Jólakort Á morgun fer nóvermbermánuður í hönd og þá fer að styttast í að fólk fari að huga að jólakortunum. Jólakortin berast á milli manna í desember og Póstinum þykir mjög þægilegt þegar fólk er snemma í því að senda jólakortin, sérstaklega þegar senda á til útlanda og oft fjarlægra heimsálfa. Þetta segi ég sem gamall starfsmaður hjá Póstinum, en fyrir nokkrum árum vann ég við að bera út jólapóstinn. Þá var mikið að gera og mikið fjör á pósthúsunum. En ég ætla nú ekki að tala um bréfbera eða pósthús heldur sjálf jólakortin. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að menn sendi vinum og ættingjum jólakort í desember. Ofar en ekki sendir maður fólki sem maður hittir sjaldan jólakort og lætur þannig vita svolítið af sér. Sumir skrifa smávegis í kortin um það sem gerst hefur í lífi þeirra á árinu sem er að líða og ef eitthvað sérlega merkilegt hefur á dagana drifið fylgir oft mynd með. Það er vissulega notalegt að fá kveðju frá góðum vinum og óskir um heillavænlegt nýtt ár. Einkum er skemmtilegt að fá kort frá vinum eða ættingjum sem eru búsettir í útlöndum. Ég á marga vini í hinum ýmsu löndum og bæði sendi þeim jólakort og fæ kort til baka. Í sumum löndum hefur þó tíðkast að senda jólabréf, en ekki kort. Þá er ætlast til þess að viðkomandi skrifi til baka og þakki fyrir jólabréfið.
Í dag má segja að það sé lang ódýrast að kaupa jólakort í búðum eins og Rúmfatalagernum sem selur bunka af kortum á nokkur hundruð krónur. Og það er vissulega góð hugmynd fyrir þá sem senda mikið af jólakortum. Sumir kaupa jólakortin alltaf af einhverjum félagasamtökum og styrkja þannig góðgerðarmál og ég verð að segja að mér finnst mjög sniðugt að styrkja þannig eitthvert málefni sem manni finnst miklu máli skipta. Það er líka alltaf notalegt að gera eitthvað svoleiðis svona í kringum jólin.
Mig langar að nefna nokkrar hugmyndir að jólakortum sem maður getur sjálfur hannað og búið til, þó svo að það sé ekki endilega ódýrara en að kaupa kortin tilbúin (maður þarf að kaupa umslög og efni í kortin). En það getur oft verið skemmtilegt að búa kortin til sjálf/ur.
Það hefur verið mjög vinsælt síðustu árin að búa til svo kölluð þrívíddarkort. Þá getur maður notað jólapappír, klippt út myndir og raðað hluta úr hverri ofan á aðra, gott er að nota litla límkubba til að festa myndirnar. Síðan límir maður þetta á litað karton sem maður hefur klippt í heppilega jólakortsstærð. Síðan er hægt að klippa mynstur í sjálft kortið utan með brúnunum.
Sumir eru rosalega góðir í því að teikna og lita og geta auðvitað búið til kort þannig og það er líka sniðugt að búa til klippimyndir.
Í dag eiga margir stafrænar myndavélar og því er ódýrt og skemmtilegt að taka myndir af einhverju eða einhverjum og líma á karton og búa þannig til persónulegt jólakort. Síðan er hægt að nota ýmsa límmiða við jólakortagerð auk glansmynda og jólapappírs sem hægt er að klippa til.
Eruð þið með fleiri hugmyndir að jólakortagerð? Hvað gerið þið? Sendið þið jólakort?

Karat.

E.s. á myndinni er jólakort frá árinu 1960 (Árbæjarsafnið).