Ég hef ekki haft mikinn tíma til að skrifa undanfarið, og þegar ég var að fara í gegnum möppurnar mínar í tölvunni fann ég þessa sögu ókláraða. Þetta er bara eitthvað smáræði sem ég hripaði niður fyrir tveimur eða þremur árum fyrir litla bróður minn.
En mér datt í hug að skrifa endann í flýti og senda svo hingað inn, bara uppá gamanið. Hún er alveg örugglega alveg hrikalega stolin (ekki viljandi samt), einhver samansuða af brotum úr sögum sem ég hef heyrt,ég man ekki hvort ég hafi heyrt aðra nákvæmlega svona áður, en ef svo er þá biðst ég afsökunar á að hafa fengið sömu hugmynd. Þetta er líka frekar einfeldningslegt, ekki eitthvað voðalega sorglegt með miklum boðskap, en það getur heldur ekki allt verið svoleiðis. Njótið!

Jólayfirhalningin

Grýla þusti um hellinn með kústa á lofti. Jólin voru að koma.
Hún var í miðju kafi í einu og mikilvægustu hreingerningu ársins, jólahreingerningunni. Á meðan á henni stóð forðuðu sér allir úr hellinum. Jólasveinarnir fóru í bað í heitum hver í nágrenninu og fóru í rauðu búningana sína, en Leppalúði hékk í næsta helli og drakk kakó hjá nágrannaskessunni. Meira að segja jólakötturinn vogaði sér ekki að vera nálægur Grýlu í þessum ham, en hún var þó allra jafna uppáhaldið hans.
Þegar hellirinn var orðinn svo glansandi fínn að maður fékk ofbirtu í augun loksins hætti Grýla. Hún stóð með hendur á mjöðmum í dyrum hellisins og horfði stolt yfr dagsverk sitt. Síðan kallaði hún á Leppalúða og jólasveinana. Leppalúði kom strax, útbelgdur af kakói og trölladeigskökum og lagðist í bæli hans og Grýlu, hana grunaði að jólasveinarnir myndu ekki koma alveg strax, því oftast tók það þá langa stund að baða sig og greiða allan mosa úr skegginu. Hún ákvað því að byrja að elda. Á morgun var fyrsti desember, og í tilefni af því, hafði hún lamb í matinn. Þegar hún var að byrja að leggja á borð komu Stúfur og Kertasníkir inn. Þeir voru hreinir og stroknir í rauðu fötunum. Þeir settust við borðið og dáðust að því hvað hellirinn væri fínn. Grýla brosti, og spurði svo hvort hinir sveinarnir væru ekki á leiðinni. Stúfur sagði að þeir væru alveg að koma. Hann leit svo á Kertasníki sem kinkaði kolli svo lítið bæri á.
“Ehemm, mamma” Stúfur varð vandræðalegur. Kertsníkir gaf honum olnboga skot.
“Ja, já, við vorum að hugsa, ehh, hvort að, ja, þig langaði ekkert að, tjah… vera svolítið…fín…um jólin?” Stúfur starði í gaupnir sér.
“Fín?” Grýla horfði hissa á hann. “ Er ég ekki nógu fín fyrir ykkur?”
“Ha, jújú! Nei, sko við vorum bara að hugsa hvort að þig langaði kannski að fríska aðeins upp á útlitið, fara í klippingu, kaupa ný föt, fara í bað…Bara svona útaf það eru að koma jól…”
“Í bað!?” Greip hún fram í fyrir honum. “Ég?” Svo skellti hún uppúr.
“Já, þú yrðir svo ljómandi fín! Heldur þú að pabbi yrði ekki hrifinn!” Kertasníkir horfði á mömmu sína. Þegar Grýla fór að hugsa málið fannst henni þetta ekki al vitlaus hugmund. Kannski yrði bara fínt að vera svolítið vel til höfð þegar strákarnir kæmu heim frá byggðum aftur. Allavegana ekkert að því að prófa!


*************************************************


Grýla batt á sig skýluklút og skellti poka á bakið. Það var 19. desember og hún var á leiðinni í bæinn. Hún stikaði niður brekkurnar, en í hellismunnanum stóð Leppalúði og klóraði sér í hausnum. Þegar hún var komin að útjaðri bæjarins lá við að hún snéri við. Einhverjar blikkdollur á hjólum þutu um göturnar, og voru næstum því búnar að keyra Grýlu um koll. Þegar hún hugsaði sig um, hlutu þetta að vera þessir bílar, sem strákarnir voru búnir að lýsa fyrir henni. Hún sá að sitthvoru megin við göturnar þar sem blikkdollurnar þutu um voru aðrar minni götur, þar sem fólkið labbaði. Hún afréð því að fylgja bara straumnum. Allir störðu á hana, og eitt smábarn fór að skæla. Grýla hraðaði sér áfram, þangað til hún gekk fram á litríkt hús með myndum af skærum.
‘Ætli hér sé ekki hárklippistaðurinn’, hugsaði hún með sér og gekk inn. Áður en hún lagði af stað frá fjallinu, hafði hún skellt sér í heita hverinn og baðað sig, en það hafði hún ekki gert í yfir 78 ár. Hún bjóst því við að vera alveg til í slaginn.
Þegar hún kom inn sat mjó unglingstelpa og talaði í símann. Hún misti símann í kjöltu sér þegar Grýla gekk inn, svo fór hún að hlæja.
“Haha, vá, ég hélt fyrst að þetta væri alvöru Grýla, en auðvitað ertu bara leikari, haha!” Stelpan hló, en horfði svo rannsakandi á hana.” Hvað get ég annars gert fyrir þig?”
“Ehemm” Gýla vissi ekki alveg hvernig átti að bera sig að þessu.
“Ég ætla að fá allsherjar,umm…snyrtingu?”
Stelpan leit á hana með virkilega undarlegu augnaráði. “Er þér alvara?”
“Já, fúlasta alvara”, sagði Grýla og velti fyrir sér hvort þjónustan væri alltaf svona.
“Ö..já…hérna sestu bara hér og ég fæ hann Jens til að….gera eitthvað við lubb..eh..hárið..á þér..”
Grýla settist í stólinn sem henni var bent á og hrökk við þegar hún horfðist í augu við spegilmynd sína í stórum, glansandi spegli sem á móti henni var.
Hárið var nú frekar úfið miðað við hárið á hinum konunum sem sátu með rúllur í hárinu og gægðust yfir brúnirnar á tímaritunum sem þær lásu.
Grýla hrökk í kút við að maður skrækti. Þetta hlaut að vera þessi Jens, hugsaði hún.
Hann stóð þarna og hélt fyrir munninn, með stutt, snarkrullað, brúnt hár.
“Jeminn!” Ískraði í honum “ þetta er nú heilmikið verkefni! Ég bara veit ekki hvar skal byrja”
Hann hljóp inní bakherbergi og mætti aftur vopnaður skærum og hárnæringu.
“Jæja elskan”, sagði Jens við Grýlu, “Nú tek ég til minna ráða.”
Því næst sprautaði hann þvílíkum ósköpum af einhverju flókaleysandi efni í hárið á fórnarlambi sínu svo að höfuðið á henni fór að líkjast kartöflustöppu. Hann stakk svo höndunum á bólakaf í grautinn og fór að hræra í og reyna að greiða eitthvað úr flækjunum með fingrunum.
“Ertu nokkuð hársár, elskan?” spurði Jens Grýlu. Hún hélt nú ekki.
Eftir nokkra stund leit út fyrir að gelið hefði haft einhver áhrif, þar sem nú lafði slatti af hári Grýlu niður á axlirnar og bakið, þó eitthvað væri enn í hnútum. En þegar Jens hafði sprautað, greitt, þrykkt og togað í þrjú korter til viðbótar voru flókarnir farnir.
“Fjúff!” Sagði hann og þurrkaði ímyndaðan svita af enninu með handarbakinu, “Mér finnst að ég ætti nú að fá Emmy og Óskarsverðlaunin fyrir þetta afrek!” Hann virtist bara hafa gaman að.
“Jæja, er ég tilbúin núna?” Spurði Grýla vongóð og ætlaði að standa upp.
“Ó,nei, væna mín”, Jens ýtti henni aftur niður í stólinn,”Við erum rétt að byrja”.
Hárið á Grýlu var nú ekki lengur úfið og flókið, en það var mislangt og tætingslegt auk þess sem það bráðvantaði almennilegan þvott. Jens þvoði því hárið vel og vandlega með hinum ýmsu efnum, þurrkaði það og greiddi aftur. Síðan klippti hann hárið svo það náði rétt niður fyrir axlir, klippti á Grýlu topp og styttur og ákvað loks að lita gráu hárin brún.
Eftir að Grýlu fannst fimmtán eilífða dvöl inni á hárgreiðslustofunni sagðist Jens loks vera búinn. Hann klappaði saman höndunu og ljómaði af ánægju þegar Grýla leit í spegilinn.
“Herra minn trúr, ég á ekki orð…” Stundi Grýla og þreifaði á höfðinu á sér. Úr speglinum starði ný Grýla, þessi hafði stutt, slétt, fínt, brúnt hár. Hún var ekki viss um að sér líkaði vel við hana. En hún leit allavegana vel út. Grýla þakkaði Jens innilega fyrir og borgaði svo gapandi unglingsstelpunni.
Þegar Grýla var aftur komin út á götuna tók hún eftir að fólk starði ekki jafn mikið á sig og áður.
‘Huhh.’ Hugsaði hún með sér.
Næst ákvað hún að kaupa sér svo sem einn kjól. Hún ætlaði að taka sig almennilega í gegn, fyrst hún einu sinni var að þessu, þó hún vissi að þetta myndi aldrei haldast, Guð, nei! En kannski fram yfir hátíðirnar. Já, það væri fínt að prófa það þangað til. Svona til tilbreytingar. Þá færi hún aftur í gamla farið. Og hver veit, kannski myndi hún endurtaka leikinn að ári. En jæja. Föt.
Í búðarglugga einum sá hún þvengmjóar gerfimanneskjur í glitrandi fötum út stillt. Þar ákvað hún að fara inn og athuga hvernig myndi ganga. Hún fór inn og leit í kringum sig. Og þvílík ringulreið! Þetta var eins og að ganga inní hænsnahús á Gamlárskvöld. Um allt þutu kvenmenn með poka og flíkur, æpandi og skrækjandi á vinkonur sinar. Á öllum veggjum stóð með æpandi rauðum stöfum “ÚTSALA!!” Grýla vissi ekki hvert hún átti að snúa sér. Allt í einu þaut kona í gulri skyrtu merktri “Starfsmaður” framhjá henni.
‘Ahh, best að reyna að tala við þessa’, hugsaði hún með sér. Næst þegar starfsmaður labbaði hjá pikkaði Grýla í öxlina á henni.
“Já, afsakið mig..” Konan starði á Grýlu, fötin hennar og hárið.
“….”
“Átt þú nokkuð kjól handa mér?” Spurði Grýla kurteisislega.
“Ha? Kjól? Á þig? Nei hættu nú alveg! Er þetta eitthvað grín?”
“Nei…” Svaraði Grýla, orðin leið á að enginn tæki hana alvarlega. Var eitthvað athugavert við saklausa skessu sem hafði verið göbbuð útí að breyta til? Nei.
“Ahem. Ég held að við höfum ekkert í þinni stærð hérna…” Sagði starfsmaðurinn og mældi Grýlu út.
“Nú jæja.” Sagði Grýla snubbótt og labbaði út. Henni líkaði ekki við þennan stað.
Þegar út á götuna var komið hélt Grýla áfram að litast um þangað til hún sá litla búð merkta “Klæðskeri”. Hún hugsaði með sér að þetta væri eitthvað fyrir hana.
Þegar hún gekk inn klingdi í bjöllu á hurðinni. Fram í búðina gekk miðaldra, gráhærður maður með broshrukkur í kringum munninn.
“Góðan daginn frú, hvað get ég gert fyrir þig?” Spurði maðurinn vingjarnlega og renndi augunum yfir Grýlu án þess að sýna nein alvarleg merki um að vera brugðið einsog hinir höfðu gert. Grýlu líkaði strax við hann. Loksins einhver sem kann mannasiði, hugsaði hún með sér.
“Já góðan daginn herra minn. Það er aldeilis blíðu veðrið, finnst þér ekki?
“Jú, mér líkar best við þetta svona. Stillt, milt frost en samt snjór. Fullkomið jólaveður”
“Alveg sammála, hjartanlega sammála.” Sagði Grýla ánægð. “En ég er nú hingað komin í leit að klæðisplaggi. Ég rambaði inn í einhverja verslun áðan, en þar var allt eins og í fuglabjargi, auk þess voru fötin að því virtist sniðin á tannstöngla.”
“Já”, sagði maðurinn hugsi, “fatatískan í dag gerir ekki ráð fyrir að fólk sé öðruvísi en fyrirsæturnar og hitt fræga fólkið. Ég held að ég gæti frekar hjálpað þér. Að hverju ertu að leita?”
“Bara kjól”, svaraði Grýla, “einhverju einföldu, en þó fínu, sem ég get verið í á Aðfangadag.”
“Hvernig viltu hafa hann á litinn?” spurði maðurinn.
“Ef þú átt eitthvað grænt, þá yrði það vel þegið.” Grýla hugsaði með sér að grænn kjóll færi vel við rauðu fötin jólasveinanna.
“Grænt skal það verða” sagði maðurinn og brosti. “Ef þú leifir mér bara að taka af þér málin þá geturðu náð í kjólinn eftir svo sem fjóra tíma.”
“Það yrði afar hentugt” sagði Grýla hæstánægð.
Eftir að vingjarnlegi maðurinn hafði tekið málin af Grýlu yfirgaf hún búðina.
‘Hvað ætli sé best að gera næst’, hugsaði hún með sér. Húðin? Já, húðin kannski. Hún mætti nú alveg fá einhverja hreingerningu. Og kannski neglurnar?Grýla gekk um göturnar og leitaði að einhverju sem gæti bent á húð eða naglahreinsunarstofu. Loks rak hún augun í skilti í glugga sem á stóð “Mjúk og fín – Spa – Nudd – Húð – Neglur” Henni fannst þetta lofa góðu og fór inn.
Þegar hún gekk í gegnum dyrnar lagði á móti henni megnan reykelsis ilm. Grýla hóstaði.
Hún virtist vera stödd í einhverskonar biðstofu. Þarna inni voru tveir hvítir sófar sem litu afar óþægilegir út, afgreiðsluborð, aumingjaleg pottaplanta og á veggjunum héngu margar svarthvítar myndir af steinum og blómum. Einhver tónlist, spiluð á flautu að Grýlu heyrðist, ómaði um loftið. Á afgreiðsluborðinu var gyllt bjalla og Grýla hringdi henni, fékk sér svo sæti einum sófanum sem var alveg jafn óþægilegur og hann hafði litið út fyrir að vera. Eftir nokkra mínútna bið sem Grýla notaði í að horfa í kringum sig og hósta af reykelsislyktinni birtist vel til höfð kona í hvítum fötum. Hún horfði á Grýlu undrandi á svip í nokkur augnablik, tók sig svo saman og sagði:
“Góðan daginn, get ég aðstoðað?”
“Já, góðan daginn”; sagði Grýla, “Ég myndi vilja fá…” Hún hugsaði sig um “húðhreinsun? Og naglahreinsun líka, ef það er í boði.”
Konan virti Grýlu fyrir sér í augnablik en svo virtist hún fá hugljómun.
“Ó, já, að sjálfsögðu. Við höfum bæði húð og naglasérfræðinga hérna hjá okkur. En frú mín, ég var að velta því fyrir mér hvort ég mætti kannski taka svo sem eina mynd af þér núna, og svo eina eftir að við höfum græjað þig?”
“Jah, ég skil nú ekki til hvers, en ætli það ekki.” Svaraði Grýla ringluð.
“Já, sjáðu til, svona fyrir-eftir myndir eru voðalega vinsælar, viðskiptavinirnir sjá á hverju þeir eiga von og svoleiðis. Takk kærlega, þú ert yndi, komdu með mér.”
Konan í hvítu fötunum sveif á bakvið afgreiðsluborðið og Grýla fylgdi á eftir.
Þær gengu niður hvítmálaðan gang með mörgum hurðum. Þegar þær voru hálfnaðar niður ganginn stoppaði konan og gekk inn um eina af dyrunum.
Inni í herberginu var meiri reykelsisilmur, meiri flautuvæl, mjög heitt og loftið rakt.
“Gjörðu svo vel að skipta um föt”, sagði hvítklædda konan, vísaði Grýlu á einhverskonar gardínu sem hékk í loftinu og rétti henni hvítan slopp á stærð við tjald.
Grýla skildi ekki mikið í þessu athæfi, en gerði þó einsog hún var beðin um. Fór á bakvið efnistutluna og í sloppinn, sem henni fannst reyndar afar mjúkur og þægilegur.
Þegar hún kom fram undan henginu á ný benti konan henni á aðra hurð og sagði henni að hún mætti sitja og slappa af í heitapottinum eins lengi og hún vildi. Svo myndi hún fá nudd, leirmeðhöndlun og vax, ef hún vildi? Grýla ákvað að gera það bara líka, þó hún hefði ekki hugmynd hvað það fól í sér. Að lokum yrðu svo hendurnar og fæturnar á henni gerðar fínar.


***************************************************


“Guð minn almáttugur, þvílík og önnur eins eindæmis vitleysa þetta er…” tautaði Grýla fyrir munni sér þegar hún hraðaði sér út frá “Mjúk og Fín”. Henni hafði verið slengt ofan í pott með heitu vatni, svo nudduð öll (sem reyndar var það skásta af þessu öllu), klínt leðju framan í hana og grænmeti sett á augun, þar næst heitu vaxi helt útum allt og síðan kippt í og loks raspað, klippt og málaðar til á henni neglurnar. Grýla vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið fyrr en henni var stillt upp, af henni tekin mynd aftur og svo beðin um borgun.
‘Og þykir þetta fínt?’ hugsaði hún með sjálfri sér. Hún virti fyrir sér hendurnar á sér, sem reyndar litu frekar vel út. ‘Ojæja…’
Grýla ákvað að fara og vitja að kjólnum sínum, hana var farið að langa að komast heim úr þessum atgangi öllum saman.
Þegar hún hafði eftir svolitla stund rambað aftur á búð klæðskerans brosti hann á móti henni.
“Ahh, ég var einmitt að klára kjólinn þinn.”
“Æjji, þúsund þakkir”, stundi Grýla og lét fallast niður í stól sem stóð útí horni (það ískraði og brakaði ískyggilega í honum við áfallið).
“Ekki vill svo til að þú þurfir skó líka?” Maðurinn sýndi henni bláa skó með undarlegum hæl og alltof mjórri tá. Þeir myndu ekki duga hálfa leið uppí helli.
“Nei, veistu, ekki í þetta skiptið.” Svaraði Grýla kurteislega. Maðurinn kinkaði kolli. Hann hvarf svo stundarkorn en kom til baka með kjólinn hennar Grýlu. Hann var grenigrænn að lit með litlum, grænum perlum saumuðum í kringum hálsmálið og ermarnar.
“Ó, hann er dásamlegur!” sagði Grýla yfir sig ánægð.
Eftir að hafa þakkað klæðskeranum vel fyrir og borgað hraðaði hún sér út aftur.
‘Og nú, heim.’ Hugsaði hún ánægð. Hún hlakkaði til að sýna Jólasveinunum og Leppalúða afrakstur leiðangursins.
Þetta hafði verið hin besta ferð, þó hún hyggðist ekki endurtaka leikinn í bráð.


*************************************************

Ef einhver nennti að lesa þetta allt: Takk fyrir þessa fórn af þinni hálfu. Þessi saga var skrifuð af mér og lesin yfir, réttuð og “edituð” (nei, ég nenni ekki að ná í orðabók), af hinni yndisfríðu og æðislegu Padfoot. Allar villur skrifast á hana.
We're just two lost souls wimming in a fish bowl.