Íbúðirnar sem ég hef búið í [Greinaátak] Íbúðirnar sem ég hef búið í. Ég hef nú ekki búið í það mörgum íbúðum/húsum um ævina, en hér eru þær:

Fyrsta Heimilið
Það var íbúð í Jörfabakka í Breiðholtinu, bjuggum ekkert svo lengi þarna eftir að ég fæddist. Veit bara að þetta var lítil íbúð.

Heimili númer 2
Úr Jörfabakkanum flutti ég í Dalselið í Seljahverfinu. 2 svefnherbergi svo ég fékk strax mitt eigið herbergi. Þarna var frábært að búa, hellingur af krökkum sem ég kynntist sem bjuggu þarna í kring. En þar sem að mamma og pabbi vildu eiga fleiri börn en bara mig þá fluttum við stuttu eftir að systir mín fæddist.

Heimili númer 3
Þegar ég var eins og hálfsárs þá fluttumst við fjölskyldan (þá var það bara ég, mamma og pabbi) til Spánar, nánar tiltekið til Alicante. Þar var lífið fínt, en eftir nokkra mánuði fengum við heimþrá og ákváðum að fara bara heim. Áttum ennþá íbúðina í Dalselinu og fluttum bara aftur í hana eins og sjá má hér að ofan.

Heimili númer 4
Ójá, þetta er ekki ennþá búið. Núverandi heimili mitt núna er í Hálsaselinu í Seljahverfinu. Ágætis raðhús, 5 svefnherbergi og á tveimur hæðum. En meira um það á eftir, þar sem ég hef búið á einum stað í viðbót.

Heimili númer 5
Þegar ég var 9 ára þá fluttumst við í hálft ár til ömmu minnar og afa á Hellu vegna veikinda afa míns. Húsið sem þau bjuggu í var risastórt einbýlishús við ánna sem rennur þarna meðfram. Ég elska þetta hús ennþá og þekki núverandi eigendur. Við seldum ekki húsið okkar á meðan við bjuggum á Hellu og það beið okkar þegar við fórum loks aftur í bæinn þegar afi minn var dáinn.

Aftur heimili 4
Ég bý semsagt í Hálsaselinu í ósköp venjulegu raðhúsi. Nóg pláss fyrir alla, meira að segja hundinn. Húsið var byggt í kringum árið 1978 og er ennþá í góðu ástandi. Elska að búa í þessu húsi, stutt í skólann, og strætóskýli ef ég skyldi vilja fara í langferðalag um Reykjavík og nágrenni og bara stutt í allt sem ég þarfnast.

Þetta er svona vel flókið yfirlit yfir þær íbúðir sem ég hef búið í. Húsið sem er meðfylgjandi á mynd er hús neðar í götunni minni. Mitt er mjög svipað :)