Íbúð standsett Ég er búin að vera á fullu núna að standsetja íbúð sem ég var að flytja í, og langaði að segja stuttlega frá því ævintýri.
Þetta er rúmlega 130 fermetra raðhús, á tveimur hæðum, 3 svefnherbergi, geymsla/tölvuherbergi, eldhús, borðstofa og baðherbergi og gestaklósett.

Íbúðin var orðin nokkuð illa farin, greinilegt að húsið lekur í miklum rigningum, og því var málningin skemmd hér og þar og komnar smá sprungur í veggina.

Eldhúsið: Lítil eldhús, en ágætlega útfært þannig lagað, stór gluggi við endann á því sem “stækkar” það mikið.
Á veggnum undir efri skápunum, og yfir eldavélinni var hræðilega ljótt og rifið veggfóður.
Þar sem að við ætluðum ekki að eyða miklu í framkvæmdir, þá ákváðum við að líka vel niður þetta sem hafði rifnað af, og grunnuðum svo yfir, tvær umferðir.
Svo máluðum við 2 umferðir yfir þetta veggfóður að því loknu með dökkblárri málningu, og útkoman kom okkur á óvart.
Munstrið í veggfóðrinu kom vel í gegn, þannig að þetta gefur skemmtilegann svip, og blái liturinn passar vel við hlýja gráa litinn sem við völdum á restina af eldhúsinu.
Þar með var eldhúsið bara orðið hið ágætasta og við snérum okkur að næsta verkefni.

Stofa og borðstofa: Það var frekar mikið mál að koma þessu í gott stand, tók mig 3 daga, og ég vann í þessu frá 10-11 á morgnana fram til 1 á nóttunni.
Það hafði lekið mikið í horninu í borðstofunni, og komin djúp og ljót sprunga í vegginn þar, þannig að ég þurfti að byrja á því að skrapa málninguna af veggnum, til að sjá hvað þetta var mikið skemmt.
Sem betur fer var hægt að laga þetta með spartli, þannig að ég fór og keypti stóra dollu af hraðspartli og klíndi í sprunguna, það tók smátíma, en maður var að reyna að vanda sig svo að þetta myndi nú líta vel út.
Svo pússaði ég yfir, og grunnaði yfir svæðið sem var spartlað, og málaði svo borðstofuna í sama gráa lit og eldhúsið, bara lægra gljástig.
Stofuna sjálfa þurfti bara að mála og fylla upp í holur eftir nagla, sem voru þónokkuð margar, greinilega naglaótt fólk sem bjó hérna á undan okkur.
Stofuna máluðum við svo dökkrauða ( 2 veggi) sem kemur vel út því grái liturinn í borðstofunni og stóri stofuglugginn sjá til þess að þetta sé ekki of yfirþyrmandi.
Svo keyptum við bastrúllugardínur í IKEA og hentum þeim upp, tróðum innbúinu inn og þetta er bara orðið ansi fínt þó ég segi sjálf frá.
Það hjálpar líka að það er nýlegt parket á stofugólfinu, veit samt ekki hvað það verður nýlegt lengi. (er með 3 ung börn)

Gestabaðherbergi: Þar inni er sturta í horninu, greinilega ekki verið notuð lengi, því blöndunartækin voru svo asnalega sett upp, það bunaði beint út á gólf og á vegginn, þó að það væri tjald fyrir. Það voru svona “föst” sturtutæki þarna, ekki laus haus með snúru,heldur bara rör með pínulitlum sturtuhaus.
Við rifum þau blöndunartæki niður, og fengum önnur í staðinn, og sturtutæki með snúru bara, og festum þau á annan vegg í sturtunni.
Svo festum við upp betra hengi fyrir sturtutjöldin, og máluðum sturtubotninn með skipalakki. Og núna er þetta orðin allra fínasta sturtuaðstaða.
Við eigum svo eftir að mála þarna inni .. gerum það með tíð og tíma bara.

Baðherbergið uppi: Þarna þurfti svo sannarlega að taka til hendinni.
Þar sem að sturtan niðri var hálf ónothæf, þá hafði sturtutækjum verið hent upp á vegginn þarna fyrir ofan baðkarið, og greinilega alltaf farið í sturtu þarna uppi.
En kíttið sem var meðfram baðkarinu var löngu morknað upp og farið, þannig að allt vatnið lak meðfram baðkarinu og niður á næstu hæð, og kom út í þvottahúsinu niðri, þar sem að er RISA gat í loftinu eftir þetta sull.
Þetta gat allstaðar meðfram baðinu var of stórt til að kítta, þannig að við keyptum hraðsteypu og steyptum upp í gatið og pússuðum þetta svo til.
Svo erum við að fara að mála baðherbergið og reyna að útbúa hillu eða eitthvað þarna inni, því það er bara svona “amerískur” lyfjaskápur með spegli þarna inni, sem er engan veginn nóg. Það vantar alveg hillu undir handklæði, krem og sápur og þessháttar dóterí. (Allar ódýrar hugmyndir vel þegnar)

Svefnherbergin: Þau voru í fínu standi, en þurftu sárlega á málningu að halda, þannig að hjónaherbergið var málað í bláum lit, stelpuherbergið er apríkósugult og strákaherbergið er hvítt. Reyndar þarf að mála stelpurherbergið aftur þar sem að sonurinn tók smá lista kast með vaxlit þar inni. (hvernig nær maður vaxlit af gólfdúk?)

Núna erum við aðallega að njóta góða veðursins, og lítið að bæta heimilið að innan, en erum þess í staðinn að laga til garðinn.
Hreinsa beðin, sem hafa verið í órækt í fleiri ár, og hreinsa upp arfa á milli hellnana sem eru í garðinu og fyrir framan húsið.

Húsið lítur hörmulega illa út að utanverðu, allar rennur hafa fyrir löngu ryðgað burt, og skilið eftir sig rústrauð för á hvítu húsinu.
Vonandi verður þetta málað að utan í sumar .

Svona þegar ég tel þetta upp, þá lítur þetta ekki út fyrir að vera mikið verk, en nógu mikið var þetta samt.
Það er samt rosalega gaman að gera svona upp, maður lærir mikið, og svo er þetta fínasta hreyfing.

Ég segi kannski meira frá þegar við gerum meira hérna, ef það er einhver hljómgrunnur fyrir annari grein um þessar framkvæmdir mínar.
———————————————–