19.desember

“Mamma má ég fá svona?”
Dóttir mín leit á mig og benti á prinsessu-barbie.
“Gerðu það mamma.”
Hún horfði biðjandi á mig.
Ég dæsti, leit á verðmiðann og svo ofan í hálftómt veskið mitt.
“Kannski færðu þetta í jólagjöf,” sagði ég, þótt ég vissi að það myndi aldrei gerast.
“En mamma, Lísa fékk svona, ekki í jólagjöf, og líka Bára og Jóna,” sagði Ólöf, fjögurra ára dóttir mín.
“Elskan mín, ég á bara ekki pening núna,” sagði ég og horfði djúpt í augu dóttur minnar, sem fylltust tárum.
“Víst,” æpti hún og reif af mér veskið mitt. “Víst.”
Hún tók upp fimmhundruðkrónu seðil og veifaði honum.
“Víst áttu pening.” Hún byrjaði að gráta. “Þú ert bara vond mamma sem vill ekki gefa mér neitt.”
“Nei Ólöf, það er ekki satt,” sagði ég og tók af henni veskið mitt.
Hvernig gat hún sagt þetta?
Ég hafði reynt að gefa henni allt.
En ég var bara einstæð móðir sem vann á bókasafni við lág laun.
“Víst ertu vond,” grenjaði Ólöf. “Allir krakkarnir eiga pabba nema ég. Allir eiga flott dót, en ég á bara ljótar dúkkur. Þú ert bara asni.”
“Heyrðu mig nú Ólöf,” sagði ég og dró hana með mér út úr búðinni. “Það er ekki mér að kenna að pabbi dó.”
“Víst,” grenjaði hún. “Hann var að sækja þig. Ég man það.”
Ég roðnaði.
Það var reyndar satt.
Hann hafði verið að sækja mig á árshátíð fyrir einu og hálfu ári, en það var samt ekkert mér að kenna.
Eða var það kannski mér að kenna.
Ég sneri við og stormaði inn í búðina með dóttur mína.
Ég bað hana að hlaupa niður og kíkja hvort hún sæi eitthvað fallegt fyrir Þórð, frænda hennar.
Ég labbaði að hillunni með prinsessu-barbie og tók einn kassa úr hillunni.
Ég yrði að gera eitthvað fyrir dóttur mína, hún átti það skilið.
Ég borgaði með visa.
Posinn var óvenjulengi að taka við kortinu mínu.
Það varð bara að vera nóg inn á því.
En loksins tók hann við því.
Búðarkonan pakkaði kassanum inn í rosalega fallegan pappír og setti slaufu.
“Mamma,” heyrði ég Ólöfu kalla. “Sjáðu hvað ég fann.”
Hún lyfti jólaspilastokk.
“Flott, eigum við að gefa Þórði þetta?” spurði ég og leit á verðið.
Hann var svolítið dýr, en samt ekki of.
“Já,” sagði Ólöf og setti hann á búðarborðið.
Ég borgaði fyrir spilin og setti ofan í pokann hjá pakkanum.
Við löbbuðum út úr búðinni, hönd í hönd.
“Mamma,” sagði Ólöf og brosti. “Ég elska þig.”
Ég brosti og lyfti henni upp á háhest.
“Og ég elska þig.”


24.desember

Ég horfði undir litla gervi jólatréið okkar.
Þarna voru tveir pakkar til mín, annar sem virtist vera mynd, og hinn einhver bók frá vinnunni.
Svo voru tveir handa Ólöfu, stóri frá mér sem hún hafði þuklað á allan daginn og svo einhver sem leit út fyrir að vera bók frá Þórði frænda sínum.
“Mamma má ég byrja að opna pakkana?” spurði Ólöf mig og brosti eins og engill. “Gerðu það.”
“Já, en byrjaðu á þessum litla, maður á alltaf að enda á stóru pökkunum.”
“Allt í lagi, en þá byrjar þú á þessum,” sagði hún og rétti mér pakkann frá vinnunni. “Því maður á að enda á stóru pökkunum.”
Ég brosti.
“Allt í lagi.”
Hún opnaði pakkann frá frænda sínum.
Hann innihélt bókina “Lötu Grétu”.
Minn innihélt hinsvegar “Matreiðslubók Hagkaupa”.
Hún tók stóra pakkann upp og setti í sófann.
“Má ég opna hann mamma?” spurði hún og setti upp prakkarsvip.
“Auðvitað.”
Hún reif umbúðirnar af og svipurinn sem færðist yfir andlitið var undursamlegur.
Hún opnaði kassann og byrjaði strax að leika sér.
Eftir svolitla stund leit hún á mig.
“Viltu ekki opna jólagjöfina frá mér?”
“Ég hef þegar fengið bestu jólagjöf í heimi.”


Þessi saga á að taka þátt í jólasagnasamkeppninni