Ó, þetta þjála nafn.

Kapítuli 1
- æskuárin á Patreksfirði
Þegar ég var lítil hnáta, bjó ég i bæ einum er nefnist Patreksfjörður. Á þeim tíma var þetta um 1000 manna bær, við sjóinn. Húsið mitt var með ölduniðinn í garðinum, en lóðin endaði einmitt við hafið. Þess vegna urðu allar rúður á húsinu hvítar af salti þegar það var mikið rok.
Ég átti þar mitt eigið herbergi, með ljósrofa við rimlarúmið. Það var ógeðslega töff. Svo voru rólur í garðinum, og þvottasnúra. Ég man nú ekkert voðalega mikið meira.

Kapítuli 2
-Mánuðirnir í Breiðholtinu

Er föður mínum bauðst vinna á mölinni var för okkar heitið þangað. Við vorum ekki búin að finna okkur eigið hús, þannig að við cröshuðum hjá ömmu í Breiðholti. Þar vorum við í nokkra mánuði; ég, Mamma, Pabbi og Amma. Það var voðalega fínt, því það var róló rétt hjá.

Kapítuli 3
- Austurbær: partur 1

Loksins fundum við hús. Frænka mín átti, af einhverjum ástæðum, hús sem við gátum fengið tímabundið. Ég giska á að við höfum búið þar í sirka ár, þetta skiptið. Þetta er voðalega sætt hús, á 3 hæðum. Við vorum á topphæðinni, og ég átti geðveikt herbergi sem var málað bleikt og fjólublátt með blóma-veggfóðri í miðjunni. Újeah.

Kapítuli 4
- Vesturbær: partur 1

Frændi minn átti einbýlishús í Vesturbænum, sem var ekki í notkun. Þetta hús á ágæta sögu innan fjölskyldunnar, en langamma mín átti heima þar þegar pabbi var krakki, og var hann alltaf í heimsókn þar. Amma mín bjó þar einnig, þegar hún var barn, og gekk í einhvern voðalega skuggalegan skóla þar. Það kemur mér ekkert á óvart.
Ég semsagt bjó þar í í eitt og hálft ár, eða þangað til ég var 5 ára og byrjaði í skóla. Þarna eignaðist ég geðveikt góðar vinkonur, en ég er því miður ekki í sambandi við þær lengur.

Kapítuli 5
- Austubær: Partur 2

Þá lá leið okkar aftur í hús frænku minnar, en hún flutti til Svíþjóðar í nokkur ár. Þarna bjuggum við alveg massa lengi, og alltaf bjuggu krakkar í húsinu. Okay, massa lengi = sirka 3 ár. En þetta virtist langur tími. Þetta tímabil einkennist af Lion King og bókalestri.

Kapítuli 6
- Austurbær: Partur 3

Þegar yngri systir mín fæddist kom það fljótlega í ljós að þessi íbúð var ekki alveg að gera sig fyrir litlu fjölskylduna, svo ákveðið var að stækka við sig. Takið eftir að þegar hér er komið við sögu höfðum við búið tvisvar í sama húsinu, en ákveðið var að flytja við sömu götu. Áhugavert.
Við keyptum okkar eigin íbúð núna, sem var ekkert voðalega spes. En þar sem foreldrar mínir eru svo magnaðir, gerðu þau hana upp og gerðu hana voða fína. Þegar það kom að því að flytja aftur, 8 árum seinna, fengum við sirka 10.000.000kr meira fyrir hana heldur en við keyptum hana á. Ekki slæmt! Þarna átti ég risastórt herbergi, sem alltaf var drasl í. Ekkert voðalega góð nýting, en hey, mér var svosem sama.

Kapítuli 7
- Austurbær: Partur 4

Enn og aftur var komið að því að stækka við sig. Sem betur fer ekki vegna barneigna, ég kenni græjudellu föður míns um. Þessi sjónvörp eru orðin stærri en þau voru þegar við keyptum íbúðina fyrst.
Þar sem við vorum orðnar svo miklar Austurbæjarrottur, var ákveðið að flytja í næstu götu. Það var massíft, því vinur minn býr í næsta húsi, og ef vilji er fyrir hendi er hægt að tala saman útum gluggana. Ekki slæmt.
Þetta var semsagt temmilega stór íbúð, í fínu standi. Samt sem áður eru þau alltaf eitthvað að gera við, má kalla þau fullkomnunarsinna.
Þarna bjó ég í 2 ár eða svo.

Kapítulinn sem er ekki alvöru kapítuli númer 8
-Vesturbær: Partur sem er ekki partur númer 2

Í nokkra mánuði var ég einungis heima hjá kærasta mínum og pabba hans. Þetta er ekki alvöru kapítuli, og ekki alvöru partur, af því að ég átti ekkert lögheimili þarna, og ég er ekki viss um að fólk hafi tekið eftir því að ég var aldrei heima hjá mér. Né að dótið mitt var þarna.

Kapítuli 9
- Austurbær: Partur 5

Nújæja, svo virðist sem ég geti ekki slitið mig frá Austurbænum. En svona er þetta, yndislegt hverfi.
Það kom loksins að því að ég fór að búa. Enda orðin 18 ára, og ekki seinna vænna. Við höfðum leitað vel og lengi að íbúð til leigu, en þær voru allar svo skrambi dýrar. Eða vantaði grundvallarhluti - ja eins og til dæmis eldhús.
En þá kom lausn! Galdralausn.
Bróðir kærasta minns flutti úr íbúð sem hann hafði leigt frá ömmu þeirra, og við fluttum inn. Yndislegt! Þetta er sirka 50m2, í blokk. Voða friðsæl blokk, enda eru allir aðrir íbúar hennar heyrnarlausir eða nær því, og eru ekkert að reyna að tala við alla. Okay kannski aðeins ýkt, en þetta er allaveganna mjög friðsælt. Þarna búum við hjúin með hamstrinum okkar, og við lifum hamingjusöm til æfiloka. Amen. Og ef einhver hefur lesið þetta í gegn á viðkomandi skilið köku!

Kind, þú ert næst!