Ég ákvað að skrifa niður nokkur ráð fyrir þá sem berjast við þungt loft. Þetta er beint til þeirra sem hafa herbergi til umráða, þetta miðast semsagt ekki við heila íbúð.


Ef það er oft þungt loft í herberginu, er augljóslega gott ráð að opna gluggann. Einnig er gott að opna líka fram til að fá smá trekk. Það er samt ekki ráðlegt sé lyktin það megn að það sé öðrum íbúum íbúðarinnar til ama.

Þá er gott að kíkja undir rúm, innst inn í skápa og öll horn, og athuga hvort þar leynist skítugir sokkar, nærbuxur eða matarleyfar. Ef þess háttar hlutum er leyft að grassera í sínum hornum getur það valdið sterkri, illri lykt, sem er alls ekki sniðugt. Svo er líka nauðsynlegt að tæma ruslafötuna reglulega, sérstaklega ef hún er notuð fyrir annað en bara pappírsdrasl.
Einnig ef þú ert með þína eigin körfu fyrir óhrein föt inni hjá þér, að tæma hana reglulega. Helst að tæma hana í þvottavélina, auðvitað!

Það þarf að skipta um rúmföt reglulega. Þó það sjáist ekkert endilega á þeim að þau séu skítug, þá getur vel verið að það sé sviti, dauð húð og þess háttar ógeð í þeim. Góð regla er að skipta um á rúminu á 1-2 vikna fresti, og helst að viðra sængina og koddann við það tækifæri.

Ef þú ert með einhver gæludýr í herberginu, er mikilvægt að þrífa eftir þau. Ég er sjálf með tvo hamstra inni hjá okkur, en ef búrið er ekki þvegið reglulega kemur bæði vond lykt af því, og svo er það auðvitað slæmt fyrir greyið dýrin. Ef hundurinn, kötturinn eða hvaða dýr sem þú mögulega átt, er mikið inni hjá þér, er mikilvægt að þrífa upp öll hár sem mögulega gætu legið út um allt upp. Svo er sterk lykt af mörgum dýrum (t.d hundum), sem gott er að reyna að losa sig við til að fá ferskara loft í herberginu.


Þegar búið er að taka til, opna gluggann, tæma ruslið, dusta af, þú veist, allt þetta venjulega, er gott ráð að fá sér einhverskonar olíur eða ilmkerti, með þægilegri lykt. Passa þarf að lyktin sé ekki of sterk, það getur verið óþægilegt til lengri tima litið. Hægt er að fá margs konar olíur í Body shop, til dæmis. Ilmkerti fást út um allt, til dæmis í Rúmfatalagernum. Svo eru auðvitað reykelsi, en ég persónulega hef aldrei verið mikið fyrir þau.


Mundu, þetta er herbergið sem þú sefur í. Þú vilt ekki vera að anda að þér einhverjum óþverra alla nóttina. Svo sefur maður einfaldlega miklu betur í hreinu og léttu lofti!

Vona að þetta hjálpi eitthvað :)