Þessu aðfangadagskvöldi myndu Lárus og Friðjón aldrei gleyma. Friðjón var í heimsókn hjá Lárusi í jólafríinu. Þeir voru nýbúnir að borða stórfenglegan jólamat með mikið af hamborgarahrygg, sykruðum kartöflum og ýmsu öðru gúmelaði. Fullorðna fólkið var í eldhúsinu að ganga frá. Friðjón og Lárus voru að leika sér í stofunni þegar allt í einu heyrðist söngur að utan. Lárus og Friðjón hlupu að hurðinni og sáu þar nokkra krakka standandi í léttri snjókomu, syngjandi uppáhalds jólalagið hans Lárusar, White Christmas. Það var svo kalt að Lárus og Friðjón sáu andadrátt þeirra stiga til himins eins og reykhnoðra.


Söngvararnir spurðu hvort að Lárus og Friðjón vildu slást í hópinn. Klukkan var mikið en Lárus spurði hvort að þeir mættu fara í smástund. Já! Þeir tóku jakkana, húfurnar og hanskana sína og fóru út að syngja með krökkunum. Það var mjög gaman!


Þegar Lárus og Friðjón voru á leiðinni heim hætti að snjóa, stjörnurnar blikuðu og tunglið var svo skært að þeir gátu séð í myrkrinu. Þegar þeir voru komnir að dyrunum stoppaði Friðjón skyndilega. ,,Hlustaðu Lárus, heyrðirðu þetta? Þetta hljómar eins og bjöllur!”


,,Ég heyri það líka!” sagði Lárus og flýtti sér til Friðjóns. ,,Sjáðu þarna,” asgði Friðjón og benti upp í himininn. ,,Ertu að hugsa það sem ég er að hugsa?” spurði Lárus. ,,Já! Þetta er jólasveinninn! Það hlýtur að vera!” Friðjón tók andköf. ,,Hlustaðu, mér heyrist hann vera að kalla Hó Hó Hó.”


,,Já!” sagði Lárus, ,,ég heyri það líka! Ég held að hann sé yfir húsinu hans Bubba. Við ættum að drífa okkur inn og setja smákökurnar og mjólkina fram. Við þurfum að koma okkur í háttinn.”


,,Hlaupum,” sagði Friðjón.


Fullorðna fólkið var að klára að þrífa diskana þegar Lárus og Friðjón skutust inn í eldhúsið. ,,Við sáum Sveinka!” másaði Lárus. ,,Hann var fljúgandi yfir húsinu hans Bubba. Við verðum að drífa okkur og setja fram mjólkina og smákökurnar. Ef við verðum ekki sofandi kemur Sveinki ekki hingað!”


Friðjón og Lárus drifu sig að hella mjólk í glas og setja fimm súkkulaðibitakökur á disk. Þeir settu mjólkina og kökurnar á arinhilluna svo að Sveinki sæi þær pottþétt. Þegar þeir lögðust í rúmin sín heyrðu þeir fullorðna fólkið hlæja lágt. ,,Þetta hefur verið stórt stjörnuhrap sem strákarnir sáu” sagði einn. Friðjón og Lárus brostu til hvors annars og sofnuðu. Þeir vissu að þeir sáu ekki stjörnuhrap. Stjörnuhröp hringja ekki bjöllum og þau hrópa ekki ,,Gleðileg jól!”

————————

Bara lítil og einföld saga.