Ljós í myrkri Það var dimmur desembermorgunn. Andrea dró Hannes bróður sinn á snjóþotunni niður götuna í átt að leikskólanum. Það versta við að vera komin í jólafrí var að þurfa að vakna snemma til að fara með Hannes á leikskólann og sækja hann aftur seinnipartinn. Annars var hún glöð og ánægð og full tilhlökkunar, nú voru aðeins fjórir dagar til jóla. Á leiðinni mætti hún Jónu gömlu sem var greinilega á leið heim úr bakaríinu. Andrea þekkti Jónu gömlu vel. Þegar Andrea var yngri hafði hún verið tíður gestur á heimili Jónu og Kristjáns. Barnabörnin þeirra bjuggu úti á landi og Jóna gamla hafði mikla ánægju af því að fá Andreu í heimsókn til sín. En eftir að Andrea varð eldri hafði hún sífellt minni tíma til að líta inn til gömlu konunnar.

„Sæl Andrea mín“ sagði Jóna þegar þær mættust.
„Mikið ertu nú dugleg að ösla snjóinn svona með hann bróður þinn”.
„Já, maður lætur sig hafa það“ sagði Andrea. „Mikið ert þú snemma á ferli í dag“.
„Já, góða mín“ sagði Jóna. “Hann Kristján er svo óttalega ræfilslegur í dag að ég ákvað að rölta út í bakarí og gleðja hann með einhverju góðu með kaffinu. Annars hefði ég átt að bíða þar til apótekið opnaði, óttaleg vitleysa þessi flensa. Það er verst með jólaseríurnar, hann er búinn að vera svo slappur að hann hefur ekki treyst sér í að setja ljós á húsið eða klifra upp í trén. Vonandi gerist það nú samt fyrir jólin“.
„Já, það skulum við vona” sagði Andrea og kvaddi gömlu konuna um leið og hún hélt áfram leiðar sinnar með Hannes litla.

Þegar bjart var orðið ákvað Andrea að njóta jólafrísins til hins ýtrasta. Hún stökk upp í næsta strætisvagn og tók stefnuna á Kringluna. Í verslanamiðstöðinni var ys og þys. Lítil börn stóðu límd við jólaskreytingarnar og fullorðna fólkið gekk hröðum skrefum á milli verslananna, greinilega á síðasta snúningi með jólagjafakaupin. Andrea hugsaði með sér hvað það væri undarlegt hve margir hefðu tíma til að versla um miðjan daginn. Þurfti þetta fólk ekkert að vinna? Kannski varð það að taka sér frí úr vinnunni til að sinna jólagjafakaupunum. En það hlaut að vera gaman að vinna í búð þessa dagana, aldrei dauð stund. Andrea þurfti ekki að hafa áhyggjur af jólagjafastússinu, hún var búin að kaupa allar gjafirnar og allt skrautið. Hún var komin til að njóta þess að horfa á allt fólkið hlaupa á milli búða og til að hlusta á tónlistina og skoða jólaskrautið. Eftir að hún hafði labbað um allar þrjár hæðirnar og fylgst með amstri dagsins settist hún niður á kaffihús og fylgdist með fólkinu í kring. Slökkviliðsmönnum sem voru að selja slökkvitæki og reykskynjara, kvenfélagskonur að selja brauð og kökur, félagasamtökum að selja jólakort og litlu börnunum sem voru dregin inn í hverja verslunina á fætur annarri en þráðu þó bara jólin heitt og innilega. Hún leit á klukkuna þegar hún var búin með súkkulaðibollann. Já, það var kominn tími til að sækja Hannes.

Andrea var hálfnuð upp götuna með snjóþotuna þegar hún sá húsið hennar Jónu gömlu. Fyrir utan voru nokkrir bílar, sjúkrabíll og annar bíll, stór og svartur; það var líkbíllinn. Andrea sá bráðaliðina ganga þungum skrefum í átt að sjúkrabílnum, en þeir höfðu engan sjúkling með sér. Í því bili stöðvaðist lítill rauður fólksbíll fyrir utan húsið. Út úr honum steig séra Steingrímur sem hafði fermt Andreu síðasta vor. Hann var á hraðri ferð inn gangstéttina þegar Andrea kallaði á hann spyrjandi:
„Séra Steingrímur?“
„Ó Andrea mín, sæl vertu. Ég er á svolítilli hraðferð“.
„Hvað kom fyrir?“ spurði Andrea.
„Hann Kristján gamli er dáinn Andrea mín. Hann var búinn að vera veikur af flensu svo lengi og hann sofnaði bara í rúminu sínu vina mín“.

Andrea fékk tár í augun. Jóna gamla var búin að missa manninn sinn. Það var bara í morgun sem hún fór að kaupa góðgæti handa honum í bakaríinu og nú var hann dáinn. Hún var orðin ein í húsinu og það voru að koma jól. Himinninn fór að gráta stórum hvítum tárum.
Á meðan Andrea klæddi Hannes litla úr kuldagallanum var henni hugsað til Jónu. Aumingja Jóna var alein. Hana langaði mest til að heimsækja hana og hugga hana. En hún vissi ekki hvernig hún færi að því. Varla vildi hún heldur fá stelpuskjátu eins og hana til sín á þessum tíma. Um kvöldið var Andreu litið inn í garðinn hjá gömlu hjónunum. Þar var ekkert nema svarta myrkur.

„Ég vildi að ég gæti glatt hana Jónu gömlu” sagði Andrea við móður sína.
„Já, kannski er eitthvað smálegt sem þú getur gert fyrir hana seinna Andrea mín. En nú er best að trufla hana ekki. Dætur hennar koma suður strax í kvöld. Þær vilja víst koma föður sínum í jörðina fyrir hátíðarnar” sagði móðirin.

Andrea eyddi kvöldinu í að hugsa um hvað hún gæti gert til að gleðja Jónu og rétt áður en hún sofnaði vissi hún hvað hún ætti til bragðs að taka. Hún minntist þess sem Jóna hafði sagt henni þegar þær hittust á gangstéttinni. Það var enn þá dimmt í garðinum.

Andrea sá gömlu konuna ganga hægum skrefum frá húsinu í fylgd tveggja kvenna næsta morgunn, þær voru að fara í kistulagningu Kristjáns gamla, hélt Andrea. Nokkru síðar, er hún kom frá því að fara með Hannes í leikskólann, var ferð hennar aftur haldið í Kringluna. En nú var hún ekki kominn þangað til að skoða mannlífið, heldur til að kaupa vott af jólagleði handa Jónu gömlu. Hún flýtti sér sem mest hún mátti og hélt af stað með fullan poka af varningi í öllum regnbogans litum. Svo var ferðinni heitið heim til Jónu. Andrea tók af sér vettlingana og hófst handa. Hún festi perurnar, gular, rauðar og grænar, eina í einu við hélaðar grenigreinarnar og vafði snúrum gætilega umhverfis glugga og hurðir. Hún sótti stiga heim til sín og klifraði af gætni upp að þakskegginu og í hæstu greinarnar. Það var langt liðið á daginn þegar verkinu var lokið. Hún stakk snúrunum í samband við innstunguna hjá útiljósinu. Síðan fór hún heim, köld á fingrum en með hlýju í hjarta.

Þegar Jóna gamla kom aftur heim ásamt dætrum sínum og fjölskyldum þeirra kom hún ekki að dimmu húsinu heldur uppljómuðum garði skreyttum jólaseríum af öllum stærðum og gerðum. Henni hlýnaði um hjartarætur er hún sá alla dýrðina. Það var alveg eins og engill hefði komið með ljós inn í myrkrið.

Karat


Sagan má gjarnan vera með í jólasamkeppninni þar sem úrslit verða fundin út með könnun. Ef þið hafið hins vegar á móti því að stjórnendur séu með sleppi ég að setja hana í úrslitakönnunina. :)
Njótið vel.