Það þekkja allir jólalagið “Jólasveinar ganga um gólf” og flestir syngja það svona:

Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.

Upp á stól
stendur mín kanna.
Níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.

En ef maður bara aðeins pælir í textanum þá sér maður nú undir eins að þetta er tóm steypa. Hvað eru jólasveinar, sem búa uppi í fjalli á Íslandi að gera með gullstafi, og síðan hvenær hefur Grýla verið svona þrifin. Svo eru ekki einu sinni ljóðstafir í þessu eins og er í öllum almennilegum íslenskum kvæðum.
Seinna erindið er svo náttúrulega alveg sér kapítuli útaf fyrir sig. Ég meina það. “Uppi á stól stendur mín kanna” hvað í Guðs nafni kemur þetta jólasveinunum við!!!

Ó, nei, í mínum húsum verður þetta sko aldrei sungið svona. Höldum okkur við réttu útgáfuna. Syngjum eitthvað sem “meikar sens” Syngjum þetta eins og skáldið ætlaðist til.

Jólasveinar ganga um gátt
með gildan staf í hendi.
Móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.

Upp á hól
stend ég og kanna.
Níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.

Virðingarfyllst
Dala