Smávegis fróðleikur um bolludag, sprengidag og öskudag.

Bolludagur er mánudagur á tímabilinu 2. febrúar og 8. mars, þ.e 7 vikur fyrir páska. Langafasta byrjar á miðvikudegi og algengt var að menn borðuðu ekki kjöt síðustu tvo dagana fyrir lönguföstu til þess að venja sig að léttu mataræði. Í þjóðveldislögum var það meira að segja bannað að borða kjöt þessa síðustu tvo daga fyrir föstuna. Bolluát og flengingar bárust til Íslands seint á 19. öld. Siðurinn að vekja fólk með flengingu er kominn hingað til lands frá Danmörku. Hann á sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. En vöndurinn minnir líka á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni á söfnuði í föstubyrjun. Flengingar og bolluát bárust til Íslands á 19. öld og virðast danskir og norskir bakarar hafa átt hlut að máli. Bolludagur er hins vegar talið vera íslenskt heiti á deginum.


Sprengidagur er þriðjudagur í 7. viku fyrir páska. (3. febrúar til 6. mars). Á sprengidag var frá kaþólskum sið borðað mikið kjöt enda var þetta síðasta tækifæri að borða kjöt fyrir lönguföstu. Þá var venjan að borða hangikjöt, saltkjöt eða annan undirstöðuríkan mat sem til var á bænum. Mönnum ber ekki saman um hvaðan heitið á deginum kemur.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá fólki sem var að borða mikla kjötmáltíð og segir húsmóðirinn eftir að búið var að borða: “Guði sé lof, mett er ég og mínir” Dóttir húsmóðurinnar hugsaði með sér að mamma hennar hefði örugglega fengið meira að borða en hún segir: “Springi sá sem fyllstur er!” Þá kom í ljós hver hafði borðað mest því stelpan sprakk sjálf. Sagan segir að eftir það hafi dagurinn verið kallaður sprengidagur.

Það var ekki nóg með að ekki mátti bragða kjöt alla föstuna, það mátti heldur ekki tala um kjöt. Almennt var þá að fólk talaði um klauflax í staðinn því menn máttu tala um fisk. Stundum tóku biskupar hart á brotum í föstunni, bæði ef fólk borðaði kjöt og einnig ef það talaði um það. Sprengidagur er enn í heiðri hafður og mjög margir Íslendingar borða salkjöt og baunir alltaf á sprengidag.

Öskudagur er miðvikudagur í 7. viku fyrir páska (4. febrúar til 10. mars) Þá hefst langafasta sem stendur til páska. Í kaþólskum sið er á þessum degi kastað ösku yfir kirkjugesti og af því kemur nafn dagsins. Aska hefur lengi verið tákn í Biblíunni um slæma og óguðlega hluti. Fólk sýndi iðrun með því að strá ösku yfir sig eða jafnvel leggjast í/á sekk fullan af ösku. Syndarar áttu að koma til kirkju á öskudag og fá yfir sig ösku og iðrast svo alveg fram á skírdag og fengu þá aflausn synda sinna. Sumsstaðar gekk prestur milli safnaðarins með vönd sem hafði verið settur í ösku eða vígt vatn og bað fyrir syndurunum. Talið er að sá siður hafi verið fyrirmynd bolluvandarins seinna meir.

Eftir siðaskiptin hættu menn að fasta og þróaðist þá dagurinn upp í að menn skemmtu sér í staðinn. Í Evrópu voru haldnar kjötkveðjuhátíðir og mannamót, en vegna strjálbýlis og veðurfars á Íslandi var dagurinn að mestu haldinn hátíðlegur við glens og gaman innanhús, og þróaðist þá sá séríslenski siður að á öskudag hengdu konur litla poka á karla sem voru fullir af ösku, en karlarnir hins vegar settu litla steina í sína poka sem þeir hengdu á konurnar.

Það er frí í grunnskólunum á öskudag. Víða er haldið upp á daginn með því að slá köttinn úr tunnunni og börn klæðast alls konar grímubúningum. Sagt er að öskudagur eigi 18 veðurbræður, þ.e. að aðrir 18 dagar fái sama veður og var á öskudag.

Upplýsingar fengnar á síðunni Saga dagana hjá Hjallaskóla og á natmus.is/skemmtilegir dagar.

Kv. EstHe
Kv. EstHer