Sælir Hugarar

Mig langar að skrifa grein um heimilið mitt, eða réttara sagt vonir mínar um að eignast alvöru íbúð.
Núna eins og er bý ég í litlu sjávarplássi úti á landi og er í leiguíbúð sem er vægast sagt alveg hræðilega innréttuð, enda ekki nema von þar sem ekkert hefur verið gert í henni frá því að hún var byggð 1970.
Allir gluggar eru meira eða minna fúnir, heita vatnið er olíukynt, eldhúsinnréttingin er úr plasti með rennihurðum!
Það er mikið og þykkt teppi á gólfinu sem er paradís fyrir alla rykmaurana sem lifa góðu lífi í því. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum, þannig að ég læt mig dreyma um að komast í mína eigin íbúð.
Ég hef verið að skoða íbúðir á netinu í gríð og erg, gallinn er bara sá að íbúðin má ekki kosta meira en 8,5 millj. þar sem ég er einstæð móðir og á engan pening til að leggja upp í útborgunina, þannig að ég verð að taka 100% lán.
Það eru ekki margar 3ja herbergja íbúðir í boði á þessu verði, nema þá helst inni á Akureyri, og er ég mikið búin að vera að skoða íbúðir þar og líst vel á nokkrar.
Hef ekkert nema gott heyrt um það að búa á Akureyri, nema þá helst að erfitt geti orðið að fá góða vinnu.

Gaman væri að heyra um hvort fleiri séu í sömu eða svipaðri stöðu og ég, og hvað hafið þið gert í málunum?