Jólin mín Mín Jól

Ákvað að smella inn eitt stykki grein hérna, svona upp á flippið.

Allaveganna er ég svo mikil jólamanneskja að það er ekki fyndið, það ganga sögur um það, og mamma líka. Við erum alræmdar í familíunni fyrir að vera algjörir jólahausar. Þar að auki elskum við báðar að föndra og alltaf mest fyrir jólin. Ég reyni nú alltaf að halda aftur af mér eins mikið og ég get, það gengur nú stundum misvel, en ef ég myndi ekki gera það myndi ég örugglega vera komið með allt jólaskrautið upp í júlí! :P

Jæja, eitt af því sem ég vildi segja frá er jólaskrautið sem fer á tréð hjá okkur, það er nebbla ekki eins og hjá flestum. Ég geri ráð fyrir að einhverjir hafi heyrt um Hallmark, þeir búa til dæmis til kort, mjög fín. Allaveganna, þá pöntum við alltaf jólaskraut frá þeim, nokkur á hverju ári, þannig að nú erum við komin með yfir 100 stykki. Ég man ennþá eftir fyrsta skrautinu sem við fengum. Málið var að fjölskylda bestu vinkonu minnar þegar ég var lítil var alltaf með svona skraut og þegar mamma var ófrísk af litla bróður mínum, sem er nota bene núna orðinn 11 að verða 12, gaf mamma vinkonu minnar henni eitt skraut. Það sem hún fékk var lítil býfluga sem á stóð mom-to-bee, svona smá leikur að orðum. Annars er ýmist hægt að fá bara svona stök stykki, eins og þetta sem mamma fékk, eða þá seríur, þá kemur út eitt á ári. Þar má nefna svona aðal seríuna “mína” en sú heitir “Mischievous Kittens” þá er köttur sem er að gera eitthvað að sér, til dæmis var eitt ár þar sem að kötturinn var hangandi á fuglabúri. Í ár þá er kötturinn búinn að rífa upp jólapakka og er að leika sér með slaufuna, en myndin sem fylgir með greininni er einmitt af honum. Eflaust finnst mörgum þetta ekki mjög jólalegt jólaskraut, og það er sumt af því sem er kannski ekkert en það er líka fullt af skrauti sem er mjög sætt og jólalegt.

Annað sem er svona mjög spes hjá minni fjölskyldu er 1. des. Þá förum ég og mamma og yfirleitt annað hvort amma eða systir mömmu og systkini mín í jólanáttföt og jólainnniskó, fáum okkur Queso (borið fram keisó) og horfum á jólaspólu. Mismunandi er hvaða spóla verður fyrir valinu en það hefur oftast verið Home Alone 1 eða 2. Það hefur reyndar líka komið fyrir að við höfum horft á The Santa Clause. Nú eru þið ábyggilega að velta fyrir ykkur hvað Queso er. Já, það er sem sagt Tex-Mex ostasósa sem er mjög sterk (fyrir óvana ;P), maður dýfir svona Doritos Dippas ofan í það, ógeðslega gott.

Jæja, svo í kringum 10. des er farið í jólatrés leit. Við pössum okkur alltaf að fara nógu snemma þar sem við brenndum okkur á því að fara of seint fyrir nokkrum árum. Það er reyndar ekkert skrítið að við höfum farið seint því þetta árið vorum við að flytja inn í nýja húsið okkar, 21. des! Nota bene kl. 4 á aðfangadag voru ég og litli bróðir enn að reyna að klára að skreyta jólatréð og það var ekki einu sinni allt jólaskrautið sett á. Svo voru litlar aflklippur af rafmagnsvírum út um alla stofu þar sem pabbi ákvað að tengja allt rafmagn í húsinu sjálfur. Allaveganna, sennilega á Þorláksmessu, þá reyndum við að leita að tré. Þá lentum við akkúrat á því ári sem var jólatrés skortur. Enduðum uppi í brekku rétt fyrir utan Mosfellsbæ að reyna að saga niður tré í myrkrinu. Ekki það að við höfum verið að stelast til þess, við borguðum alveg fyrir það og það var fullt af fólki þarna. Þannig að þarna í myrkrinu reyndum við að finna tré sem liti þokkalega vel út “Lítur þetta ekki vel út?” “Jújú þetta er fínt, tökum það bara.” Við skulum bara segja að það hafi ekki verið eins fallegt þegar komið var heim í birtuna í stofunni. Mamma heldur því fram alveg til þessa dags að ég hafi verið nærrum því farin að grenja en ég neita því alfarið. :P Þannig nú pössum við okkur alltaf að fara tímanlega. Þar að auki viljum við alltaf hafa stórt tré, sérstaklega þar sem við erum með svona 5 metra háa lofthæð. Eða réttara sagt ég og mamma viljum alltaf hafa stórt tré, ég held að pabbi yrði alveg sáttur við svona hálfs metra :P. Og ef einhver nefnir við mig gervitré, þá kýli ég hann kaldan:P

Og já. Jólatónlistin. Við eigum nú alveg slatta af jólatónlist en það eru fjórir diskar sem standa alveg lengst upp úr, samt erum við búin að eiga þá svo lengi, alveg síðan ég var svona 4-5 ára, en ég er að verða tvítug. Þessir diskar heita The Time-Life Treasury of Christmas, Volume A, diskur 1 og 2, og Volume B, diskur 1 og 2. Þessir diskar innihalda hin ýmsu klassísku lög, t.d. uppáhaldið mitt, The Christmas Song (Chestnuts Roasting), og eru þau sungin af söngvurum eins og Frank Sinatra, Nat King Cole, Bing Crosby og fleirum. Þessir diskar eru geymdir alveg þangað til rétt fyrir jól, svona alveg háklassíkin á mínu heimili.

Svona nokkrum dögum fyrir Þorlák þá er tréð sett upp, nota bene bara tréð ekkert skraut eða solleis sko!, til þess að leyfa því að jafna sig. Yfirleitt kvöldið fyrir Þorlák þá eru seríurnar settar á, en það tekur alveg heilt kvöld fyrir sig, í fyrra vorum við með örugglega 8-10 seríur. Svo á Þorlák þá er allt skrautið sett á, og ég get sagt þér að það tekur alveg slatta af tíma, sérstaklega þar sem að það þarf að passa allar umbúðir utan af þeim og seta aftur í réttan kassa, annars getur skrautið skemmst.

Og nú er komið að aðalmálinu. Aðfangadagur.

Dagurinn hjá mér byrjar þannig að ég og mamma og systur hennar og frænkur fara í kirkjugarðinn í fossvoginum í kringum tíuleytið, en þar eru langamma mín, langafi og dóttir þeirra grafin. Mamma býr alltaf til svona krossa úr greni og skrauti, soldið eins og aðventukrans, nema bara kross, til þess að setja á leiðin. Síðan förum við heim og fáum okkur hádegismat en það er eitthvað sem við geymum fyrir aðfangadag, og það gerir spenninginn enn meiri. Reyndar er þetta kannski ekki mjög jólalegur matur en einhvern veginn þróaðist þetta svona á heimili mínu. Málið er að hér er kominn annar Tex-Mex réttur, kallað Breakfast Burrito’s. Skýringin á þessu er að við bjuggum í Texas í um 7 ár þannig það eru enn miklar leifar af því hér. :P Þetta er búið til þannig að þú býrð til hrærð egg og steikir beikon, ekki of mikið, frekar lint. Trust me, það er best þannig í þennan rétt, því yfirleitt finnst mér beikon ekki gott nema það sé nánast of steikt. Svo tekur maður hrærðu eggin og beikonið og blandar saman. Síðan tekur maður tortillur og skellir blöndunni á, bætir á ost og salsa og voila! Þetta er ready! Ég vil taka það fram að það væri glæpur að nota venjulega dósa salsa. Mamma býr það alltaf til fersk, mjög sterkt og mikið cilantro (held það sé skrifað svona) en það er krydd notað gríðarlega mikið í mexíkanskum mat. Svo fer ég með litlu systkini mín, 11 og 6 ára, að fara með þá fáu pakka sem er ekki búið að sækja eða fara með. Reyndar gerði pabbi það alltaf en eftir að ég fékk bílpróf þá hef ég gert það. Þar sem það er alltaf stoppað smá og spjallað þá erum við yfirleitt ekki komin fyrr en um 4 aftur heim og þá er bara kominn tími til að fara í jólabaðið. Það er kannski soldið snemmt en samt nauðsynlegt hjá okkur. Við leggjum yfirleitt af stað um svona 5-5:30 í kirkju til þess að ná góðum sætum. Við förum alltaf í Langholtskirkju þótt við búum í kópavogi en mamma og pabbi voru gift þar og ég og litli bróðir skírð þar. Eitt sem mér finnst ekta jóla er að keyra í gegnum bæinn seint á aðfangadag á leið í og úr kirkju og nánast enginn á ferð. Svo fer eftir hvort afi og amma séu hjá okkur hvað fara margir í kirkjuna. Þau eru hjá okkur önnur hver jól, hin jólin eru þau hjá bróður hans pabba, en þau eru foreldrar hans. Þannig þegar við erum ein fara 4 í kirkjuna, ég, pabbi, bróðir minn og systir. Mamma er yfirleitt heima og klárar að elda matinn, og ef amma og afi eru, þá er amma þar líka.
Ég man eftir hvað mér fannst ógeðslega leiðinlegt að fara í kirkju þegar ég var yngri en núna þegar ég er orðin eldri finnst mér þetta bara fínt. Eitt af því sem ég elska er að hlusta á söngkonuna sem syngur alltaf í Langholtskirkju á aðfangadag. Hún er með alveg rosalega rödd og nær vel háu nótunum. Þegar hún tekur Ó, helga nótt þá fæ ég alveg gæsahúð.
Svo þegar við komum heim fáum við systkinin að taka upp eina litla gjöf, ef við erum góð í kirkjunni. :P Svo er maturinn. Í forrétt er alltaf humar í rjómasósu og í aðalrétt er kalkúnn. Svo er farið í það að taka upp gjafirnar. Þegar ég var yngri las ég alltaf miðana á pökkunum en í seinni tíð hefur það færst yfir á litla bróður. Eina sem ég vil alltaf fá er bók. Án þess að fá bók finnst mér jólin vera hol. :P Þetta byrjaði eila þegar ég var svona 14 ára og fékk fyrstu Harry Potter bókina í jólagjöf. Ég man eftir að ég horfði á þetta og hugsaði “Pfft, hvaða rugl er þetta?!” Ég lét mig hafa að byrja á henni um kvöldið og um 4 þá var ég búin með hana.


Svo er jóladagur. Þá er farið í jólaboð hjá fjölskyldunni hans pabba, kl 1! Eitthvað sem ég er ekki alveg sátt við þar sem að mig langar yfirleitt helst að liggja heima í náttfötunum og lesa nýju bókina mína. En maður lætur sig hafa það og þetta er alveg fínt, bara mætti kannski hafa það aðeins seinna. :P

Jæja, nú ætla ég að hætta, aflaust nennir enginn að lesa þetta, þetta er svo langt! Það var nú ekki meiningin þegar ég byrjaði á þessu en ó jæja.
'It's gonna be AWESOME!' - Barney Stinson