Hvað er á seyði í sannleikskenningum? Sannleikshugtakið leikur stórt hlutverk í málspeki Donalds Davidsons en á því byggir Davidson kenningu sína um merkingu fyrir náttúruleg tungumál. Kenning um sannleika er kenning um merkingu, hvorki meira né minna. En Davidson vill ekki skilgreina sannleikshugtakið eins og fram kemur í nýlegum greinum hans. Hvers vegna ekki? Hér verður leitast við að varpa ljósi á það.

Ef til vill er ágætt að byrja á því að skilgreina afstöðu Davidsons til sannleikans neikvætt, það er að segja, með einhvers konar útilokunaraðferð; segja hvaða kenningar um sannleikann hann fellst ekki á og hvers vegna ekki. Þannig vonast ég til að geta varpað einhverju ljósi á hvaða hvatir liggja að baki höfnun Davidsons á öllum skilgreiningum á sannleikanum. Að því loknu mun ég reyna að segja eilítið meira um afstöðu Davidsons sjálfs og hvað hún felur í sér.

Mikilvægasta kenningin um sannleikann sem Davidson hafnar er samsvörunarkenningin (correspondence theory of truth). Mörg afbrigði eru til af kenningunni en í grófum dráttum felur kenningin í sér að staðhæfingar eða skoðanir (eða setningar) séu sannar ef og aðeins ef þær samsvara raunveruleikanum, eða staðreyndum, eða stöðu mála, raunverulegum kringumstæðum, eða því hvernig heimurinn er.(1) Tvö helstu afbrigðin eru nefnd á ensku “congruence theory” annars vegar og “correlation theory” hins vegar, en það er vandkvæðum háð að þýða þau nöfn yfir á íslensku þar sem bæði orðin, “congruence” og “correlation”, þýða það sama, samsvörun. Fyrrnefnda afbrigðið er að finna meðal annars hjá Bertrandi Russell (1872-1970). Hann telur skoðun sanna ef hún er sú skoðun að um x,y og venslin V gildi Vxy, og x venslist raunverulega við y með þeim hætti. Síðarnefnda afbrigðið er að finna meðal annars hjá J.L. Austin (1911-1960). En hjá Austin er skoðun sönn ef og aðeins ef skoðunin í heild tjáir aðstæður (state of affairs) og þær aðstæður eru raunverulegar. G.E. Moore (1873-1958) er annar málsvari þessa afbrigðis. Hann segir:

“Að segja um skoðun að hún sé sönn er í raun að segja að staðreyndin sem hún vísar til sé; en að segja hana ósanna er í raun að segja að segja að staðreyndin sem hún vísar til sé ekki – að það sé engin slík staðreynd”.

Ég segi að samsvörunarkenningin sé mikilvægust þeirra kenninga sem Davidson hafnar, en þó er hún ef til vill ekki vinsæl kenning í dag. Það er að minnsta kosti óhætt að segja að hún sé ásamt gagnhyggjunni umdeildasta kenningin um sannleikann. En hún varð hins vegar tilefnið til úrdráttarhyggjunnar sem er vinsælt viðhorf í dag, rétt eins og gagnhyggjan varð tilefnið til samsvörunarkenningarinnar hjá Russell og G.E. Moore í byrjun tuttugustu aldarinnar,(2) og verður úrdráttarhyggjan því einungis skilin með hliðsjón af samsvörunarkenningunni: Hún er sú kenning sem hleypa átti loftinu úr. En hvað um það.

Hvað er að þessum kenningum sem saman ganga undir heitinu samsvörunarkenningin um sannleikann? Hvers vegna ættum við ekki að fallast á hana? Hvers vegna finnst Davidson hún ófullnægjandi? Ein mótbáran við samsvörunarkenningunni varðar staðreyndir eða raunveruleikann, en ekkert afbrigði kenningarinnar kemst hjá því að vísa til staðreynda eða raunveruleikans og því fylgja kenningunni frumspekilegar skuldbindingar.(3) Við sitjum uppi með verufræði sem er full af staðreyndum. Hvað þýðir það að verufræðin innihaldi staðreyndir? Það þýðir að ef það er staðreynd að bókin liggi á borðinu, þá sé til að minnsta kosti þrennt: bókin og borðið, en auk þeirra staðreyndin um legu bókarinnar á borðinu. Ef verufræði okkar inniheldur staðreyndir gætu allt eins verið fjölmargar staðreyndir til viðbótar, t.d. sú staðreynd að bókin liggi ekki á miðju borðinu og sú staðreynd að ef bókin liggi á borðinu þá sé hún ekki á gólfinu, ennfremur sú staðreynd að bókin liggu á borðinu og sé ekki í bókahillunni, og sú staðreynd að bókin sé annað hvort á borðinu eða í hillunni. Með öðrum orðum er það spurning hvort verufræði okkar eigi þá einnig að innihalda margháttaðar staðreyndir (e. complex facts) s.s. neikvæðar, samtengdar (e. conjunctive), sundurtengdar (e. disjunctive) og skilyrðisbundnar staðreyndir, auk einfaldra staðreynda, eða ekki. Sumum þykir þetta löstur á kenningunni per se, en það er þó ekki höfuðvandinn fyrir Davidson. Verufræði hans er til að mynda full af atburðum og hvers vegna ættu staðreyndir að vera verri?

Vandinn varðar frekar samsvörunarhugtakið og hvað það er fyrir staðhæfingu, eða skoðun eða setningu, að samsvara staðreynd. Allar staðreyndir geta runnið saman í eina staðreynd og allar sannar staðhæfingar geta samsvarað sömu staðreyndinni (Davidson rekur þessa gagnrýni til þýska stærðfræðingsins og rökfræðingsins Gottlobs Freges (1848-1925) en hann taldi að allar sannar setningar nefndu Hið Sanna, og Kurts Gödels (1906-1978)). Þá er kenningin ekki lengur skemmtileg. En gagnrýnin gerir ekki útaf við kenninguna þó verjendur kenningarinnar þurfi helst að geta svarað henni. Aftur á móti má Davidson ekki vera að því að leita að því svari þar sem annar vandi fylgir kenningunni fyrir Davidson. Það virðist engin leið að gera grein fyrir samsvörun án þess að gefa sér merkingarhugtakið en Davidson vill einmitt nota sannleikann til að varpa ljósi á það hugtak. Hann stæði því frammi fyrir hringferð í sönnun, að gefa sér það sem hann hyggst sýna fram á. Því er ljóst að Davidson hefur aðrar heimspekilegar skuldbindingar sem valda því að uppblásin samsvörunarkenning er ekki kostur.

Önnur kenning sem Davidson hafnar er samkvæmniskenning um sannleikann (coherence theory of truth). Slík kenning felur í sér að sannleikur sé það sem gengur upp innan tiltekins kerfis sem er sjálfu sér samkvæmt, til dæmis stærðfræðikerfis. Meðal verjenda kenningarinnar eru frægir rökhyggjumenn á borð við Benedict Baruch Spinoza (1632-1677) og Gottfried Wilhelm Leibniz (1646-1716), og Francis Herbert Bradley (1846-1924), Otto von Neurath (1882-1945), Carl Gustav Hempel (1905-1997) og Nelson Goodman (1906-1998) á tuttugustu öld.

Þessari kenningu fylgja ekki verufræðilegar skuldbindingar sem Davidson getur ekki samþykkt, líkt og samsvörunarkenningunni. En Davidson mótmælir þessari kenningu í nafni almennrar skynsemi. Mörg ólík kerfi, sem öll eru sjálfum sér samkvæm, geta verið innbyrðis ósamrýmanleg. En það er fráleitt að halda að þau séu öll jafnrétt. Hann segir m.a. í grein sinni “The Structure and Content of Truth”: “A pure coherence theory of truth would hold, I suppose, that all the sentences in a consistent set of sentences are true. Perhaps no one has ever held such a theory, for it is mad.”(4) Ljóst er að í megni allra sannra staðhæfinga væri samkvæmni en enga mótsögn að finna. En á hinn bóginn er engin ástæða til að ætla að að öll mengi staðhæfinga sem fela ekki í sér mótsögn inni haldi einungis sannar staðhæfingar.

Þriðja kenningin sem Davidson hafnar er hentistefnan um sannleikann eða gagnhyggjan. Gagnhyggja og hentistefna um sannleikann eru þýðingar á enska orðinu “pragmatism”. Kenningin hefur einnig verið nefnd verkhyggja um sannleikann á íslensku. Verjendur kenningarinnar eru m.a. Charles Sanders Peirce (1839-1914), William James (1842-1910), John Dewey (1859-1952), og Richard Rorty (1931- ). Í grófum dráttum kveður kenningin á um það að sannleikur sé það sem virkar eða gengur upp, það sem kemur að gagni eða kemur sér vel; það sem gott er að hafa að leiðarljósi. Kenningin hefur þann kost að hún tengir sannleikshugtakið skoðunum manna, hugsunum og athöfnun. En því miður, að mati Davidsons, ekki á réttan hátt. Og samkvæmt kenningunni geta ósamrýmanlegar skoðanir verið jafnsannar, þar sem þær geta verið jafngagnlegar. Davidson fellst á að ef til vill geti komið upp aðstæður þar sem skynsamlegt er að segja annað eins til að mynda til að koma í veg fyrir áflog eða eitthvað slíkt; en öðru máli gegnir um að trúa því. Hér eru því samskonar andmæli og við samkvæmnishyggjunni, í nafni almennrar skynsemi.

Að lokum komum við að úrdráttarhyggjunni sem segja má að sé heil fjölskylda af skyldum en þó ólíkum viðhorfum til sannleikans. Ég segi viðhorfum til sannleikans fremur en kenningum um sannleikann því það er sameiginlegt öllum afbrigðunum að hafna öllum skilgreiningum á sannleikanum og kenningum um eðli hans. Meðal afbrigða eru ofaukahyggja og afvitnunarhyggja en sú sem Davidson hefur mestan áhuga á er nefnd naumhyggja og á hún sér öflugan málsvara nú um mundir þar sem er Paul Horwich. Ég mun því einungis segja nokkur orð um naumhyggjuna.(5)

Í naumhyggjunni felst að setningin “snjór er hvítur” sé sönn þá og því aðeins að snjór sé hvítur. Aftur á móti væru það mikil mistök að reyna að segja meira um sannleikann en það; í raun og veru höfum við nú þegar sagt allt sem segja þarf um sannleikann.

Hvað skyldi vera aðfinnsluvert í kenningu Horwich? Davidson játar að hann skilji ekki frumsetningareglu Horwich eða beitingu hennar. Reglan er þessi:

Staðhæfingin að p er sönn ef og aðeins ef p.

Davidson bendir á að sama setningin p komi fyrir tvisvar í hverju tilfelli þessarar reglu Horwich. Samhengið krefst þess að á eftir orðunum “staðhæfingin að” komi einstakt nafn, frumlag fyrir sannleiksumsögnina. Í síðara tilfellinu kemur p aftur á móti fyrir sem venjuleg setning. Og þessa endurtekningu er okkur ókleift að skilja nema við getum nýtt okkur sömu merkingarfræðilegu eiginleika p í bæði skiptin. Davidson kemur ekki auga á hvernig unnt er að gera það.

Auk þess hefur Davidson fræðilegar skuldbindingar sem gera honum ókleift að fallast á það með Horwich að staðhæfingar séu aðal sannberarnir. Horwich verður að geta útskýrt hvernig setningum einstakra mála er eignað sanngildi. Til þess þarf hann að reiða sig á merkingarhugtakið en þó án þess að gera ráð fyrir sannleikshugtakinu. Það er hins vegar ætlun Davidsons að smíða kenningu um merkingu fyrir náttúruleg tungumál á grunni sannleikshugtaksins. Hann getur því ekki fallist á kenningu Horwich.

Nú hefur verið gerð grein fyrir helstu kenningum um sannleikann (eða viðhorfum til hans) í stuttu máli og mótbárum Davidsons við þeim. Hann fellst ekki á neina þessara kenninga. Hvert er þá viðhorf hans til sannleikans?

Davidson hefur upp á síðkastið haldið því fram að það séu mistök að reyna að skilgreina sannleikann. Hann fellst ennfremur á að “snjór er hvítur” sé sönn þá og því aðeins að snjór sé hvítur. Í hverju felst þá munurinn á viðhorfi Davidsons og Horwich? Enn sem komið er má lítinn mun á þeim sjá. En auk andmæla Davidsons gegn Horwich sem rakin voru hér að ofan greinir þá á um mikilvægi sannleikshugtaksins og notagildis þess. Sannleikurinn er að mati Davidsons ósmættanlegt hugtak; hann er grundvallarhugtak sem ekki verður ekki útskýrt með öðrum hugtökum sem eru einhvern veginn meiri grundvallarhugtök. Sannleikurinn er þvert á móti eitthvert mesta grundvallarhugtak sem við búum yfir. Og við vitum meira eða minna hvað það felur í sér: “Snjór er hvítur” er sönn ef snjór er hvítur. En það er ekki fánýtt hugtak eins og Horwich heldur fram – hvað þá að því sé ofaukið eins og Ramsey hélt fram. Öðru nær, með sannleikshugtakið að vopni getum við ef til vill varpað ljósi á merkingu – sem er margfalt meiri ráðgáta. Sannleikskenning à la Tarski er hvorki meira né minna en kenning um merkingu fyrir náttúruleg tungumál. Því sá sem þekkir sannkjör tiltekinnar setningar skilur þá setningu;(6) hann hendur reiður á merkingu hennar ef hann veit undir hvaða kringumstæðum hún væri sönn. Í þessu felst mikilvægi sannleikans.

_________________
Aftanmálsgreinar:
( 1) Yfirleitt eru sannberar (truth bearers) samsvörunarkenninga staðhæfingar (propositions) eða skoðanir (beliefs) frekar en setningar. Sjá þó Marian David, Correspondence & Disquotaion: An Essay on the Nature of Truth (New York: Oxford UP, 1994), þar sem sett er fram og varin samsvörunarkenning um sannleikann með setningum sem sannberum. Bertrand Russell segir í Human Knowledge: Its Scope and Limits (London: Routledge, 2000 (1. útg. 1948)) 127, að það séu fyrst og fremst setningar sem séu sannar eða ósannar, en hann bætir svo við stuttu síðar að setningar hafi allar það sem hann kallar “signification” sem sé það sem varðveitist þegar setningin er þýdd frá einu máli yfir á annað eða við umorðun. Þessi “signification” er í grófum dráttum það sama og “proposition” eða staðhæfing og er á endanum sannberinn frkar en setningar tiltekinna tungumála.
(2) Margir vilja rekja samsvörunarkenningu um sannleikann aftur í fornöld og gefa henni þannig göfugt ættartré. Þannig er fjórða bók Frumspekinnar eftir Aristóteles orðin einhvers konar locus classicus kenningarinnar, en hann segir: Að segja að það sem er sé ekki eða að það sem er ekki sé, er ósatt; en að segja að það sem er sé og það sem er ekki sé ekki, er satt. Svo að sá segir annað hvort satt eða ósatt sem segir eitthvað vera eða vera ekki. Frumspekin (= Metaph.) IV. Vii.1, 1011b26-28. En Aristóteles má túlka á fleiri en eina vegu hér. Í raun segir hann okkur einungis hvernig á að fara með sannleiksumsögnina en ekki hvert eðli sannleikans sé (eða að hann hafi eitthvert eðli). Það sem Aristóteles hefur að segja er því allt eins samrýmanlegt úrdráttarhyggju um sannleikann (nánar um hana hér að neðan). Það sem Platon hefur um sannleikann að segja er aftur á móti nauðalíkt kenningu Russells. Sjá Platon, Fræðarann (= Soph.) 262C o.áfr.
(3) Sumir hafa stungið upp á því að nefna kenningu Alfreds Tarskis um sannleikann samsvörunarkenningu, þ.á m. Davidson sjálfur. Sjá Donald Davidson, “True to the Facts”, Journal of Philosophy, 66 (1969) 748-764, endurprentuð í Donald Davidson, Inquiries Into Truth and Interpretation (Oxford: Oxford UP, 2. útg. 2001 (1. útg. 1984)) 43-54. En í kenningu Tarskis er hvergi vísað til staðreynda eða neinnar frumspeki. Davidson hefur síðan dregið þá tillögu sína tilbaka, enda leikur samsvörun ekkert hlutverk hjá Tarski, heldur er sannleikur skilgreindur á grundvelli merkingar og uppfyllingar (satisfaction) og því í raun réttast að gera greinarmun á henni sem merkingarfræðilegri hugmynd um sannleikann, og öðrum kenningum. Sjá Donald Davidson, “Afterthoughts, 1987”, hjá A. Malichowski (ritstj.), Reading Rorty (Cambridge: Blackwell, 1990), 120-138, endurprentuð í Donald Davidson, Subjective, Intersubjective, Objective (Oxford, Oxford UP, 2001) 154-157. Um hugmynd Tarskis er best að lesa hjá honum sjálfum, sjá Alfred Tarski, “Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar”, Ásta Kristjana Sveinsdóttir og Arnór Hannibalsson (þýð.), hjá Einari Loga Vignissyni og Ólafi Páli Jónssyni (ritstj.), Heimspeki á tuttugustu öld: Safn merkra ritgerða úr heimspeki aldarinnar (Reykjavík: Heimskringla, 1994) 75-109.
(4) Donald Davidson, “The Structure and Content of Truth”, Journal of Philosophy, 87 (6) (1990) 305.
(5) Úrdráttarhyggja er þýðing á “deflationism”, ofaukahyggja á “redundancy theory of truth” og afvitnunarhyggja á “disquotationism” eða “disquotationalism”. Naumhyggja er þýðing á “minimalism”. Meðal málsvara ofaukahyggjunnar má nefna Frank Plumpton Ramsey (1903-1930) og Sir Peter Frederick Strawson (1919- ). Willard van Orman Quine (1908-2000) er þekktasti málsvari afvitnunarhyggjunnar, en oft er alls ekki gerður greinarmunur á ofaukahyggju og afvitnunarhyggju – honum er e.t.v. ofaukið.
(6) Sannkjör er þýðing á “truth conditions” í ensku.
___________________________________