Ég er að leigja stúdíóíbúð með vinkonu minni á heimavist. Þetta er annað árið sem við búum hérna, og okkur líka bara þónokkuð vel.

Einn veggurinn er að mestu leyti bara gluggar, sumir ná alla leið niður á gólf, en annarsstaðar eru veggir með ofnum fyrir neðan gluggana. Þar sem þessir gluggar snúa að einni helstu umferðargötunni í bænum höfum við alltaf lokuð rimlagluggatjöldin, svo vegfarendur geti ekki horft á okkur sofandi og þess háttar skemmtilegheit.

Þegar maður gengur inn í íbúðina er skápasamstæða til hægri, u.þ.b. 3 metra löng. Skápurinn í miðjunni er stærstur, í honum er svona drasl fyrir herðatré og svoleiðis sem við notum aldrei. Við notum hann bara til að henda dótinu í sem við vitum ekki hvar við eigum að geyma. Í skápunum lengst til hliðanna eru svo hillur, og við notum þá undir fötin okkar.

Baðherbergið
Á móti skápunum er svo baðherbergið. Á móti dyrunum þar er stór spegill sem ég spegla mig oft í. Undir speglinum er hilla, og þar geymi ég svo mikið af drasli að það hrynur reglulega niður. Undir hillunni er svo pínulítill vaskur, og við hliðiná honum er konungur herbergisins, sjálft salernið. Lengst til vinstri er svo frekar stór sturta sem kemur fáránlega lítið vatn úr. Mig langar í baðkar. Við eigum engan kústaskáp, svo sópurinn, skúringadótið og það er bara geymt útí horni í baðherberginu.

Eldhúsið
Í einu horninu á íbúðinni er svo eldhúskrókur. Þar er ofn með eldavél, ísskápur og eldhússkápar. Ég nenni ekki oft að elda, og ísskápurinn er líka oftast tómur, nema það eru yfirleitt nokkur epli og bjórar í honum. Í eldhússkápunum er oftast til brauð, kúskús og fleira þess háttar. Þar höfum við líka “allt” leirtauið okkar, sem samanstendur af tveimur settum af diskum, skálum og hnífapörum, og svo fjórum glösum og fullt af teskeiðum. Við eigum líka einn pott sem við sjóðum núðlur í.
Uppáhalds eldhúsáhaldið mitt er samt flottur gamaldags útlítandi vatnsketill og í honum hita ég vatn í te og kúskús.

Svefnherbergið
Hið svokallaða svefnherbergi er eitt hornið á íbúðinni, sem er afgirt með viðarþili. Þar eru tvö rúm og sjónvarp. Ég held ég eyði langmestum tíma dagsins í rúminu mínu fyrir framan sjónvarpið, með fartölvuna í fanginu.
Hinum megin við þilið er svo eitt rúm í viðbót þar sem ég hendi öllu draslinu mínu afþví ég nenni ekki að setja það ár réttan stað. Það er yfirfullt af peysum, jökkum, prjónadóti og skólabókum. Stundum sefur fólk þar líka. Rúmgrindin er úr einhverjum virkilega hörðum við, svo við slösum okkur reglulega með því að ganga á hornin í myrkri. Það er aldeilis skemmtilegt.

Stofan
Þá er stórt rými eftir sem mætti líklegast kalla stofu eða eitthvað í þá áttina. Þar er rafmagnspíanó og gítarmagnari við einn vegginn sem taka nokkuð stórt pláss, og svo tvö skrifborð undir gluggunum. Þessi skrifborð eru yfirleitt full af bókum eða tölvurnar okkur eru á þeim, auk þess sem ég er með prentara á mínu. Annars er fátt í þessu rými, nema þá bara þetta fína dansgólf.

Í rauninni er ég alveg þónokkuð ánægð með þessa íbúð, þótt það þurfi að gera hana upp, það eru einhverjar rakaskemmdir í gluggakörmunum og þess háttar sem þyrfti að laga. Ég er skíthrædd um að viðarþilið hrynji ofaná mig eina nóttina, það virðist vera frekar ótraust. Ég væri líka til í að láta breyta einum af stóru gluggunum í svalahurð, og hafa pall þar og sérútgang. Útsýnið héðan er líka fínt svosem, sést yfir skólasvæðið og inn fjörðinn, auk þess sem það rennur á rétt fyrir neðan einn gluggann svo það heyrist alltaf ljúfur vatnsniður.

Það versta er að ég er svo löt að taka til, svo þið fáið ekki að sjá myndir í þetta skiptið.