Nú fara jólin að nálgast með öllu því tilstandi sem þeim jafnan fylgir. Á flestum heimilum fylgja ákveðnar hefðir jólunum. Þessi jól koma því til með að verða örlítið frábrugðin á mörgum heimilum, þar sem enga er rjúpuna að fá í ár. Sterk hefð er fyrir rjúpunni í jólamatinn hjá mörgum, og ég þekki fólk sem segir jólin ekki komin fyrr en rjúpnalyktin lætur á sér kræla.

Mikil óánægja virðist vera yfir þeirri ákvörðun stjórnarinnar að setja veiðibann á rjúpuna. Ég persónulega finn ekki fyrir óþægindum vegna þessa þar sem rjúpur hafa aldrei kætt bragðlauka mína, en óháð mínum hagsmunum tel ég að þessi ákvörðun hafi verið tekin af illri nauðsyn, þar sem rjúpnastofninn fer minnkandi með hverju árinu.

En tilgangur minn með þessari grein er ekki að fræða ykkur gott fólk um nauðsyn veiðibannsins, heldur vil ég leggja fram nokkrar spurningar sem munu vonandi vekja fólk til umhugsunar og hjálpa því að sætta sig við rjúpnaleysið, og jólin yfir höfuð.

Málið er það að ég er ein af þeim sem ennþá líta á jólin sem hátíð ljóss og friðar, og kýs að halda þau í þeim anda. Í mínum huga snúast jólin um það að eyða dýrmætum tíma með ættingjum og vinum, í því rómantíska andrúmslofti sem jólin gjarnan skapa. Auðvitað er gott að flatmaga uppí sófa með fullan munninn af konfekti og gjafir í báðum höndum. En jólin vekja mig þó alltaf til umhugsunar um þá sem minna mega sín, eiga bágt og eru einmana. Þetta fólk þarf á stuðningi okkar að halda á þessum árstíma, því jólin eru svo langt frá því að vera dans á rósum fyrir suma, það er svo langt frá því að allir geti notið þess að vera til um jólin.

Hvað með það þótt að það sé smá ryk í hornunum og merkimiðarnir gleymist? Og hvað með það þó að við höfum ekki tíma til að föndra öll jólakortin sjálf eða strauja sparibuxurnar? Og hvað með það þó við höfum ekki haft efni á að kaupa rándýrar gjafir handa allri fjölskyldunni og öllum vinunum? Og skítt með það þó að ein smákökusortin gleymist! Jólin koma samt! Svo lengi sem við getum sýnt einhverjum hlýju og ást á jólunum, þá er tilgangnum náð. Slökum á “jólastressinu” og látum frekar eitthvað af þessum himinháu upphæðum sem við eyðum í gjafir renna til einhvers góðs málefnis, gerum eitthvað í anda þess sem færði okkur jólin. Það þarf ekki að breyta heiminum, en vitiði til, hvert góðverk breytir litlum hluta hans og ykkur sjálfum til hins betra.

Með ósk um gleðileg jól fyrir alla vil ég spyrja aftur;
Þurfum við virkilega rjúpur til að geta haldið heilög jól?