Ég var að horfa á þátt sem er á BBC Prime og heitir “Trading Up”
Þáttur þessi er ætlaður fólki sem er í íbúðarhugleiðingum, sérstaklega þeim sem eru að selja.
Kaupandi kemur að máli við þáttastjórnendur og þeir velja síðan tvær íbúðir sem koma til greina samkvæmt því sem kaupandi er með í huga.
Þeir fara síðan í heimsókn til þessara aðila og benda viðkomandi á hvað má betur fara, laga til hér og þar, mála, skipta út, raða húsgögnum upp á nýtt, laga aðkomuna og margt fleira.
Þetta er mjög sniðugt því auðvitað er auðveldara að selja ef íbúðin lítur vel út. Ég velti þessu upp til umhugsunar fyrir tilvonandi seljendur. Því glöggt er gests augað og oft þarf lítið að gera til að íbúðin sýnist meira aðlaðandi. því miður er maður oft sjálfur orðinn ansi lokaður gagnvart því sem betur má fara. Gott er því að leita til t.d. vina og ættingja og biðja þá um að koma með því hugarfari að þeir séu að kaupa og biðja þá að vera vel vakandi fyrir því sem hægt er að breyta.