Búðirnar hafa verið skreyttar, sumir farnir að hengja upp jólaljósin heima hjá sér - og ég er jafnvel búin að sjá glitta í jólasveinahúfu! Hvað þýðir þetta?
Jú, jólin eru að koma og stressið sem fylgir því að byrja. Allt of margir þurfa að kaupa allt of margar jólagjafir á sama tíma, á uppsprengdu verði meira að segja. Búðirnar verða bráðum alveg troðnar af sveittu fólki sem flýtir sér að ljúka jólainnkaupunum af, krossar við hverja gjöfina á fætur annari á listanum og bætir aðeins fleiri mínusum við á VISA reikninginn í leiðinni. Hvernig stendur á því að við látum allt þetta stress bitna á mánuðinum helga, mánuðinum sem við eigum að nota til þess að kveikja á kertum og syngja jólasálma með fjölskyldunni - er ekki til eitthvað sem heitir að njóta?
Þetta er nefninlega staðreynd: Jólin eru að drukkna í sölumennsku og stressi. Hvað varð um þessa huggulegu stemningu? Ekki spyrja mig, vegna þess að ég veit það ekki. Ætli hún sé ekki bara horfin sömu leið og kurteisin og nægjusemin?
En jæja. Hérna er smá ráð til að losna við allt þetta innkaupastress. Kaupum jólagjafir allt árið! Þá þarf maður ekki að stressa sig allt of mikið í jólamánuðinum, og getur notið jólanna! Ég fékk þessa frábæru hugmynd frá henni ömmu minni sem er bara ansi sniðug, enda þarf hún að gefa alveg rosalega margar gjafir(hún á sex börn, 12 barnabörn, og 3 barnabarnabörn).
Slöppum örlítið af, hitum okkur kakó og lesum jólasögur fyrir börnin…. :)
Kv. Tobba3