Jól, jól…og já, aftur jól.

Fríða leit upp frá trénu. Það var…fallegt. Meðalstórt, ekki ofskreytt en ekki fátæklegt, seríurnar lýstu fallega og kúlurnar glömpuðu. Hvaða fjölskylda sem er hefði verið ánægð með þetta tré.

Já, hvaða fjölskylda sem er…

-

Helga leit upp, barnsleg gleðin skein af andlitinu. Hún hafði fengið að opna einn pakka fyrirfram, rétt til að stytta biðina eftir jólunum. Lítill tuskuapinn hafði ekki kostað mikið, en það þarf oft ekki mikinn pening til að gleðja fögur hjörtu.

“Takk mamma! Takk pabbi! Ég elsk'ykkur!” sagði hún er hún hljóp til þeirra til að faðma þau.

“Þú átt að heita….Herra Api! Og þú átt að vera besti vinur Herra Fíls! Og þið getið leikið ykkur saman og haldið jól saman o……” Röddin fjaraði út er hún hljóp í áttina að herberginu sínu.

“Awwww….æji, hún er svo mikið krútt, ég gæti ekki ímyndað mér betri dóttur,” sagði Fríða við Jóa á meðan Helga litla hljóp.

“Hún er frábær…enda dóttir þín” sagði hann tilbaka og brosti. Fríða brosti, kyssti hann létt á munninn og faðmaði.

“Farðu og gerðu þig klára elskan, við erum að fara að fara í messu!” kallaði hún svo inn til Helgu.

“Allt í lagi mamma!” var svarið. Fríða brosti. Hún elskaði þennan krakka.

-

Fríða brosti…en brosið var ekki einsog áður. Það var holt, það vantaði gleðina sem fylgdi henni alltaf, það vantaði Fríðu sjálfa. Hún leit á mynd af sér, Helgu og Jóa sem var tekin á þriggja ára afmæli Helgu. Þarna var brosið, þarna var gleðin…þarna var Fríða.

-

“Þvílíkt veður á aðfangadag,” sagði Jói á meðan hann hallaði sér fram að stýrinu, til að geta séð betur út. Rigningin dundi á glugganum einsog henni væri borgað fyrir það.

“Úff já… þurrkurnar hafa varla við að skola vatninu í burt,” svaraði Fríða. Helga sat þögul í aftursætinu með Herra Apa og Herra Fíl.

“Förum við ekki að verða sein?” spurði Jói sjálfan sig og leit á úrið.

“Passaðu þig!” öskraði Fríða á sama tíma og Helga öskraði…af hræðslu.


-

Krass. Búmm. Árekstur. Bíll sem var að koma á móti hafði runnið á veginum og lent framan á bíl fjölskyldunnar.

Mjög harður árekstur.

-

“Segðu okkur satt læknir…heldurðu að hún nái sér?”

“Það er ekki gott að segja… hún gæti verið í öndunarvélinni í viku og vaknað, gæti verið mánuður, gæti verið öll hennar ævi. Ómögulegt að segja… Eflaust… Það er aldrei auðveld ákvörðun… En heldurðu að þú viljir… Sleppa henni? Slökkva á vélinni? Kannski ekki núna, en ef hún vaknar ekki brá-”

“Haldið henni á lífi….hún er sterk….ég veit hún kemur aftur.” Læknirinn dæsti.

“Einsog þér viljið…”


-

Það voru akkúrat þrjú ár síðan…hún var ekki enn vöknuð. Fríða hafði beðið…beðið…og beðið. En hún vaknaði ekki. Sama hvað Fríða beið…hún gat ekki vaknað.

Hún hafði verið á þessum stað í þrjú, löng ár. Hún hafði allt sem hún þarfnaðist, en hún var ein. Og þrátt fyrir allar þær jarðlegu eigur sem hún gat valið úr, leið henni daglega einsog stungið væri hníf í hana, og snúið, aftur og aftur. Slíkur var hinn andlegi sársauki…svo mikið saknaði hún Jóa og Helgu. Það var sérstaklega sárt um jólin, daginn sem slysið varð, daginn sem hún hafði alist upp við sem fjölskylduhátíð. Að geta ekki verið hjá sinni eigin fjölskyldu á þeim degi, særði hana meira en nokkuð annað gæti mögulega gert.

-

“Hvenær vaknar mamma, pabbi?”

“Vonandi bráðum Helga…vonandi bráðum…”