Hvernig á jólatréð að vera?

Nú fer að styttast í það að fólk fari að huga að því að skreyta jólatrén sín. Ég er vön að skreyta tréð í vikunni fyrir jól og geri ráð fyrir að það verði fljótlega eftir næstu helgi þetta árið. Sumir skreyta jólatréð sitt þó ekki fyrr en á Þorláksmessu, en mér þykir í góðu lagi að skreyta það aðeins fyrr til að njóta þess lengur.
Margar gerðir eru til af jólatrjám eins og þið vitið og misjafn er hvort fólk notar lifandi tré eða gervitré. Ég nota gervitré og geri það af nokkrum ástæðum sem eru m.a. þær að það sparar peninga til lengri tíma litið að geta alltaf notað sama tréð, ég aldist upp við að hafa gervitré og hafði á yngri árum ofnæmi fyrir greni. Sumum finnst algjörlega ómissandi að hafa lifandi tré og þá aðallega út af grenilyktinni. Reyndar finnst mér hún góð og ætla að kaupa nokkrar greinar þegar nær dregur jólum og búa til skreytingar til að fá smá grenilykt í húsið.
En ég ætlaði ekki að tala um grenitré eða önnur jólatré sem slík, heldur hvernig við skreytum þau. Margir hafa sínar eigin hefðir og skreyta tréð sitt eins ár eftir ár en aðrir breyta til. Ég hef í gegnum árin og ætla að halda því áfram, notað marglita einfalda ljósaseríu á tréð mitt. Ég nota kúlur af mörgum stærðum og gerðum og í mörgum litum. Ég nota líka alls konar litlar fígúrur sem ég hengi á tréð og jafnvel brjóstsykursstafi. Síðan set ég svona glitrandi bönd á tréð og stjörnu á toppinn (reyndar hefur það verið breytilegt frá ári til árs hvort ég nota stjörnu eða svokallaðan topp).
Ég læt tréð mitt standa á teppi og hef hvítt vatt (e.k. ull), sem táknar snjó undir því líka. Margir sem eiga eitthvað fallegt jólaskraut láta það standa undir trénu.
Ég hef veitt því athygli hversu ólík jólatrén eru hjá fólki og í verslunum. Sumir nota t.d. bara einn eða tvo liti af skrauti á tréð aðrir blanda öllu saman og svo framvegis. Ég hef einnig tekið eftir jólatrjánum í Ikea sem eru oft svolítið sniðug, en á þau er ýmiss varningur úr búðinni hengdur, t.d. barnadót í barnadeildinni.

En hvað segið þið? Hvernig er jólatréð skreytt hjá ykkur? Hvaða hefðir eru á ykkar heimilum? Hvað finnst ykkur flottast?

Karat