Ég á tvö herbergi, í jafn mörgum húsum. Eitt á ég heima hjá foreldrum mínum, annað á ég heima hjá mér. Ég ætla að skrifa um það sem er heima.

Við erum tvö sem deilum því, ásamt dverghömstrunum okkar, þeim Rómeó og Júlíu.

Við erum með stórt stórt hjónarúm, sem tekur meirihlutann af herberginu. Ég elska þetta rúm útaf lífinu! Mín sæng er í augnablikinu í bangsímon sængurveri, en kærastinn minn er með eitthvað leiðinlegt fullorðins-sængurver. Ég elska sængurverið mitt!

Svo er tölvuborð. Kærastinn minn fékk það frá frænda sínum. Þetta er frekar gamalt borð held ég, allavegana er það ekki mjög vel farið. Þar er borðtölvan okkar, með flatskjá. Fyrir ofan skúffurnar er smá pláss, þar sem við geymum eina fartölvuna. Hinar tvær eru undir skúffunum. Einnig er borðið troðfullt af drasli, alls konar blöðum, bæklingum. Einnig geymum við þar nokkur kerti, og svo er appelsínugul rós í vasa sem ég gaf honum á útskriftardaginn.

Við hliðina á tölvuborðinu er hilla sem kærastinn minn smíðaði. Þar geymum við bækur, en svo breiðir hillan úr sér og fer yfir tölvuborðið. Frekar erfitt að útskýra. Þar geymum við alls konar smámuni.

Í horninu á herberginu eru hillur sem voru keyptar í Ikea, en þær ná alveg frá gólfi upp í loft. Þar er ekkert voðalega mikil regla á hlutunum þarna, nema í hillunni þar sem við geymum skólabækur.

Það er svo fataskápur í herberginu. Ég veit því miður ekki hvar hann var keyptur, en meirihlutinn af húsgögnunum okkar fékk hann áður en við kynntumst. Mín húsgögn eru ennþá hjá foreldrum mínum. Þessi skápur er ekki mikið notaður, aðallega fyrir föt sem þurfa að hanga, eins og skyrtur og þess háttar.
Svo er hilla við hliðiná fataskápnum. Að neðan er lítill skápur, með þremur hillum. Þar geymum við megnið af fötunum okkar. Fyrir ofan það er sjónvarpið, dvd og video tæki, en fyrir ofan það eru 2 hillur. Þar eru dvd myndir og tölvuleikir, og svo alls konar minjagripir og þess háttar.

Svo erum við með náttborð. Þar er vekjaraklukka og mistmaker.

Í litlu horni geymum við svo hamstrabúrið, og þar við hliðiná er maturinn þeirra, vítamínin og allt sem þeim fylgir.

Veggirnir á herberginu eru bláir og hvítir. Þeir voru málaðir þannig að það lítur út eins og ský. Mjög töff! Ég get tekið myndir af því þegar ég hef tíma og sent inn. Einn veggurinn er viðarpanill, og þar hengur stórt sverð, gaddakúlur á kylfu, hjálmur, afrísk frumbyggja-kylfa, skjöldur og rýtingur. Gólfið er grænn dúkur.

Oftast er frekar mikið drasl í herberginu, en það er vegna þess að það er bara ekki pláss fyir okkur bæði og allt okkar dót í því. Við erum að fara að bæta úr því, og ætlum að finna okkur íbúð til að leigja. Það versta við þetta herbergi finnst mér að það er ekki pláss fyrir hljóðfærin mín.

Ég mun pottþétt skrifa grein þegar við fáum íbúð útaf fyrir okkur!