Fyrir nokkrum vikum flutti ég í litla sæta íbúð með kærastanum mínum. Íbúðin er ca 50m2 í blokk, í hverfinu sem ég meira og minna ólst upp í.

Áður en við fluttum höfðum við ákveðið að mála allt fljótlega eftir að við flyttum inn, en eftir að skoða hlutina betur höfum við ákveðið að takmarka það.
Þetta var upprunalega stúdíóíbúð, en núna er búið að loka svefnherberginu með rennihurð.
Stofan er stærsti partur íbúðarinnar. Þar er stór gluggi þar sem sólsetrið sést fullkomnlega, og svalir í sömu átt. Allir veggir eru hvítir, nema einn sem er drapp/brúnlitaður. Okkur finnst það passa voða vel, þannig að við ætlum ekkert að mála stofuna, allavegana ekki strax.
Í stofunni erum við með sófasett (2-sæta sófa og tveir sófastólar), gler stofuborð, gler borðstofuborð með stál-fótum, og stólum í stíl, skrifborð með tölvu og öllu tilheyrandi, svarta hillu með sjónvarpi, græjum og þar geymum við fartölvurnar, og þrjár bókahillur. Þetta hljómar kannski mikið, en þetta passar alveg mjög vel inn. Gítararnir fá síðan að flakka um stofuna, enda eru þeir í mikilli notkun þessa dagana!

Svefnherbergið er mjög lítið, og þar sem við erum með mjög stórt rúm er varla pláss fyrir annað. Samt sem áður er fataskápur og kommóða sem fylgdu með.

Eldhúsið er ekkert til að hrópa húrra fyrir, að mínu mati. Það er lítill ísskápur og lítil eldavél (sem er samt mjöög sæt!!). Innréttingin er gömul, fyrir utan tvo efriskápa sem eru nýlegir. Við ætlum fljótlega að mála eldhúsið og kaupa gardínur. Útsýnið úr eldhúsglugganum er ekkert spes, og ein hugmynd er að kaupa litríkar gardýnur og lýsa svo upp eldhúsið með skemmtilegum lampa, auk loftljóssins.

Baðherbergið er voða sætt finnst mér. Það er lítil hornsturta, klósett, vaskur, hilla, skápur með spegli framaná og óhreinatau-karfa. Fljótlega ætlum við að kaupa litlar hillur / lítinn skáp til að láta standa á baðherberginu, til að geyma handklæði og þess háttar í.

Geymslan er ágætlega stór, en í augnablikinu er hún full af dóti sem bróðir kærasta míns á, en hann bjó hérna á undan okkur. Þar er gott hillupláss, auk þess sem flöturinn er stærri en margar geymslur sem ég hef séð.


Þetta er litla íbúðin okkar í hnotskurn :)