meira en summa hlutanna, alveg eins og vinátta tveggja manna er meira en mennirnir tveir, skóli meira en nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn skólans, eða hugsun meira en heilaferli.


(1) Það skal játast, að ég hef engar traustar heimildir fyrir þessari tölu. Ég hef heyrt þessa tölu - átta ár - víða, en það eitt sannar auðvitað ekkert; þótt maður heyri fimmhundruð manns segja svertingja vera heimskari öðrum “kynþáttum”, þá er það samt ekki satt. En mér þykir ótrúlegt að það sé eitthvað af sama efni í mér nú og þegar ég fæddist, og mér þykir liggja í augum uppi að það skiptist um efni í manni, hægt og rólega, atóm fyrir atóm. Átta ár er ekkert verri tala en hver önnur, þannig að ég held mig bara við hana.
All we need is just a little patience.