Sælt veri fólkið.

Mig langaði að deila með ykkur aðeins hugsunum sem eru farnar að íþyngja mér.
Þannig er mál með vexti að ég er 14 ára stelpa og ég á fimm eldri systkini sem öll nema eitt, tvítugur bróðir minn, eru flutt að heiman og eiga kærasta/börn og þess háttar. Jólin eru uppáhaldshátíðin mín, þau eru hátíðleg og sérstæð og þá er ég með mestallri fjölskyldu minni nema bróður mínum og hans fjölskyldu sem ekki býr hér á landi, ég hef aldrei verið með þeim um jólin. En tilhugsunin um jólin og undirbúninginn heldur mér í stuði allt árið. En auðvitað geta ekki alltaf allir verið á jólunum því þau þurfa náttúrulega líka að vera hjá fjölskyldum maka sinna. En núna ætlar til dæmis systir mín, maðurinn hennar og barnið þeirra að halda sér jól og koma ekki til okkar og ekki til mannsins hennar fjölskyldu. Jájá, allt gott og blessað, hjón á þrítugsaldri en mér finnst þetta mjög fúlt.

Og svona hefur þetta verið fleiri systkini mín sem auðvitað komast að því að lokum að ekkert er eins gott og foreldrahúsin á jólunum. Ég hef líka pælt í því hvort ég eigi eftir að hugsa svona þegar ég verð eldri. Og ég vona ekki. Jólin er hátíð fjölskyldunnar og þó að það sé rómantískt, sjálfstætt og sér að halda sín eigin jól þá getur maður alltaf notið þess þegar manns tími kemur þegar maður verður gamall, og þakkað fyrir að maður á foreldra (ef maður á þá) til að upplifa jólin með eins og þegar maður var lítill.

Ég hef lengi velt þessu fyrir mér, sérstaklega þegar systir mín tók þessa ákvörðun og talaði um þetta við mömmu og hún sagði að hún hefði líka fengið þessa tilfinningu að vera sjálfstæður og ekki alltaf upp á foreldrana kominn, en núna vildi hún óska þess að hún gæti alltaf verið hjá þeim, vegna þess að þau eru löngudáin.

Ég gæti ekki séð mig fyrir mér í framtíðinni með manninum mínum og börnum á aðfangadagskvöld að borða jólamatinn, hlusta á messuna, taka upp kort og pakka og þess háttar, mér fyndist það of einmanalegt og hreint ekki eins og jólin mín eiga að vera!

Til dæmis var minn tvítugi bróðir ekki viðstaddur jólin í fyrra og það var mjög fúlt og mér leiddist bara á aðfangadagskvöld. Hann var hjá kærustu sinni langt í burtu. Þetta voru ömurlegustu jól sem ég hef upplifað. Samt var fullt af öðru fólki, en það má ekki vanta einn einasta.

Mér finnst eins og ég eigi eitthvað eftir að segja.. en ég veit ekki hvað, kannski er mér bara svo mikið um að skrifa þetta.
En mig langar til að sjá hvað fólk hefur um þetta málefni að segja, fólk á öllum aldri, því mig langar virkilega að vita hvað fólki finnst.

Eigið hamingjurík jól!