Rauð eða hvít jól?
Þegar ég var lítil þá fannst mér að það ætti að byrja að snjóa þann fyrsta september af því að þá fannst mér að veturinn ætti væri kominn. Ég sat stundum við gluggann og beið og beið eftir fyrstu snjókornunum, sem vanalega létu samt ekki á sér kræla fyrr en undir lok októbermánaðar. Þetta var svona svipað og þegar maður á þessum sömu árum starði á hitamælinn og heimtaði að fara í stuttbuxur um leið og mælirinn sýndi 15°C. Þegar maður var lítinn vildi maður hafa snjó á veturna og sérstaklega á jólunum. Þá gat maður farið á skíði og skauta og rennt sér á snjóþotu, meira að segja í litlu brekkunni fyrir ofan húsið heima hjá mér. Mér fannst hún alveg svakalega stór, en þegar ég sé hana í dag átta ég mig á því að þetta voru nú ekki nema 4-5 metrar. Það var líka gaman að leggjast í snjóinn og búa til engla, snjókarla og snjóhús. Þá þráði maður að jólin yrðu hvít (og reyndar veturinn allur). Það var og er reyndar enn ómetanlega fallegt að horfa á tré sem eru þakin snjó, frostlagðar ár, læki og vötn, frostrósir á gluggum, og grýlukertin hangandi neðan af þakskeggjunum. Þegar ég hugsa um þetta, þá man ég að ég hef ekki séð grýlukerti eða frostrósir árum saman.
Í dag er ég ekkert svo hrifin af snjó, og mér finnst að ef jólin verði hvít eigi að byrja að snjóa í fyrsta lagi á Þorláksmessu og hann að taka upp 2. janúar. Það góða við snjóinn er nefnilega að það er svo þægilegt að stinga ragettuprikum ofan í hann á gamlárskvöld.
Síðari árin hef ég orðið mun hrifnari af rauðum jólum, þótt þau hvítu séu auðvitað jólalegri. Maður verður kaldur og blautur í snjó og það er erfitt að keyra í honum og komast leiðar sinnar. Auðvitað hugsaði ég ekki út í þetta þegar ég var yngri. Lítil börn elska snjóinn meira en hinir fullorðnu svo mikið er víst. Þegar jólin eru rauð dáist maður frekar að jólaljósunum sem prýða lang flesta glugga og gleðst yfir öllu því sem minnir mann á jólinn, meira en þegar hvíta ábreiðan minnir okkur á þau. Og jólin koma líka þó það sé enginn snjór. Eins og síðustu vetrar hafa verið held ég að reyndar sé útlit fyrir rauð jól og rauðan, eða að minnsta kosti bleikan vetur (það vona ég allavega). Núna í lok október er að minnsta kosti ekki farið að snjóa.
Hvað finnst ykkur? Rauð eða hvít jóla?