Mig langar til að segja ykkur sögu. Sögu af sönnum jólaanda. Þegar ég var lítill var alltaf mikið stress í kringum jólin. Það var eins og fólk kynni ekki að slappa af. Eru jólin ekki til þess? En samt var alltaf eins og jólin snérust um eitthvað annað. Pakka inn, baka, taka til, kaupa, eyða. Vá þvílík hamingja. Það var oft sem mig langaði hreinlega til þess að stinga af. Á jólaeyju. Þar sem fólk kynni að meta jólin fyrir það sem þau standa fyrir. Ást, frið og hamingju. Að deila þessu með þeim sem þú elskar.
En ef það hefði ekki verið fyrir þetta stress hefðum við aldrei hitt Tómas. Tómas breytti jólunum á mínu heimili til frambúðar.
Þetta var kaldur vetrarmorgun. Enginn snjór en kalt samt sem áður. Mamma dró mig úr hverri búð á fætur annarri að finna það sem vantaði. Það hlaut að vera eitthvað. Það gat ekki verið að við værum búin með allt og enn fimm dagar til jóla. Upp og niður Laugarveginn. Það var þar sem við hittum Tómas. Hann var ungur þá. Ekki nema 11 ára. Mamma hafði farið með mig inná Hlemm til þess að leyfa mér að pissa. En bara smástopp sagði hún svo verðum við að halda áfram. Meiriháttar hvað fullorðið fólk er stressað hugsaði ég.
Ég gekk inn á klósettið en snarstoppaði þegar ég sá strák. Strák á aldur við mig. Hann sat á klósettgólfinu og grét. Ég vissi ekki hvert ég átti að snúa mér svo ég gekk hægum skrefum til stráksins. Mikið óskaplega vorkenndi ég honum. Það var svo vond lykt af honum og eitthvað sem líktist blóði lak úr neðri vör hans. Ég lagði hendina á öxl hans. Hann kipptist til og leit upp. Þarna störðu þau á mig. Þessi augu. Full af sorg og vanlíðan. Ég rétti honum hendina og hann tók í hana hikandi. Ég reyndi að spyrja hann hvað væri að og afhverju hann væri hér en ég fékk ekkert upp úr honum. Seinna fékk ég að vita að hann hefði flúið frá móður sinni sem barði hann eins og harðfisk.
Ég rankaði samt ekki við mér fyrren mamma fór að berja á hurðina. Vá dísös. Þvílíkt stress hugsaði ég. Ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að svo ég spurði Tómas hvort hann vildi koma heim með mér ef mamma leyfði. Hann jánkaði og herti takið á hönd minni.
Ég fór með hann fram. Mamma tók andköf þegar hún sá hann. Hann var svo illa útleikinn. Marinn og útgrátinn. Fyrstu viðbrögð hennar voru að spyrja hver í fjandanum þetta væri. Viðbrögð númer tvö voru að taka utan um hann og spyrja hvað væri að. Tómas sagði ekki orð. Ég spurði mömmu hvort hann mætti koma heim með okkur en mamma var ekki alveg á því. Vildi fyrst tala við foreldra hans. Og það gerðum við. Tómas sýndi okkur hvar hann bjó. Ég man enn eftir lyktinni inní íbúðinni. Samanbland af tóbakslykt og þynnkulykt. Með dass af ilmkertablandi. Mikið óskaplega langaði mig til þess að taka hann með heim og sýna honum dótið mitt. Hann átti ekkert að undanskildum stórum bangsa sem var næstum jafn stór og Rósa litla systir.
Mamma Tómasar var meðvitundarlaus þegar við komum heim til hans. Mamma ákvað að láta Barnaverndarnefnd hiklaust vita. En ekki fyrren eftir jól. Þetta er í eina skiptið sem móðir mín tók ákvörðun sem hefði varað við lög. Og ég er stoltur af henni. Í þetta skipti kom Tómas með okkur heim og var hjá okkur þangað til á nýju ári. Enginn saknaði hans og enginn virtist vera að leita að honum.
Ég man ennþá eftir tilfinningunni þegar ég sá Tómas brosa í fyrsta skipti. Það var þegar ég gaf honum jólagjöfina frá mér. Mamma hafði farið með mig niður í bæ og ég mátti kaupa hvað sem er fyrir 1200 krónur nákvæmlega. Ég valdi afskaplega fallegan slökkviliðsbíl sem var með ljósum og allt saman. Mig dauðlangaði í hann en ég ákvað að Tómas þyrfti hann meira. Þessi jól voru bestu jól sem ég hef lifað. Þessi jól kynntist mamma því nefnilega að jólin snúast ekki um hver á flottasta skrautið, eða flottustu gjafirnar eða mestu peningana. Þau snúast um að gleðjast og að gleðja aðra.
Eftir áramót lét mamma Barnaverndarnefnd vita og við fengum að vita það að mamma Tómasar hefði dáið af stórum skammti og hann átti engann annan að. Ég spurði mömmu hvort við mættum ekki bara eiga hann. Hún virðist hafa íhugað það því öll jól eftir þetta var Tómas með okkur og allan ársins hring.
Þetta var besta jólagjöf sem fjölskylda mín hefði nokkurntímann getað fengið.

Gleðileg jól öllsömul.