Frá því að ég fór að búa fyrir þremur árum hef ég þróað hjá mér djúpt vantraust og kaldhæðnislegt viðhorf gagnvart iðanðarmönnum. Fram að þeim tíma hafði ég aldrei tekið þátt í umræðum um iðnaðarmenn, kosti þeirra og galla en núna…ja, núna er sagan önnur.

Fyrir um ári síðan datt okkur í hug að fá okkur að fá okkur uppþvottavél. Þar sem leiðslurnar í eldhúsinu eru ekki á þeim stað sem gert var ráð fyrir í teikningum að húsinu heldur voru þær fluttar í annan vegg (keytum íbúðina þannig) vorum við ekki viss hvernig gengi að tengja uppþvottavél fyrir hliðina á vaskinum. Vildum fá pípara til að kíkja á þetta og koma svo aftur og ganga frá vélinni.
Við þekkjum bara til eins pípara og þrátt fyrir að það hafi tekið 3 vikur að fá hann þá til að tengja blöndunartæki, hringdum við í hann. Eftir að hafa hringt endurtekið í hann í 3 vikur og sífellt fengið loforð um að hann væri að koma, kæmi á morgun, hafa samband á mánudag, kæmi eftir helgi, gáfumst við upp og engin uppþvottavél var keypt.

Fyrir um 2 árum uppgötvaðist að gömul sprunga hafði tekið sig upp aftur í svölum og það lak inn til okkar og fólksins fyrir neðan. Ég hafði samband við fyrirtæki sem sérhæfir sig í múrviðgerðum og hafist var handa. Tveir menn voru að vinna í þessu, með verkstjóra sem leit við öðru hvoru. Þeir voru aldrei komnir þegar við fórum í vinnuna kl 9 og alltaf farnir þegar við komum heim milli 5 og 6. Þeir voru þarna í 6 vinnudaga og við sáum aldrei til þeirra.
Ég hringdi ítrekað í fyrirtækið til að pína upp úr þeim tölu. Hvað þetta myndi nú allt kosta, það þurfti jú að borga mönnunum, borga efni, borga vinnupalla..Eftir mikið jamm og japl píndi ég út töluna 300-400 þúsund. Dóttir hjónanna fyrir neðan tókst að króa verkstjórann af einn daginn og hann lét að lokum undan og sagði uþb 500 þúsund.
Eftir að viðgerð var lokið datt lítið sakleysislegt umslag inn um lúguna hjá mér. Ég opna umslagið og tek út reikning.
952.000 kr. Ég öskraði.
Sem betur fer deildist þetta á 3 íbúðir hússins! Verkstjórinn og eigandi fyrirt. fór til útlanda og var erlendis í mánuð og hann einn gat rætt um reikninginn. Fékk samt engan frest og við neyddumst til að borga.

Bílskúrinn okkar lak og gólfið er skakkt þar sem þetta stóð einu sinni í mýri. Datt í hug að láta gera hann alveg upp, allt myglaði sem var geymt þarna inni. Komumst í samband við trésmíðameistara hér í bæ í fyrrahaust og sagðist geta gert þetta allt saman um áramótin síðustu. Eftir nokkrar hringingar um áramótin kom hann í lok janúar og gerði við þakið ásamt öðrum. Sagði að gólfið og veggina myndi hann vinna síðar, ásamt pípara (viljum fá vatn lagt þar inn) og aðstoðarmanni. Núna, haustinu á eftir er ekki búið að gera við þetta. Þar sem maðurinn tengist okkur í gegnum kunningja ætlaði hann að hjálpa okkur að fá efni á kostnaðarverði og því höfum við ekki leitað annað. Þar fer nú samt að breytast því karlinn ætlar mögulega, kannski að að hafa samband í lok sumars.

Ég spyr, er skyldukúrs í Iðnskólanum sem heitir:Hvernig á að ljúga að viðskiptavininum og milljón og fimm afsakanir?
Hvernig geta þessir menn leyft sér þetta framkomu? Er nokkur önnur starfstétt sem er svona?

Ég hef misst allt álit á iðnaðarmönnum, nánast allir sem ég hef komist í kynni við hafa verið þorparar upp til hópa.

Ég heyrði eitt sinn af smið sem ferðaðist um með fartölvu og allt stóð eins og stafur á bók hjá honum. Því miður er hann farinn út í annað núna. Hefur eflaust verið hrakinn úr stéttinni af vinnufélögunum, það gengur auðvitað ekki að koma þegar lofað er og að allar tölur standist! Þvílíkt hneyksli!

Ég auglýsi einnig eftir áreiðanlegum iðanðarmönnum, ef einhver hér skyldi þekkja til þeirra fágætu manna. Vantar pípara og smið.

Og já. Þetta er skrifað í bitrum tón ;)