Við lestur undir próf núna í morgun varð mér hugsað til jólanna og þeirra sem minna mega sín á þessum árstíma. Þá varð til eftirfarandi kvæði.

Vofir yfir vetur þungur
víða er kalt í desember.
Grátin kona og gumi ungur
geta hvergi yljað sér.

Lýsir tunglsins ljósið skært
lítil börn í hlýju dreyma.
Sumir aldrei sofa vært
sumir eiga hvergi heima.

Dátt er sungið lag með ljóði
ljóssins hátíð er við völd.
Mæðgin þegja þunnu hljóði
það er aðfangadagskvöld.

Góðu börnin gjafir fá;
Gítar! En sá sældarfengur!
Fátæk móðir ekkert á
í örmum hennar kaldur drengur.

Fimbulkuldi, frostið meiðir
föla móður, lítið skinn.
Blíður maður barn sitt leiðir:
„Má bjóða ykkur tveimur inn?“

Inni í hlýju ylja sér
ást er til í þessu landi
„Elsku vinur, þakka þér.
Þetta er sannur jólaandi.”