Hvað finnst ykkur mikilvægast í sambandi við að heimilið ykkar? Ef þið eruð ekki farin að búa sjálf, hvað haldið þið þá að muni verða mikilvægast?

Mér finnst mikilvægast að heimilið sé þannig að þegar ég labba inn úr dyrunum, að líði mér eins og ég sé komin HEIM.
Sú tilfinning kemur aldrei hjá mér fyrr en að ég er búin að búa á þeim stað í amk. 3-4 mánuði.
Ég vil hafa hlýlegt heima hjá mér, ég er hrifin af dökkum litum og stórum mubblum þó að ég eigi nú ekki mikið af þeim enn sem komið er.
Þó að ég sé nú ekki fanatísk í þrifamálum þá vil ég ekki hafa drullugt heima hjá mér, ég er með 3 ung börn sem veltast mikið um á gólfinu og þessvegna vil ég að gólfin séu hrein (ég er með hund og kött = mikið af hárum), en drasl fer hinsvegar ekkert rosalega mikið í taugarnar á mér nema það séu að koma gestir. Ég er að reyna að venja mig af þeim leiðinlega ávana að fara eins og þeytispjald um allt hús ef ég veit að ég á von á gestum .. fólkið er að koma að heimsækja mig, ekki skoða hvort allt sé í röð og reglu.

Í heildina litið finnst mér mikilvægast að mér líði vel heima hjá mér, og að heimilið sé mér sem griðastaður í erli lífsins (ljóðrænt sko .. hehe), ég vil ekki heimili sem lítur út eins og safn eða eitthvað klippt út úr Hús og Híbýli, ég vil að það sjáist að það sé búið heima hjá mér.

Ég hefði þó ekkert á móti því að eiga rosa fín og falleg húsgögn .. ég fæ mér þau þegar börnin eldast og eru hætt að leika sér að því að hoppa og ærslast í sófunum þegar þau halda að við foreldrarnir sjáum ekki til.

Svona í lokin er eitt máltæki sem ég heyrði, og mér finnst að allir foreldrar ættu að hafa það í huga.

“Að taka til á meðan börnin búa ennþá heima er eins og að moka stéttina í blindbyl .. tilgangslaust”

Bestu kveðjur, Zaluki
———————————————–