Rúnar dró Gabríelu upp brekkuna á snjóþotunni. Hann hafði farið út að leika með henni eftir að móðir þeirra og faðir höfðu slegist. Hann vildi forða henni frá því ógeðslega ofbeldi sem átti sér stað á heimili þeirra. Gabríela var það sem skipti hann öllu máli í lífinu. Hún hafði lent í slysi er hún fór með föður sínum eitt sinn á veiðar á árabát í vatninu sem stóð við bæinn þeirra. Hún hafði lamast fyrir neðan mitti og því varð hún að fá stuðning við allt sem hún gerði. Læknarnir sögðu að skaðinn á mænunni hefði verið svo mikill að hún myndi örugglega aldrei aftur ná bata.

Faðir barnanna, Ólafur, varð aldrei samur eftir slysið. Hann byrjaði að berja Rósu, móður þeirra, þegar að hann kom heim úr bænum. Hann lyktaði af áfengi og tóbaki þegar hann þrammaði inn um dyrnar. Hann barði hana harkalega. Hún var bæði sterk líkamlega og andlega svo hún gat alveg svarað fyrir sig, en hún vildi það ekki. Hjarta hennar var hlýtt og hún vissi að innst inni var Ólafur góður maður. Áður en þau lentu í slysinu þá hugsaði hann mikið um þau Gabríelu og Rúnar, en eftir slysið lét hann eins og hann tæki ekki eftir þeim.

Rúnar var fimmtán ára. Hann var á síðasta vetri í sveitaskólanum sem þýddi að hann þurfti að flytja til borgarinnar næsta vetur. Hann hataði það. Hann hataði þá tilhugsun að þurfa að yfirgefa Gabríelu litlu sem hafði einungis rétt náð sjö ára aldri. Ofbeldið á heimilinu fór versnandi en alltaf þegar að faðir þeirra kom heim hraðaði hann sér út um kjallaradyrnar með hana. Þau fóru stundum í fjöruferðir, léku sér í heyinu eða fóru að klappa dýrunum á næstu bæjum á sumrin. Rúnar bar hana á bakinu eða ýtti henni áfram í kerru sem hann hafði smíðað sjálfur. Á veturna dró Rúnar hana upp á snjóþotu og svo renndu þau sér saman niður brekkuna.

Jólin voru í nánd. Rúnar óskaði þess að lífið yrði betra. Hann gæti ekki yfirgefið Gabríelu litlu þegar þetta ástand var á heimilinu. Rósa hugsaði vel um hana þó líkaminn hennar væri illa á sig kominn eftir ofbeldið. Hún elskaði Ólaf ennþá en hann hafði barið hana síðustu átta mánuði. Rúnar var hættur að trúa á jólasveininn en Gabríela litla trúði auðvitað á hann. Hún trúði að hann gæti læknað hana. Læknað hana svo að hún gæti byrjað að skauta á vatninu við bæinn. Hana dreymdi um að verða listhlaupari. Hún talaði mikið við Rúnar og móður sína um hvað það væri frábært ef að Sveinki gæti nú komið og gert allt betra.
Rúnar var á gangi heim að dimmu desemberkvöldi. Hann hafði farið í heimsókn á næsta bæ eftir skóla. Hann var örlítið hræddur en hann hafði gengið þessa leið oft áður. Honum brá þegar að hann sá ljósglampa tindra um hundrað metra frá bænum. Hann varð forvitinn og ákvað að líta eftir því hvað þetta væri. Hræðslan varð mikil og hann hugsaði sig um tvisvar áður en hann gekk þangað. Þarna satt feitlaginn, skeggjaður maður í slitinni ullarpeysu og í kjöltu hans sat Gabríela. Maðurinn kynnti sig og kvaðst heita Santi Nikulás. Hann var mjög kurteis og spurði hvers Rúnar óskaði sér mest. Rúnar sagðist vilja að faðir hans myndi verða eins og hann var hér áður fyrr og allt yrði gott aftur. Santi Nikulás kvaðst ætla að reyna hvað hann gæti til þess.

Rúnar spratt upp úr rúminu í svitabaði. Gabríela lá við hlið hans en hún svaf áfram. Hann ákvað að fara fram úr. Í stofunni sá hann vel skreytt og fallegt jólatré og húsið ilmaði af bökunarilmi. Hann gekk inn í eldhús þar sem að móðir hans stóð önnum kafin við bakstur og hún bauð honum góðan dag. Rúnar vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Hann gekk út. Þar sá hann föður sinn vera að skreyta. Hann var að leggja lokahönd á verkið með því að setja krans á hurðina. Hann brosti glaðlega til hans og bauð honum góðan dag. Gabríela kom í því hlaupandi til Rúnars og bað hann um að hjálpa sér í skautana því að hún ætlaði að fara að dansa á svellinu. Rúnar varð himinlifandi og brast í grát. Allt hafði orðið eins og hann vildi hafa það.

Ég veit að það er svipað nafn á sögu hér neðar. Ástæðan fyrir þessari nafnagift minni er sú að hún passar vel við söguna. Þakkir til Karat, sem ég hef þó ekki náð í til þess að biðja um leyfi.

Vonandi líkaði ykkur sagan og ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
,,Heroes never die…. They just reload."