Saga þessi birtist í Örvar-Oddi, blaði skólafélags Kennaraskólans í desember 1935, þegar höfundur var 25 ára. Mér fannst hún það góð að ég vildi deila henni með ykkur.



Ekkert er jafn táknlegt fyrir djúpa og sára sorg og barnsgrátur úti á illa lýstri úthverfisgötu, mitt í skammdegisrökkri desembermánaðar, ekkert jafn óskylt gleði og helgi jólanna.

Barnsgrátur, sár og ekkaþrunginn, sem berst út í logndrífuna og myrkrið, er ekkert nema venjulegt fyrirbrigði, sem menn almennt veita ekki eftirtekt; því það er svo algengt að börn gráti. Nokkrir líta þó ef til vill aftur, af því það er rétt fyrir jólin, og þá á hryggðin og sorgin að vera svo fjarlæg.

En þetta er þá bara níu ára gamall drenghnokki, sem stendur við stóran poll á götunni og grætur, á meðan logndrífan fellur á dökkt hár hans og gerir það hvítt og kaldar, rauðar hendur hans þvalar. Því skyldu þeir vera að staðnæmast, þegar þetta er bara stór strákur, sem stendur á uppréttum fótum og grætur ofan í poll á götunni? Nei, tíminn er peningar og annríkið krefst hraða. Logndrífan og myrkrið fellur þéttar, þéttar, en ofan í pollinn á götunni falla stór, heit barnstár, eins og perlur, sem að eilífu týnast.

Hvers vegna grætur hann? Hann grætur ekki af því, að hann sé hræddur við jólaköttinn, því að hann veit, að mamma hans hefir vakað fram á nótt síðustu kvöldin, við að prjóna sokka handa honum. Hann grætur heldur ekki vegna þess, að hann muni enga jólagjöf fá, því hann veit, að hann Tommi, leikbróðir hans, ætlar að gefa honum stóran bíl, sem hann sjálfur er hættur að hafa gaman af. Hann grætur heldur ekki af því, að hann geti ekki gefið jólagjafir. Hann, sem á fimm krónur síðan hann var í sveitinni í sumar, og fyrir þær hefir hann keypt saumakassa handa systur sinni og tvö falleg jólakort handa pabba og mömmu. Hvers vegna grætur þá drengurinn?

Hann grætur vegna þess að hann hefir brotið gleraugun sín - gleraugun, sem hann fékk í haust og kostuðu þrjátíu og fimm krónur, jafnstóra upphæð og pabbi hans vann fyrir á heilli viku. Og nú getur hann ekki fengið nein gleraugu fyrir jólin. Nú verður hann aftur þreyttur í augunum og veikur í höfðinu, getur ekki lesið og þolir ekki að horfa á jólasveininn. Hann hafði fengið að fara út og ætlaði að horfa á jólasveininn, sem sýndi allar gjafirnar í gluggunum á “Edinborg”, en í flýtinum datt hann á götuna og missti gleraugun sín ofan í pollinn, og nú stóð hann með glerlausar og brotnar spengurnar í höndunum og grét sárt og ákaft, á meðan logndrífa skammdegisins féll yfir.

Nú hefði það ekki verið nema ofboð eðlileg, rökrétt afleiðing gleðiboðskapar jólanna um hjálpfýsi gagnvart þeim, sem bágt eiga, að einhver fínn og vel búinn maður hefði komið til litla drengsins og spurt:

“Hvers vegna grætur þú, vinur minn?”

Og svo þegar barnið hefði sagt honum orsökina með grátekka í röddinni, þá hefði þessi eðallyndi maður opnað pyngju sína og gefið drengnum andvirði fyrir nýjum gleraugum, þurrkað tárin framan úr óhreinu andliti hans, og séð gleðina ljóma í bláum barnsaugunum, bjartari og fegurri en nokkurt jólaljós, sem hann hefði áður séð. En ekkert af þessu skeði, því það er svo algengt, að börn gráti og mennirnir þurfa svo mikið að flýta sér, svona rétt fyrir jólin.

Og ennþá heldur myrkrið áfram að þéttast, og snjókornin falla eitt eftir eitt, hljóðlaust og hægt, eins og þau séu að breiða hvíta sakleysisblæju yfir dökk spor mannanna á götunni.

En við stóra pollinn stendur níu ára gamall drengur og grætur brotin gleraugu.