Hæhó, ég er orðin ofurlítið leið á íbúðinni minni eins og hún er og væri alveg til í að fá smá ráð eða hugmyndir.

Ég bý í 3ja herbergja 60fm íbúð. Íbúðin skiptist niður í lítið gluggalaust baðherbergi, svefnherbergi með innbyggðum skápum, stofu, borðstofu, eldhús og gang. Borðstofan er eiginlega jafnstór og stofan og það var opið á milli en opinu var lokað til að skipta þessu niður í herbergi.

Núna langar mig mikið til að opna á milli til að fá smá meiri birtu og nýtingu úr þessu plássi. Samt langar mig til að geta lokað af svona þegar löngunin grípur mig. T.d. með einhvers konar rennihurð eða eitthvað. Hafið þið einhverjar hugmyndir? Og hvernig er best að taka svona millivegg niður? Get varla ráðist á hann með sleggju einn daginn eða hvað?

Auk þess er gamall dúkur á gólfunum, sem er í fínu lagi, nema dúkurinn í eldhúsinu er ferlega ljótur og leiðinlegur á álagablettunum, t.d. við vaskinn. Svo eru skáparnir málaðir í mjög fallegum dökkbláum lit en ég er búin að fá alveg nóg af þessum lit, svo ég er að spá í hvaða litur væri hentugur í staðinn. Þetta eru svona gamaldags skápar sem ná alveg upp í loft. Eldhúsborðið og bekkurinn eru rauð á litinn, en einnig, mjög gömul og illa farin, og mig langar líka til að breyta því einhvern veginn.

Sem sagt, opin fyrir flestum breytingum innan skynsamlegra fjárhagslegra marka :-) Allar hugmyndir vel þegnar.