Það er gaman að spá í hvernig jólahefðir skapast. Flestar jólahefðir höfum við frá æskujólunum en hvað gerist þegar fólk kynnist maka sínum og byrjar að skapa sínar eigin hefðir?
Í mínu tilviki höfum við í flestum tilvikum reynt að halda í hefðir úr báðum fjölskyldum. Nokkur dæmi:
1. Með hangikjötinu var “must” í minni fjölskyldu að hafa rauðkál og laufabrauð. Það hafði maðurinn minn aldrei séð en hann verður að fá rófustöppu. Þannig að meðlætið með hangikjötinu jókst til muna með samruna þessara tveggja fjölskyldna!
2. Ég hafði aldrei smakkað skötu en nú er hún sjálfsagður hluti af Þorláksmessunni.
3. Jólatréð er skreytt á Þorláksmessukvöld (hefð mín megin) og það er lifandi (hefð hans megin).
4. Við lentum í vandræðum með jólakortin. Í minni fjölskyldu voru þau opnuð jafnóðum og lesin aftur og aftur fram að jólum. Í hans augum var þetta hálfgerð helgispjöll, svona svipað eins og að opna pakkana. Þannig að ég gaf undan og nú opnum við kortin og lesum þau á meðan við göngum frá eftir matinn á aðfangadagskvöld (á undan pökkunum).
Fleira mætti sjálfsagt tína til. Hvað með ykkur, hvaða hefðir eru alveg ómissandi á jólunum, hvað hafið þið þurft að gefa eftir, hvað gætuð þið hugsað ykkur að gefa eftir og hvernig hefur ykkur sem eruð í sambúð tekist að móta ykkar eigin jólastemmingu sem er óháð stemmingu úr foreldra- eða tengdaforeldrahúsum?
Kveð ykkur,