Bara fóru.
Jólin ætluðu aldrei að koma. Tautaði litli drengurinn með snuðið í huganum. Hann hafði enn ekki hlotið þá náð að geta tjáð gremju sína. Hann saug suðið af áfergju. Þetta var ekki sanngjarnt. Hann hafði heyrt svo mikið talað um þessi jól að hann hafði beðið með tilhlökkun eftir þeim alveg síðan hann hafði öðlaðist vit til. Hans fyrstu jól áttu að vera löngu gengin í garð. Hins vegar fór það þannig að þau komu aldrei.
Foreldrar hans höfðu skilið. Hann var hjá móður sinni en systkini hans vildu frekar vera hjá föðurnum. Mamma hans hafði andvarpað alveg síðan að þau fóru. Hún hafði einu sinni sagt við litla drenginn sinn með snuðið að það gerði ekkert til þótt að hún myndi ekki halda upp á jólin, þar sem hann væri ekki komið með nógu mikið vit til þess að finnast eitthvað vanta. Hann varð nú frekar móðgaður þegar hann heyrði það og hafði ekki yrt á móður sína allan desember mánuðinn.
Hann hugsaði með kala til systkina sinna í faðmi jólanna. Móðir hans hélt aðeins kyrru fyrir í rúminu, snöktandi dag og nótt. Að sjálfsögðu fann hann til með móður sinni. Hann mundi ekki eftir henni svona dapri nema þá þegar hún hafði barist við að koma honum í heiminn í þrjátíu og sex klukkustundir samfleytt. Dapurleikinn kom þó ekki fyrr en hún hafði litið hann fyrst augum.
,,Æ, ég hélt að þú yrðir sætari eftir alla vinnuna. En þess í stað ertu eins og nýfæddur hvolpur. Svona allur hrukkóttur og kreistur í framan.”
Þetta voru fyrstu setningarnar sem drengurinn fékk að heyra. Faðir hans sagði aftur á móti: ,,Nei, hann er alveg eins og Kátur þegar hann fæddist! Eigum við að kalla hann Kát? Í minningu hans?“
Móðirin hafði litið hann hornauga og ákveðið að kalla drenginn þess í stað Dreng. Drengur Elías Friðbjörnsson. Drengur þoldi ekki nafnið sitt. Honum langaði einna mest að slíta það af sér. Af hverju gat hann ekki heitið nafni eins og Árni Þór og Jónína Lilja? Það voru nöfn systkina hans. Drengur? Hvaðan kom það eiginlega? Hann hét Elías í höfuðið á afa sínum sem lést klukkustund áður en hann kom í heiminn. Það gæti hafa útskýrt dapurleika móður hans. Elías hafði verið pabbi hennar. Eftir því sem Drengur vissi best hafði hann þjáðst af sjúkdómi sem var óumflýjanlegur. Engin lausn hafði verið til á honum.
Drengur hafði heyrt orðróm um að upphaflega átti hann að heita Ljótur Bolladrengur Friðbjörnsson eða bara Ljótur Drengur. Hann mátti þakka sínum sæla að svo skyldi ekki hafa farið. Því var líklega að þakka því snögga andaláti sem afi hans fékk að hann hafði hlotið þá náð að bera Elías sem millinafn en öðlast Dreng að fornafni. Mamma hans kallaði hann engu að síður stundum Ljótan Dreng þegar hann var óþekkur.
,,LJÓTUR DRENGUR!” Æpti hún að honum þegar hann hafði teygt sig í borðdúkinn með uppáhalds stellunum hennar með þeim afleiðingum að það féll með brothljóði á gólfið. Hún hafði stigið ógnvæaileg spor í áttina að honum þar sem hann reyndi að skríða undan henni. Hún náði samt taki á honum og setti hann í rimlarúmið án nokkurs leikfangs. Þá hafði hann einungis verið fimm mánaða eða hér um bil.
Þetta langa ár fannst honum hafði runnið í eina minningu. Móðir hans öskuill út í hann. Faðir hans undrandi. Systkinin ergileg. Systkini hans þoldu hann ekki og voru ekkert að fela það. Árni Þór var elstur, tíu ára og systir hans Jónína Lilja átta ára. Þau héldu mikinn fögnuð þegar þau höfðu haldið í föðurhúsin. Drengur skildi ekki enn af hverju foreldrar hans höfðu skilið. Það gæti hafa átt sér stað þegar hann fékk sinn venjubundna blund. Hann man aðeins eftir því að eitt kvöldið heyrði hann mikil háreysti og hurðarskell. Móðir hans hafði síðan fallið snöktandi á gólfið. Systkinin komið hlaupandi af efri hæðinni. Árni Þór skotið illu auga á Dreng, þar sem hann horfði á eftirmála atviksins úr rimlarúminu. Hann skellti hurðinni á hann. Drengur hafði hjúfrað sig með litla bangsann sinn og hágrátið. En ekki ein einasta sála kom að gá að honum. Athuga hvort hann vanhagaði eitthvað eða væri hræddur. Ekki ein einasta sála.
Drengur hafði uppfrá þeim degi dreymt um betra líf. En fundist lítil von um það nú þegar faðir hans var farinn. Faðir hans hafði alltaf sýnt honum vott af kærleik ólíkt hinum fjölskyldumeðlimunum. Frænka hans Anna Lísa hafði líka gert það. Hún var jafnaldri hans og bróðurdóttir föður hans. Þau höfðu skemmt sér oft saman.
Ekki ein einasta sála kom heldur að gá að þeim mæðginunum um jólin. Það var reyndar ekki alls kostar rétt því að faðir hans kom að athuga með hann en honum var svarað með hurðarskelli frá móður hans. Þannig svaraði hún reyndar öllum sem komu þessi löngu jól, ef frá er talin amma hans. Hún kom allavega til þess að líta á eftir honum. Hún hafði ávítað móður hans fyrir að koma ekki betur fram við Dreng en jafnframt sýnt henni skilning á því að hafa lent í tveimur áföllum með svo stuttu millibili. Fyrst að missa föður sinn og svo þetta.
Svo gerðist það einn dag, um gamalárskvöld að ókunnug manneskja kom að líta á móðurina. Það reyndist vera besta vinkona hennar. Eftir stutt spjall sem aðallega saman stóð af snökti frá móður hans, var hann tekin upp úr rimlarúminu og borin út.
,,Hafðu engar áhyggjur Drengur litli. Ég mun sjá vel um þig. Hún mamma mín þarf bara að fá að vera í friði.“
Drengur horfði upp á hana og trúði vart sínum eigin augum. Kannski var ósk hans loksins að rætast.
Vinkonan sá vel um Dreng litla eins og hún hafði lofað. Talaði við hann eins og manneskju og sinnti hans grunnþörfum. En sá dagur kom alltof fljótt að hann yrði að snúa aftur. Daginn sem hann varð eins árs, þann 4. janúar sneri hann aftur.
Haldin var þó ærleg veisla honum til heiðurs. Kannski myndi allt breytast til hins betra. Móðir hans leit allavega út fyrir að hafa saknað hans. En smá saman fór þetta aftur í sitt gamla ástand. Þannig liðu árin og brátt varð Drengur 6 ára gamall.

Fyrsti skóladagurinn rann upp. Bjartur dagur. Drengur stóð með skólatöskuna tryggilega fest við bak hans við hlið vinkonunnar góðu.
,,Ertu viss um að þú viljir ekki fylgja honum, Dísa?”
Móðir hans hristi höfuðið:,,Far þú bara með hann, Dóra“. Drengur andvarpaði en hafði búist við þessu.
Hann hafði aldrei fengið leikskólapláss þannig að þetta var í fyrsta skipti sem hann myndi hitta aðra krakka á hans aldri, ef frá var talin frænka hans.
Anna Lísa var í sama bekk og hann. En hún var eitthvað svo afundinn við hann, líkt og hún þekkti hann ekki. Þau höfðu reyndar ekki sést það mikið upp á síðkastið. Síðast hafði það þó verið í afmælisveislunni hennar fyrir þremur mánuðum.
Hún var umkringd stelpnahópi. Þær hlógu dátt. Eftir örlitla stund áttaði hann sig á því að þær væru að hlæja að honum. Buxurnar hans voru allt of stórar á hann, enda af tíu ára bróður hans og bolurinn sömuleiðis. Peysan var það eina sem var nógu stórt á hann enda hafði systir hans verið frekar smávaxinn.
Hann ullaði á þær. Þeim brá en svo hlógu þær bara enn hærra. Vinkonan hastaði á hann:,,Þetta máttu ekki gera, Drengur Elías.” Stúlkurnar hlógu enn hærra:,,Drengur. Þú heitir Drengur. Ertu kannski ljótur drengur“?
Drengirnir fóru að taka þátt í hlátri stúlknanna. Anna Lísa var þó forsparkarinn.
Drengi sárnaði og æpti síðan að þeim ljótustu orð sem hann hafði lært:,,ÞEIGIÐ ÞIÐ TUSSURNAR YKKAR OG LÍKA ÞIÐ TYPPALINGAR”!
Þögn sló á hópinn. Vinkonan beygði sig niður að Drengi sem var orðið sótrauður í framan:,,Drengur Elías, þú ert ljótur drengur. Svona segir maður ekki“!
Mæðurnar horfðu hatursfullum augum á Dreng ásamt börnum sínum. Hann heyrði þær hvísla sín á milli:,,Ósköp er þetta orðljótur drengur”.
,,Réttast væri að þvo muninn hans með sápu“.
,,Réttast væri að flengja afstyrmi,” sögðu aðrar.
Drengur byrjaði að gráta og hljóp í burtu þegar krakkarnir byrjuðu aftur að æpa að honum háðsglósur:,,Drengur, skítadrengur. Flengdur! Illa geymdur og gleymdur. Skítadrengur“. Foreldrarnir sussuðu lítillega á börnin en sum þeirra byrjuðu að æpa hærra.
Vinkonan hljóp á eftir honum og skipaði honum að stoppa. En hann hélt áfram að hlaupa. Hann var hins vegar svo stuttfætur að hún var enga stund að ná honum.
Hvað þykist þú vera að gera?
Drengur grét og svaraði engu.
Svona gerir maður ekki.
,,Krakkar ljótir! Ég vil ekki fara í skóla”!
,,Menntun er mikilvæg! Komdu nú“.
En Drengur hreyfði sig ekki. Vinkona tók hann þá bara upp og hélt á honum undir hendinni, þannig að afturendinn sneri fram og fram aftur.
,,Þarna kemur skítadrengurinn”. Æpti einn strákanna af hamingju.
,,Þegiðu hálfvitinn þinn“! Drengur fann að vinkonan sló á botninn á honum.
,,Hættu Drengur”!
Vinkonan varð að halda Drengi kyrrum í sæti sínu.
,,Ætlið þið ekki að vera rosa dugleg í skólanum í vetur“? Spurði brosmild kennslukona.
,,Jú”! Sögðu öll börnin í kór en Drengur æpti ,,Nei“!
Þögn sló aftur á hópinn.
,,Ég vil ekki vera hérna”!
,,Drengur, þó“. Vinkonan brosti afsakandi til sárhneyksluðu foreldrana.
,,Krakkar eru vondir. Drengur vill út. Krakkar eru ógeðslega vondir og leiðinlegir”!
Vinkonan fór með Dreng út og hundskammaði hann. ,,Viltu að ég segi mömmu þinni frá hegðun þinni“?
,,Mér er skítsama”!
Vinkonan skildi Dreng eftir úti á meðan hún fór sjálf inni í kennslustofuna.
Drengur greip tækifærið og hljóp út.
Hann hljóp og hljóp. Hann var næstum fyrir bíl. En honum var sama þótt að ökumaðurinn æpti reiðilega að honum. Honum var sama um allt. Hann vildi finna pabba sinn.
Hann átti heima rétt hjá. Hann hringdi bjöllunni. Árni Þór kom til dyra, þá sextán ára gamall:,,Drengur? Hvað ert þú að gera hér“?
,,Ég vil pabba”!
Árni Þór hleypti honum inn og lokaði hurðinni:,,Pabbi er ekki heima“.
,,Ég bara bíð”.
,,Gjörðu svo vel“. Árni Þór vísaði honum inn í stofuna.
Jónína Lilja sat í sófanum með opna, þykka stærðfræðibók í kjöltunni og horfði á Nágranna.
,,Drengur”?
,,Ég vil ekki heita Drengur lengur! Ég vil heita Gunnar!“
,,Ég skil ekki hvað gengur að honum.” Árni Þór horfði spyrjandi á systur sína sem yppti aðeins öxlum.
,,Drengur, róaðu þig. Pabbi kemur rétt strax. Þá geturðu sagt honum hvað er að angra þig“. Árni Þór lét hann setjast niður í sófann og tók um axlirnar á honum.
,,ÉG HATA SKÓLANN”!
,,Af hverju?“ Jónínan leit upp frá nágrönnum.
,,Krakkar eru ljótir og leiðinlegir”!
,,Við vitum það alveg. En svona er lífið. Viltu horfa á teiknimynd?“ Árni Þór sýndi honum uppáhalds teiknimyndina hans.
Drengur róaðist. Þau vissu greinilega eitthvað um hann. Hann kinkaði kolli.
Eftir að myndin var næstum hálfnuð kom faðir þeirra heim. Árni Þór tók á móti honum:,,Pabbi, sjáðu hver er kominn.”
,,Drengur litli? Hvað ert þú að gera hér?“
,,Pabbi, ég vil ekki vera hjá mömmu.”
,,Af hverju ekki?“
,,Mamma vond. Krakkar vondir. Skóli leiðinlegur.”
,,Veit mamma að þú ert hérna?“
,,Nei”.
,,Viltu ekki láta hana vita. Hún er örugglega dauðhrædd um þig. Svona gerir maður ekki, Drengur litli“.
,,Ég vil ekki láta mömmu vita. Hún vill vita neitt af mér”.
,,Það er ekki satt. Ég skal hringja í hana“.
En í sömu mund hringdi dyrabjallan. Vinkonan steig inn fyrir þegar að Árni Þór hafði opnað fyrir henni.
,,Þarna ertu, Drengur”.
Drengur gekk aftur á bak og faldi sig á bak við föður sinn.
Faðir hans leit aftur fyrir sig og aftur á vinkonuna:,,Gerðist eitthvað“?
,,Einhverjir krakkar voru vondir við hann. Komdu Drengur”.
,,Nei! Ég vil vera hjá pabba“!
,,En þú átt heima hjá mömmu”. Pabbi hans færði sig aftur fyrir hann.
Vinkona rétti út höndina.
Drengur beit í hana.
Vinkonan hljóðaði upp.
,,Drengur þó“! Pabbi hans tók utan um hann en Árni Þór athugaði bitsárið á hendi vinkonunnar.
,,Hún er vond! Hún meiddi mig”!
Pabbi hans leit tortrygginn á vinkonuna. Hún hristi höfuðið reiðilega.
,,Drengur, nú ferð þú heim og ekkert múður“.
En Drengur hélt fast í buxnaskálmina hans.
,,Ekki viltu að pabbi verði reiður”?
Drengur sleppti takinu og hristi höfuðið.
,,Gott, jæja farðu núna með henni Dóru“.
En Drengur tók á rás upp stigann og faldi sig undir rúmi bróður síns.
,,Drengur”! Pabbi hans fann hann á örskotstundu.
,,Ég vil ekki fara. Ég vil vera hérna. Af hverju má ég ekki vera hérna“!
Pabbi hans kenndi í brjósti um hann eitt andartak en benti síðan reiðilega á stigann. Drengur hlýddi.
Er heim var komið beið mamma hans við eldhúsborðið.
,,Þarna ertu! Hún hljóp á móti honum og faðmaði hann”.
Drengur losaði sig úr taki hennar.
,,Drengur“?
Hann hljóp upp í herbergið sitt, skellti hurðinni og grúfði sig í koddann.
Móðir hans kom örstuttu síðar upp og heyrði snöktið í honum.
,,Drengur”?
En hann svaraði engu.
Örskömmu síðar fór hún fram.
Hann neitaði að fara fram úr þegar hún vakti hann fyrir skólann.
,,Jæja, þú um það“. Hún fór eftir töluvert þref.
,,Ég vil vera hjá pabba”: Muldraði hann í útskældan koddann.
Hann hreyfði sig varla úr herberginu en eftir þrjá daga fékk mamma hans nóg og dró hann fram úr.
,,Þetta gengur ekki lengur, Drengur“.
Hann öskraði af reiði þar sem hann hélt traustu taki um rúmstólpann.
,,Drengur”!
,,Ég fer ekki“!
,,Drengur Elías Friðbjörnsson. Þú kemur núna á stundinni”.
,,Nei“!
,,Þá næ ég í hann pabba þinn”!
,,FÍNT“!
,,Æ, Drengur minn. Komdu nú”. Um leið og hún hafði sleppt orðinu missti hann takið.
Hún dró hann út úr herberginu.
,,Nei, nei, nei“!
Hún neyddi hann til þess að fá sér morgunverð.
,,Nei, nei, nei”!
Hún neyddi hann til þess að klæða sig.
,,Nei, nei, nei“!
Bursta tennurnar.
,,Nei”!
Og upp í bíl.
,,Ég vil ekki“!
,,Þú verður að fyrirgefa honum”. Hún rétti hann yfir til kennslukonunnar.
,,Hann hefur haft það erfitt.“
,,Því trúi ég. Hann hefur ekki mætt í þrjá daga”.
,,Ég vil ekki! Ég vil ekki“!
,,Svona, svona. Þetta verður bara gaman”.
,,Nei“!
,,Bless, Drengur minn”.
,,Nei“!
,,Komdu nú, drengur. Það verður bara gaman hjá okkur, heldurðu það ekki”?
,,Nei. Ég bít þig ef þú sleppir mér ekki! Ég vil til pabba! Ég vil pabba“.
,,Vertu rólegur. Þú ferð fljótlega”.
Þessi orð virtust róa Dreng. Hann æsti sig ekkert fyrr en í frímínútunum. Þá fyrst létu krakkarnir til skara skríða.

,,Hvar læri þú öll þessi ljótu orð, ljóti drengur? Heima í Ljótalandi?“ Stærðarinnar drengur með andstyggilegt glott hafði króað hann af út við útvegg skólans. Stór krakkahópur umkringdi þá.
,,Nei! Þú ert sjálfur ljótur. Ljótur og leiðinlegur”.
,,Ég held að við verðum að kenna þér að tala betur. Náið í sápu“!
Nokkrir drengir hlupu inn í skólann og komu stuttu síðar út með fullar hendur af sápu.
,,Nei! Nei”! Þeir þröngvuðu sápunni upp í hann.
Hann hrækti henni út úr sér. Kúgaðist.
Krakkarnir hlógu.
Hann féll niður á grúfu og spýtti í gríð og erg.
,,Þetta kennir þér að tala betur“! Höfuðpaurinn sagði drengjunum að setja meiri sápu.
,,Hvað er í gangi!”
Krakkarnir opnuðu hringinn og inn í miðjuna kom kennslukonan.
,,Hvað eruð þið eiginlega búin að gera barninu“? Hún grúfði sig yfir Dreng og lyfti honum upp.
,,Þið farið öll til skólastjórans. Hvert og eitt ykkar! Foreldrar ykkar munu heyra af þessu”!
,,En Manni gerði þetta“. Lítil stelpa með fléttur horfði sakleysislega á kennslukonuna.
,,Lygari! Þú gerðir þetta sjálf!” Manni steig ógnandi í áttina til stúlkunnar.
,,Jæja, Manfreð Bóasson. Á skrifstofu skólastjórans núna“!
,,Hún lýgur! Ég gerði ekki neitt”!
Kennslukonan svaraði þeim ekki heldur fór með Dreng inn í skólann. Á leið sinni þangað sendi hún krökkunum illt augnráð.

Drengur hrækti og spýtti margoft í vaskinn hjá hjúkrunarkonunni.
,,Þetta þýðir ekkert vinur, það er þannig efni í sápunni að þú losnar ekki svo auðveldlega við bragðið. Hérna, drekktu mjólkina. Það dregur úr ertingu sem efnið getur valdið á meltingarveginum á meðan þau eru að brotna niður í byggingarhluta sína“.
Drengur starði á hjúkrunarfræðinginn með aðra ermina borna upp að vörunum, til þess að þurrka burt hrákann.
Hún hló og rétti honum litla, bláa mjólkurfernu.
Drengur gretti sig með mjólkina í hendi:,,Mér finnst mjólk vond”.
,,Jæja, en það er það eina sem þú getur notað í augnablikinu og verður því að sætta þig við það. Sem betur hefur sáputegund ekki sterk eituráhrif hérna í skólanum þannig að við þurfum ekki að fara með þig upp á eiturmiðstöðina“.
Drengur skildi ekkert hvað hún var að segja, annað en það eitur var eitthvað hræðilega slæmt og hann sagði því það eina sem honum datt í hug í þessari stöðu:,,Ég vil fá mömmu”.
Í fyrsta skipti á ævi sinni bað hann um mömmu sína en ekki pabba. Eflaust bara einhver ósjálfráð viðbrögð hjá honum, þar sem börn biðja alltaf um móður sína eða það hafði hann allavega heyrt.
,,Vissulega vinur, hún er á leiðinni ásamt restinn af fjölskyldu þinni“.
,,Fjölskyldu”? Muldraði Drengur með sér þegar hann hlammaði sér upp á skoðunarbekkinn með mjólkina í annarri hendi.


Drengur sem hafði beðið rólegur, sveiflandi fótunum á skoðunarbekknum, brotnaði algerlega niður þegar hann sá móður sína birtast föla í dyragættinni. Þegar hann hljóp til hennar með útrétta hendurnar sá hann föður sinn standa á bak við hana áhyggjufullan á svip, ásamt systkinum hans. Drengur breytti samt ekki um stefnu og tók utan um móður sína, eins og hann hafði þráð í öll þessi ár. Í þetta skipti vildi hann fá faðmlag.
Hann brast í grát í fangi hennar en tárin voru ekki tákn sorgar. Hún strauk honum blíðlega um kollinn. Orð voru óþörf. Hann brosti til hinna í gegnum árin sem horfðu undrunaraugum á hann.
Honum leið eins og hann hefði loksins fengið að upplifa jólin höfðu verið stolin frá honum í byrjun ævinnar, með öllum sínum kærleik. Vissulega hafði hann fengið gjafir öll jólin nema þau fyrstu, sem voru reyndar bætt upp með risastórum leikfangabíl en það var bara ekki það sama.
Þrátt fyrir allt það sem á undan hafði gengið og var engan veginn lokið var hann í fyrsta sinn hamingjusamur. Hann var hættur að vera einn.


Þessi saga á að vera með í jólasamkeppninni ef skilafrestur er ekki útrunninn og ef hún er nógu jólaleg. Mér finnst nefnilega fjölskylda það mikilvægast við jólin og vildi því nota jólin meira sem hálfgerða myndlíkingu en ekki í formi sem við erum vön að sjá þau. Þótt að vissulega hafi verið minnst á jólin þótt að þau hafi aldrei mætt í eigin persónu. En jæja, ég ætla að hætta þessu röfli og vona að þið njótið sögunnar hvort sem hún verður með í samkeppninni eða ekki. :)
Rosa Novella